fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Hvaða stjórnmálaflokkur á mest eða skuldar mest?

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 26. janúar 2024 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfstæðisflokkurinn átti mest af eignum og skuldaði mest allra stjórnmálaflokka í árslok 2022. Virði eignanna var hins vegar mun hærra en skuldirnar og flokkurinn stóð best allra flokka hvað muninn milli eigna og skulda varðaði. Viðreisn átti minnst af eignum en Sósíalistaflokkurinn skuldaði minnst. Þrír flokkar stóðu frammi fyrir því að skuldir þeirra voru hærri en virði eigna þeirra.

Í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun kemur fram að þeir ársreikningar sem uppfylla skilyrði laga um starfsemi stjórnmálasamtaka sem og leiðbeiningar Ríkisendurskoðunar um reikningshald stjórnmálasamtaka og skil þeirra á upplýsingum hafa nú verið birtir á vef stofnunarinnar. Nýjustu ársreikningarnir eru fyrir árið 2022 og á vef Ríkisendurskoðunar má sjá ársreikninga allra flokka, fyrir það ár, sem eiga sæti á Alþingi nema Pírata en nýjasti ársreikningur þeirra, sem þar er að finna, er frá 2021.

Eyjan hefur yfirfarið alla ársreikninga þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi, auk flokksins sem var næstur því að komast inn á þing í síðustu alþingiskosningum Sósíalistaflokks Íslands, og tekið saman hver þeirra átti mest af eignum og hver þeirra skuldaði mest í árslok 2022. Í tilfelli Pírata er af fyrrgreindum ástæðum miðað við árslok 2021. Til hægðarauka eru allar tölur námundaðar.

Flokkur fólksins

Flokkurinn átti bifreiðar, áhöld, innbú og tæki sem voru bókfærð á alls 2,8 milljónir króna. Kröfur voru 3,2 milljónir og handbært fé, sem samkvæmt skýringum í ársreikningnum voru bankainnistæður sem voru óbundnar eða bundnar til skemmri tíma en þriggja ára, alls rúmar 45,9 milljónir króna.

Eignir flokksins námu samtals 51,9 milljónum króna.

Flokkur fólksins skuldaði ekki mikið í lok árs 2022. Þær samanstóðu af ýmsum skammtímaskuldum sem námu 2,4 milljónum króna.

Eigið fé, sem er eignir að frádregnum skuldum, var 49,5 milljónir króna.

Framsóknarflokkurinn

Elsti stjórnmálaflokkur landsins átti í árslok 2022 fasteignir fyrir 125,6 milljónir króna. Það er ekki tíundað nánar í ársreikningnum hvaða fasteignir er um ræða en þetta á væntanlega að minnsta kosti við um húsnæðið sem hýsir skrifstofur flokksins. Áhöld, tæki, innréttingar og búnaður nam 934.440 krónum. Eignarhlutir í nokkrum félögum voru 7,8 milljónir. Flokkurinn átti einnig skammtímakröfur upp á 19,7 milljónir króna og sjóð og bankainnistæður sem námu 21,9 milljónum.

Eignir Framsóknarflokksins í árslok 2022 voru 176,1 milljónir króna.

Flokkurinn var hins vegar skuldugri en það. Langtímaskuldir, einkum við fjármálastofnanir, voru 125,7 milljónir króna. Ýmsar skammtímaskuldir, helst viðskiptaskuldir og skuldir við lánastofnanir, námu 78,3 milljónum króna.

Skuldir flokksins voru í árslok 2022 203.968.802 krónur. Ljóst er því að skuldir Framsóknarflokksins voru hærri en eignir hans.

Eigið fé flokksins var neikvætt um 27,8 milljónir króna.

Miðflokkurinn

Flokkurinn stendur nokkuð betur en flokkurinn sem hann varð til úr.

Miðflokkur á eina fasteign sem hýsir skrifstofu flokksins í Kópavogi. Bókfært verð hennar í ársreikningnum er 79,3 milljónir króna. Innbú, áhöld og innréttingar voru 3,8 milljónir. Skammtímakröfur og handbært fé sem samanstóðu af sjóði, óbundnum bankainnstæðum og veltubréfum, með undirliggjandi innlánum hjá
fjármálafyrirtækjum, námu 11,8 milljónum króna.

Eignir Miðflokkins í árslok 2022 námu þar með 94,9 milljónum króna.

Skuldir samanstóðu af skammtímaskuldum sem hljóðuðu upp á 12,1 milljón króna.

Eigið fé flokksins var 82,9 milljónir króna.

Píratar

Eins og áður segir hefur ársreikningur Pírata fyrir árið 2022 ekki verið birtur á heimasíðu Ríkisendurskoðunar og hér verður því stuðst við ársreikning ársins 2021.

Í lok þess árs átti flokkurinn bifreið en virði hennar nam 1,2 milljónum króna. Skammtímakröfur sem flokkurinn átti voru 1,3 milljónir króna en handbært fé, sem samanstóð af sjóði og óbundnum bankareikningum, var 15,5 milljónir.

Eignir flokksins í árslok 2021 námu þar með 18 milljónum króna.

Píratar voru hins vegar í sömu stöðu í árslok 2021 og Framsóknarflokkurinn í árslok 2022. Skuldir flokksins voru hærri en virði eigna hans. Þær samanstóðu af skammtímaskuldum, aðallega við lánastonfnanir, sem námu 27,2 milljónum króna.

Eigið fé Pírata í árslok 2021 var því neikvætt um 9,2 milljónir króna.

Samfylkingin

Í árslok ársins 2022 átti Samfylkingin alls 8 fasteignir víða um land sem hýsa aðalskrifstofu flokksins og húsnæði aðildarfélaga. Bókfært verð þeirra var 246,4 milljónir króna. Aðrar eignir voru áhöld og tæki fyrir 5,7 milljónir, 7,1 milljónir í skammtímakröfur og handbært fé, í sjóði og bankainnistæðum, var 32,7 milljónir króna.

Eignir Samfylkingarinnar námu því, í árslok 2022, 291,9 milljónum króna.

Skuldir flokksins voru hins vegar 193,2 milljónir króna. Þar af voru 147,6 milljónir í langtímaskuldir og 45,6 millljónir í skammtímaskuldir.

Eigið fé í árslok 2022 var þar með 98,7 milljónir króna.

Sjálfstæðisflokkurinn

Það kemur kannski ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn er stöndugastur allra flokka og á mest af eignum. Bókfært virði fasteigna er 1,2 milljarður króna. Þar er væntanlega um að ræða húsnæði flokkins og undirfélaga hans víða um land. Áhöld, innbú og tæki námu 60,1 milljón króna. Skammtímakröfur, meðal annars vegna lóðar- og byggingaréttar, voru 240,3 milljónir en handbært fé, sjóður og bankainnistæður, var 268,7 milljónir króna. Loks nam verðbréfaeign flokksins 18,9 milljónum króna.

Virði eigna Sjálfstæðisflokksins í árslok 2022 var því 1,8 milljarður króna.

Flokkurinn skuldaði einnig mest allra flokka. Langtímaskuldir voru 402,9 milljónir króna og skammtímaskuldir 94,7 milljónir.

Skuldir Sjálfstæðisflokksins í árslok 2022 voru alls 497,7 milljónir króna.

Eigið fé hans nam 1,3 milljörðum króna.

Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistaflokkurinn átti í árslok 2022 áhöld og tæki fyrir 110.268 krónur. Kröfur sem flokkurinn átti á aðra aðila námu 5,1 milljón króna en innistæður á bankareikningum 3,4 milljónum.

Eignir flokksins námu alls 8,5 milljónum króna.

Skuldir hans voru alls 600.613 krónur.

Eigið fé nam því 7,9 milljónum króna.

Viðreisn

Viðreisn átti ekki miklar eignir í árslok 2022. Skammtímakröfur voru 1,9 milljónir króna og handbært fé, sem væntanlega samanstóð eins og hjá öðrum flokkum einkum af bankainnistæðum og sjóði var 4,2 milljónir króna.

Eignir flokksins námu því 6,1 milljón króna.

Skuldir voru hins vegar hærri og var alfarið um skammtímaskuldir að ræða. Þær voru alls 24,2 milljónir króna.

Eftir að rekstrarafkoma áranna 2022 og 2021 var tekin með í reikninginn var eigið fé Viðreisnar neikvætt sem nam 18,1 milljón króna.

Vinstri hreyfingin-grænt framboð

Vinstri grænir bókfærðu til eignar eina fasteign á Akureyri, sem hýsir flokkinn þar í bæ, og er bókfært verð hennar 4,6 milljónir króna. Áhöld, innbú og tæki voru 874.251 króna. Kröfur sem flokkurinn átti voru 2,4 milljónir króna. Handbært fé, sjóður og bankainnistæður, var 30,7 milljónir.

Eignir flokksins námu því 38,6 milljónum króna.

Skuldir voru eingöngu skammtímaskuldir, alls 9.2 milljónir króna.

Eigið fé í lok ársins 2022 nam 29,4 milljónum króna.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?