Vodafone hefur tengst DE-CIX stærstu skiptistöð internet umferðar í Evrópu, fyrst íslenskra netþjónustuaðila. Í tilkynningu frá Vodafone segir að þessi nýja tenging við DE-CIX í Frankfurt sé mikil þjónustubót fyrir viðskiptavini Vodafone sem muni efla netgæði og flutningshraða til muna. Leikjaspilarar ættu að finna mikinn mun á svartíma til og frá landinu með þessari nýju tengingu.
„Við erum alltaf að leita leiða til að hámarka upplifun viðskiptavina. Öflugar nettengingar til og frá landinu er lykilþáttur í starfsemi vaxandi iðnaðar á Íslandi og er okkur því mikið gleðiefni að ná að tryggja tenginguna við stærstu netumferðastöð í Evrópu. Með þessu erum við að efla þjónustuna við leikjaspilara ásamt því að bjóða enn fjölbreyttara leiðarval á Internetinu fyrir þá sem vilja hámarka nethraða, svartíma og gæði,“ segir Siggeir Örn Steinþórsson, forstöðumaður vörustýringar og viðskiptavina upplifunar hjá Vodafone.
Vodafone er nú tengt við fimm skiptistöðvar fyrir netumferð í Evrópu, þar af eru þrjár tengdar í gegnum Danice sæstrenginn DE-CIX í Frankfurt, AMS-IX í Amsterdam og NetNod í Svíþjóð. Tenging við LINX í London er í gegnum Farice sæstrenginn og INEX á Írlandi í gegnum IRIS sæstrenginn.