fbpx
Mánudagur 04.nóvember 2024
Eyjan

Dagur B. Eggertsson: Okkur bar skylda til að leiða Jón Gnarr og Besta flokkinn til valda í borginni eftir glæstan sigur þeirra

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 19. janúar 2024 17:00

Dagur B. Eggertsson er kátur með fylgi Samfylkingarinnar og meirihlutans í borginni. DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, stendur á krossgötum nú þegar hann stígur upp úr borgarstjórastólnum. Mögulega haslar hann sér völl í landsmálunum. Hann fer fögrum orðum um samstarfið við Jón Gnarr og segir grunn hafa verið lagðan í borgarastjóratíð Jóns að mörgu því sem verið er að gera í borginni í dag. Dagur segist hafa litið á það sem skyldu sína að leiða Jón og Besta flokkinn til valda í borginni eftir glæstan sigu þeirra í borgarstjórnarkosningunum 2010. Dagur. B. Eggertsson er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Eyjan - Dagur B -1.mp4
play-sharp-fill

Eyjan - Dagur B -1.mp4

„Ég held að þetta séu, alla vega fyrir mig persónulega, töluvert mikil tímamót og ætla að leyfa mér að líta á það bara sem ákveðið tækifæri, að maður hafi aðeins meira andrými til þess að kannski lesa hluti sem maður hefur ekki gefið sér tíma til – anda að sér einhverju nýju,“ segir Dagur.

„Ég lít á þetta sem ákveðnar krossgötur því þó að ég sé ekki farinn úr borgarmálunum hef ég verið alveg skýr á því að ég geri ekki ráð fyrir því að bjóða mig aftur fram í næstu borgarstjórnarkosningum. Þannig að ég fer núna að byrja að horfa aðeins í kringum mig og hlusta eftir öðru.“

Þetta hefur verið viðburðaríkur tími, þú kynnist borgarstjórastólnum 2007 …

„Já, hundrað dagarnir.“

Já, það var nú all sérstakt kjörtímabil …

„Já, gríðarlega sérstakt. Það voru fjórir borgarstjórar og jafn margir meirihlutar og gekk mikið á eins og kannski í samfélaginu almennt – á seinni hluta þessa kjörtímabils kemur hrunið,“ segir Dagur og bætir við: „Ég held kannski að mörg hafi ekki grunað að það myndi fylgja langt stöðugleikatímabil í kjölfar þess að Jón Gnarr yrði borgarstjóri.“ Dagur hlær.

Já, það kom á óvart og það voru náttúrlega mikil tíðindi þegar Besti flokkurinn fékk flest atkvæði í kosningunum 2010 og þið myndið meirihluta, Samfylkingin og Besti flokkurinn, eða þú og Jón Gnarr.

„Já, við gerum það, þessir tveir flokkar, og það var nú kannski eitthvað sem ekki kom af sjálfu sér þó að kannski eftir á líði fólki þannig. Jón kemur og vinnur þennan glæsilega sigur með í raun mjög lítilli atrennu. Hann mældist mjög lágt í upphafi kosningabaráttunnar en verður síðan stærsti flokkurinn og vinnur alveg risastóran sigur,“ segir Dagur.

„Meira og minna allt fólk í pólitík ráðlagði mér að gera hvað sem er nema að mynda meirihluta með Besta flokknum vegna þess að Jón, og hópurinn, var óskrifað blað. Ég hlustaði alveg á þau rök og þær viðvaranir. En ég var þá þegar kominn með þó nokkra reynslu og mér fannst einhvern veginn mikilvægt að hin hefðbundnu stjórnmál og hinir flokkarnir, við viðurkenndum að Jón væri að vinna stóran sigur og það væri að hluta til mitt og okkar hlutverk að leiða besta flokkinn og þessi sjónarmið til valda og leyfa þeim að spreyta sig.“

Þetta var náttúrlega vilji kjósenda, eða mjög stórs hluta þeirra.

„Já, og ég held að það hafi verið mögnuð gæfa fyrir samfélagið að í raun þessi mikla reiði og frústrasjón sem gekk yfir samfélagið fékk þarna farveg í jákvæðu og uppbyggilegu stjórnmálaafli sem Jón og Besti flokkurinn var. Mjög margt sem við höfum verið að gera í borginni undanfarin ár byggir á grunni sem við lögðum þarna,“ segir Dagur B. Eggertsson.

Í hlaðvarpinu ræðir Dagur um borgarstjóraferilinn, sem spannar nærri áratug, en einungis þrír borgarstjórar hafa setið lengur í embætti en hann; Knud Zimsen, Gunnar Thoroddsen og Geir Hallgrímsson. Dagur rifjar upp mjög óvenjulegar meirihlutaviðræður við Jón Gnarr, fer yfir stöðu borgarinnar og sveitarfélaganna almennt, almenningssamgöngur og vitaskuld er grafist fyrir um áform hans núna þegar hann stígur úr stóli borgarstjóra. Hvernig sér hann landsmálin og stöðu Samfylkingarinnar? Ætlar hann yfir á svið landsmálanna?

Hlaðvarpsþátturinn með Degi B. Eggertssyni verður aðgengilegur hér á Eyjunni í fyrramálið, laugardaginn 20. Janúar, kl. 8.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“
Hide picture