fbpx
Laugardagur 15.mars 2025
Eyjan

Ofurlaunaðir framkvæmdastjórar komi fram af „fádæma hroka og yfirlæti“ til að réttlæta spillingu og sjálftöku

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 10. janúar 2024 11:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, telur pott brotinn í starfsemi lífeyrissjóðanna á Íslandi. Þar þrífist sjálftaka og spilling sem sjáist skýrt í gífurlegum rekstrarkostnaði og ofurlaunum stjórnenda þeirra. Leyfi fólk sér að gagnýna þessa staðreynd þá stígi stjórnendur sjóðanna fram af hroka og yfirlæti. Þetta segir Ragnar Þór í tilefni þess að sjóðirnir freista þess nú að réttlæta taprekstur þeirra árið 2022.

Spilling og sjálftaka

Ragnar skrifar á Facebook:

„Nú keppast ofurlaunaðir framkvæmdastjórar lífeyrissjóða við að réttlæta gríðarlegt tap þeirra árið 2022. Þeir eru hættir að rengja rauntapið upp á ríflega 800 milljarða en gagnrýna framsetningu á rauntapi. Sem hlýtur samt að vera eina rétta viðmiðið þar sem lífeyrisréttindi eru verðbætt.

Svo koma fram fullyrðingar að taka þurfi tillit til lengri tíma í ávöxtun sem er einnig áhugaverð nálgun. Sérstaklega í ljósi þess þegar innlendur hlutabréfamarkaður þurkaðist út í hruninu 2008.
Lífeyrissjóðirnir töpuðu 97% allra innlendra hlutabréfa en langtímaávöxtun, meðaltalið, var samt gott. Samanborið við Icelandair sem hefur tvisvar orðið „gjaldþrota“ frá 2008 en samt er langtímaávöxtun sjóðanna í félaginu góð.

Þetta er þekkt aðferð sjóðanna til að fegra stöðuna þar sem sá meðaltalsútreikningur sem sjóðirnir nota er í besta falli vafasamur og stenst auðvitað enga skoðun. Svo notast sjóðirnir við nafnávöxtun þegar það hentar þeim betur að fegra hrikalega stöðu sína.

Það sem vekur sérstaka athygli er að „uppgefinn“ rekstrarkostnaður, með fjárfestingargjöldum, fimm stærstu sjóðanna var um 15,7 milljarðar árið 2020 en 21,8 milljarðar árið 2022 þegar þeir töpuðu að raunvirði um 845 milljörðum króna. Það er von að maður spyrji hvers við sjóðfélagar eigum að gjalda fyrir þetta bull. Til að toppa vitleysuna greiddum við framkvæmdastjórum fimm stærstu sjóðanna 167 milljónir í launagreiðslur og önnur hlunnindi á tap árinu mikla 2022 og fimm milljörðum meira í rekstrarkostnað og fjárfestingargjöld.

Stjórnendur sjóðanna koma fram af sama fádæma hrokanum og yfirlæti þegar eigendur sjóðanna gagnrýna sjálftökuna og ég leyfi mér að segja spillinguna sem þrýfst í þessu kerfi.

Þetta er svo sannarlega ríki í ríki og okkur kemur þetta ekki við.“

Ófagleg umræða

Þessi færsla Ragnars Þórs vísar til þeirrar umræðu sem er að eiga sér stað um þessar mundir, en hann vakti sjálfur athygli á því sem hann kallaði 845 milljarða tap lífeyrissjóðanna á árinu 2022. Gylfi Magnússon prófessor við Háskóla Íslands taldi tapið ögn minna, eða 815 milljarðar, en ljóst væri þó að tapið myndi kalla á lækkun lífeyrisgreiðslna og réttinda. Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, brást ókvæða við þessum fullyrðingum og skrifaði grein í Viðskiptablaðið þar sem hann kallaði umræðuna ófaglega. Þó fjármagnstekjur hafi verið neikvæðar þá endurspegli það þróun á eignamörkuðum en gefi takmarkaða mynd af stöðu sjóðanna. Ekki sé um eiginlegt tap að ræða.

Kom fram í desember að tapið næmi um 218 milljörðum fyrir árið 2022, en við það tilefni sagði Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, í samtali við RÚV, að þetta gæfi ekki tilefni fyrir lækkun lífeyrisgreiðslna. Horfa þurfi til langtímaávöxtunar og árangurs fremur en á stakt ár.

Forstöðumaður samskipta hjá Gildi ritaði grein í desember til að mótmæla umræðunni þar sem hann sagði hagnað lífeyrissjóða ríflega 2.200 milljarða síðustu fimm árin. Gera þurfi ráð fyrir sveiflum í rekstri enda séu lífeyrissjóðirnir langtímafjárfestar á fjármálamarkaði. Þegar uppi er staðið sé meiri hagnaður en tap af þessum fjárfestingum, en það sé ekki eins spennandi fyrirsögn og að slá því fram að tapið nemi hundruð milljarða.

Gylfi Magnússon, prófessor, segir þó ljóst að tapið sé töluvert meira en þeir 200 milljarðar sem sjóðirnir gangast við. Þrátt fyrir að vissulega þurfi að horfa á langtímaárangur þá sé þó ljóst að sjóðirnir séu ekki að fara að skila betri afkomu fyrir 2023.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Furðar sig á hræsni Sjálfstæðismanna í ljósi sögunnar – „Getur verið að Hildur vilji bara sjálf fá þessi embætti?“

Furðar sig á hræsni Sjálfstæðismanna í ljósi sögunnar – „Getur verið að Hildur vilji bara sjálf fá þessi embætti?“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingmaður segir „fullorðnum smábörnum“ til syndanna

Þingmaður segir „fullorðnum smábörnum“ til syndanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um hvað snýst bandalag?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um hvað snýst bandalag?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður

Steinunn Ólína skrifar: Friður sé með yður