fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Botnlaus mann- og dýrafyrirlitning

Eyjan
Föstudaginn 8. september 2023 16:31

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 8.maí birti MAST skelfilega skýrslu um hvalveiðar sumarið 2022, kolsvarta skýrslu, sem sýndi, að lífið hafði verið murkað úr 41%  dýranna, með mis fólskulegum- og skelfilegum hætti. Fór um alla góða menn.

Ekki hef ég séð, hversu margar hvalkýrnar voru, af þeim 148 dýrum, sem drepin voru, en ýmsar þeirra hafa verið með nánast fullgenginn kálf í kviði og aðrar með lifandi kálf sér við hlið, sem hefur veslast upp og soltið í hel við móðurmissinn.

Skýrsla MAST for svo formlega til Fagráðs um velferð dýra 22. maí, og kom þessi niðurstaða frá Fagráði 16. júní:

„Niðurstaða ráðsins var sú, að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar stórhvela samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra“.

Gaf ráðið jafnframt til kynna, að það telji, að ekki sé hægt að bæta svo úr, með núverandi skipum, tólum og veiðiaðferðum, að veiðar geti samræmst þessum lögum.

Á grundvelli skýrslu MAST frá 8. maí og álitsgjafar Fagráðs á skýrslunni, frá 16. júní, bannaði Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, svo hvalveiðar, fyrst um sinn til 31. ágúst, 20. júní.

Var ákvörðun Svandísar málefnaleg, vel grunduð og rétt, það marg lá fyrir – hafði reyndar gert þá þegar 2014, þegar skýrsla dr. Egil Ole Öen, Wildlife Management, var lögð fram –  að veiðarnar, veiðiaðferðir, stæðust ekki lög nr. 55/2013 með neinum hætti.

Á sama hátt var ákvörðun Svandísar 31. ágúst, um að leyfa veiðar að nýju, mikið áfall. Í veðri var látið vaka, að veiða mætti aftur aðeins með miklu strangari skilyrðum og harðara eftirliti, en gilti fyrir bann, en ný reglugerð ráðherra, nr. 895/2023, átti að ganga hart í átt skerpingar veiðiskilyrða og tryggja samstundisdauða dýranna; að þau séu bara skotin með einum sprengjuskutli, sem drepi strax.

Undarlegt nokk segir Kristján Loftsson þó á forsíðu MBL 1. september, fyrst í stórfyrirsögn. „Við getum alveg lifað með þessu“, svo í texta m.a. þetta: „Ég er ekki búinn að lúslesa reglugerðina, en mér sýnist, að ákvæði hennar kveði að mestu leyti á um það sem við höfum verið að gera hvort sem er“.

Í millitíðinni er svo búið að reyna á nýja reglugerð og veiðar skv. henni:

Hvalur 8 kom með eina drepna langreyði að landi nú í morgun, og hafði þurft 2 skot, 2 sprengjuskutla, til að murka líftóruna úr dýrinu. Annað skotið virðist hafa hæft dýrið í höfuðið, án þess að drepa, hitt í síðuna. Það tekur minnst 7-8 mínútur að endurhlaða skutulbyssu, svo þarf að komast aftur í skotfæri, hér í blindþoku (sjá að neðan). Hversu langan tíma blessað dýrið þurfti að kveljast, ganga í gegnum vítiskvalir, geta menn rétt ímyndað sér.

Framkvæmdastjóri Hard to Port, Arne Feuerhahn, telur, skv. Heimildinni, að hér sé um kvendýr að ræða. Hvað þá með kálfinn!? Skv. nýrri reglugerð á að vera bannað að veiða kýr frá kálfi.

Hvalur 9 kom svo með 2 drepin dýr, og er ljóst, að annað þeirra þurfti að skjóta tvisvar líka. Í bæði skipti í síðu, en dauðastríðið hefur líka hér verið langt og hart. Kvalræðisdauði í 10-20 mínútur eða lengur.

Í fyrra drápust 59% dýranna strax, og þurftu 41% að líða og þjást í allt að 2 klukkutíma. Nú, eftir stórhertar reglur, miklu harðari skilyrði, sem eiga að vera, byrja veiðarnar með enn skelfilegra hlutfalli: 33% á móti 67%. Það er ótrúlegur andskoti, að þetta skuli gerast og látið viðgangast, segi ég bara.

Í Morgunblaðinu í dag segir í frétt um þessar hvalveiðar: „Veiðarnar gengu vel þrátt fyrir blindþoku og leiðindaveður“. „Það gengur verr, þegar er lítið skyggni“ segir Guðmundur E. Gunnlaugsson, stöðvarstjóri hjá Hval. 

Hvernig á að vera hægt að hitta á dauðapunkt dýrsins og sjá, hvort kálfur fylgi kýr, við þessi skilyrði?

Fyrir mér er það botnlaus mann- og dýrafyrirlitning að ganga til veiða við þessi slæmu veðurskilyrði; fyrirlitning við ráðherra og stjórnsýslu, dýravini og annað gott fólk, svo og við aðra þá, sem gera nokkuð með ásýnd og ímynd landsins, annars vegar, og gagnvart þessum háþróuðu, spendýrum, hinum friðsælu risum úthafanna, og velferð þeirra, hins vegar. Svei!

Hér er vert að líta fyrst á 5. gr. nýrrar reglugerðar Svandísar:

„Aðstæður við veiðar: Veiðar á langreyðum skulu fara fram í dagsbirtu. Þá skulu ytri skilyrði vera með þeim hætti, að líkur séu til þess, að aflífun fari fram samstundis og m.a. gætt að ölduhæð, veðurskilyrðum og skyggni í því sambandi.“

Og, 6. gr. hljóðar svona:

„Skimun og lengdarmat: Þegar dýr sést, skal gengið úr skugga um, að ekki fylgi kálfur í grend við það…“ Og svo: „Skulu viðmið vera til þess fallin, að tryggja að hvalir séu ekki veiddir, sem kálfar fylgja“.

Kristján Loftsson og hans lið gefa augsýnilega bara skít í svona kvak í ráðherra og stjórnvöldum. Kaldir karlar og miklir menn fara bara sínu fram. Með fullum stuðningi ekki bara D, B og M, heldur nú líka S. Einhvers staðar er F þarna líka á flakki.

Annað eins fólk, annað eins land! Það er engin furða, að Styrmi Gunnarssyni, heitnum, hafi misboðið á stundum. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir óvíst að Kristrúnu takist að halda Degi úti í horni til lengdar

Segir óvíst að Kristrúnu takist að halda Degi úti í horni til lengdar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi