Samfylkingin fengi 19 menn kjörna ef kosið væri nú miðað við nýjan þjóðarpúls Gallup. Ríkisstjórnarflokkarnir fengju samanlagt 22 þingmenn.
Í Þjóðarpúlsinum mælist Samfylkingin nú með 28,4 prósent og hækkar örlítið á milli mánaða. Umreiknað í þingmannafjölda eru þetta 19 sæti, rúmlega þrefaldur núverandi fjöldi þingmanna Samfylkingar.
Sjálfstæðisflokkurinn missir næstum 2 prósent og mælist nú með 18,1 prósent. Flokkurinn hefur aldrei mælst lægri í Þjóðarpúlsi Gallup. Þetta myndi afla flokknum 12 þingsætum í Alþingiskosningum.
Miðflokkurinn heldur áfram að sækja í sig veðrið og mælist nú með 9,7 prósent. Það dugar fyrir 6 þingmönnum sem yrði þreföldun þar sem þingmenn flokksins eru aðeins 2 í dag.
Framsóknarflokkurinn bætir aðeins við sig, um tæpt prósentustig, og mælist nú með 9,4 prósent. Það jafngildir 6 þingsætum eins og hjá Miðflokki.
Það sama á reyndar við Pírata og Viðreisn líka, sem mælast nú með 9,1 og 8,8 prósent. Píratar fara örlítið niður á milli mánaða en Viðreisn upp um tæpt prósent.
Flokkur fólksins stendur næstum því í stað með 6,8 prósent sem jafngildir 4 þingsætum. Flokkur forsætisráðherra, Vinstri græn, myndu einnig fá 4 þingsæti með 6 prósent en það er bæting um næstum því eitt prósent.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna stendur í stað upp á punkt, það er 33,5 prósent. En stuðningur við stjórnina sem slíka lækkar um eitt prósentustig, úr 33 í 32 prósent.
Könnunin var netkönnun, gerð dagana 1. desember til 1. janúar. Úrtakið var 9.636 og svarhlutfallið 48,9 prósent.