fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Síðasta sóknarfæri VG

Eyjan
Fimmtudaginn 18. janúar 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórnarflokkarnir staðhæfa að hlutdeild ríkissjóðs í lausn kjarasamninga muni ráða úrslitum um framvindu verðbólgu og vaxta.

  • En munu væntanlegar aðgerðir ríkissjóðs í raun stuðla að lækkun verðbólgu?
  • Eru stjórnarflokkarnir sammála um niðurskurð eða tekjuöflun vegna nýrra útgjalda?
  • Hvaða áhrif hefur ólík hugmyndafræði stjórnarflokkanna á möguleika þeirra til þess að nota ráðstafanir ríkissjóðs sem málefnalega lyftistöng?

Hærri eða lægri vextir?

Verðbólga mun lækka á þessu ári, aðallega vegna gífurlega hárra vaxta Seðlabankans og minni dýrtíðar í viðskiptalöndunum.

Aðilar vinnumarkaðarins boða svo vaxtalækkun í kjölfar kjarasamninga.

En forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands segir að þjóðhagslíkan hans bendi til þess að vextir ættu að hækka um tvö prósentustig þrátt fyrir þá krónutöluhækkun launa, sem rætt er um.

Vextir Seðlabankans hafa verið þrefalt hærri en í helstu grannlöndunum. Samt mun verðbólga ekki lækka meir en svo að hún verður áfram tvöfalt hærri en þar og langt yfir verðbólgumarkmiðinu. Vextirnir verða að sama skapi hærri, þótt þeir lækki eitthvað.

Ríkisstjórnin vill ekki ræða þennan kerfislega vanda. Stjórnarandstöðuflokkarnir gera það heldur ekki, nema Viðreisn. Þó snýst málið um samkeppnishæfni landsins.

Sama og síðast

Í tvennum síðustu kjarasamningum hefur ríkisstjórnin metið aðstæður svo að þjóðarbúið þyldi meiri hækkun ráðstöfunartekna en vinnumarkaðurinn taldi raunhæft að semja um.

Þetta hefur að stærstum hluta verið gert með umtalsverðum skattalækkunum. Þær hafa síðan aukið  hallarekstur ríkissjóðs og þannig átt sinn þátt í hárri verðbólgu.

Ríkisstjórnin metur aðstæður með sama hætti nú. En að þessu sinni ætlar hún, að ósk aðila vinnumarkaðarins, að auka ráðstöfunartekjur með því að stórauka ríkisútgjöld. Einkum mun vera horft til vaxtabóta, barnabóta og framlaga til húsnæðismála.

Engin áhrif á verðbólgu

Einu gildir hvort skattar eru lækkaðir eða útgjöld aukin. Ráðstafanir af þessu tagi eru vissulega  sanngjarnar en þær hafa sömu verðbólguáhrif og innistæðulausar launahækkanir, ef önnur útgjöld eru ekki lækkuð eða nýrra tekna aflað.

Nýr fjármálaráðherra hefur kynnt þá mikilvægu stefnubreytingu að mæta verði nýjum útgjöldum vegna kjarasamninga með niðurskurði. En þannig yrði hlutdeild ríkissjóðs í kjarasamningum þó aðeins hlutlaus gagnvart verðbólgu. Talsmenn VG og Framsóknar hafa enn ekki tekið undir þetta sjónarmið.

Eina leiðin til þess að beita ríkissjóði til að lækka verðbólgu er hins vegar að minnka hallann. Samt hafa ríkisstjórnarflokkarnir ekki gert upp við sig hvort auka eigi hallann og ýta undir verðbólgu eða halda honum óbreyttum og viðhalda hlutleysi gagnvart dýrtíðaráhrifunum.

Enginn þeirra talar um ríkisfjármálaráðstafanir til þess að lækka verðbólgu. Þær hvíla áfram á Seðlabankanum, vinnumarkaðnum og viðskiptalöndunum.

Dæmið snýst við

Í síðustu kjarasamningum féllu ráðstafanir ríkissjóðs aðallega að stefnu sjálfstæðismanna um lækkun skatta.

Í væntanlegum samningum hefur þessu dæmi verið snúið við. Nú er ráðgert að ráðstafanir ríkissjóðs falli nær alfarið að stefnu VG um aukin ríkisútgjöld til velferðarmála.

Á sama tíma eru þingmenn sjálfstæðismanna að undirbúa kosningar með skipulegum málflutningi um nauðsyn þess að draga úr ríkisumsvifum.

Óvissa

Hér snúa höfuð forystumanna stjórnarflokkanna í gagnstæðar áttir.

Fyrrverandi formaður þingflokks sjálfstæðismanna segir í nýlegri Morgunblaðsgrein að vilji þeirra sé að hlutdeild ríkissjóðs í kjarasamningum verði áfram í formi skattalækkana.

Þingflokkurinn hafði þegar gefið þessa stefnu upp á bátinn þegar greinin var skrifuð.

Óvissu er jafnvel enn undirorpið hvort fjármálaráðherra nær markmiði sínu um niðurskurð á móti nýjum útgjöldum til þess að tryggja verðbólguhlutleysi. Lengra nær markmiðið ekki.

Sóknarstaða

Þó að VG og Sjálfstæðisflokkur hafi til þessa útilokað mál hvors annars í nokkuð jöfnum hlutföllum hefur eigi að síður hallað meir á VG í skoðanakönnunum.

Aukin útgjöld skipta sköpum fyrir VG. Allt bendir því til þess að VG hafi meiri möguleika en samstarfsflokkarnir til þess að nota hlutdeild ríkissjóðs í komandi kjarasamningum sem málefnalega lyftistöng.

Trúlega er þetta síðasta tækifærið, sem VG hefur til þess að snúa málefnum stjórnarsamstarfsins sér í hag fyrir kosningar á næsta ári. Að sama skapi veikist hugmyndafræðilegur trúverðugleiki samstarfsflokkanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
EyjanFastir pennar
13.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!