fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Uppreisn gegn ójöfnuði

Eyjan
Fimmtudaginn 28. september 2023 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í síðustu viku neyddist Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri til að endurvekja hlutverk verðtryggðu krónunnar; tveimur árum eftir að hann taldi þjóðinni í trú um að hún hefði verið lögð til hinstu hvíldar.

Verðtryggða krónan er í raun sérstakur gjaldmiðill. Enginn veit betur en seðlabankastjóri hvers kyns gallagripur hún er. Nærri má geta að það hafi verið þung spor að hljóðnemanum til að tilkynna þjóðinni að blása þyrfti lífi í þennan draug að nýju.

Íslenskur hagfræðingur, sem starfar erlendis, Ólafur Margeirsson, skopaðist að seðlabankastjóra með því að staðhæfa að hagfræðingar á meginlandi Evrópu hefðu hlegið saman í kór ef Christine Lagarde bankastjóri Seðlabanka Evrópu hefði talað á sama veg.

Út í hött

Trúlega er það rétt. Samanburðurinn er bara út í hött. Eðlilegra hefði verið að spyrja: Hvað hefði Christine Lagarde gert hefði hún setið í stól Ásgeirs Jónssonar og stjórnað krónunni en ekki evrunni?

Hagfræðingar meginlandsins eru líklegri til að hafa sýnt henni samúð í þeirri stöðu fremur en að hafa hana að háði og spotti.

Nær lagi væri að gera athugasemd við fyrirheit seðlabankastjóra um eilífan dvala verðtryggðu krónunnar. Þá talaði hann gegn betri vitund. Trúlega hefur það bara verið hugsað sem pólitísk hjálp í viðlögum fyrir ríkisstjórnina.

Menn mega ekki gleyma að vextir lækkuðu ekki vegna góðrar hagstjórnar, heldur vegna þess að stórt flugfélag varð gjaldþrota með áhrifum á allt þjóðarbúið og kjarasamninga. Í framhaldinu stöðvaðist ferðaþjónustan vegna heimsfaraldurs.

Þríþætt hlutverk

Gjaldmiðill gegnir þríþættu hlutverki:

1) Fólk þarf að geta notað hann sem skiptimynt í daglegum viðskiptum. 2) Það þarf að geta notað hann til að geyma verðmæti. 3) Og loks þarf hann að vera mælikvarði á hagkvæmni í rekstri.

Evran, sem Christine Lagarde stýrir, uppfyllir öll þessi þrjú skilyrði.

Krónan, sem Ásgeir Jónsson stýrir, fullnægir tæplega einu af þessum þremur skilyrðum.

Hún dugar ekki til að geyma verðmæti. Þess vegna var verðtryggða krónan vakin af dvala.

Hún er ótækur mælikvarði á rekstur. Þess vegna gera útflutningsfyrirtækin upp í erlendri mynt.

Hún dugar að stærstum hluta í daglegum viðskiptum. En um leið og við förum til að mynda í bílaumboð gerast kaupin þar í erlendri mynt.

Verðtryggða krónan, sem Ásgeir Jónsson stýrir, dugar til að geyma verðmæti. Hún er hins vegar óhæf í daglegum viðskiptum og sem mælikvarði á árangur í rekstri.

Óréttlæti

Þetta hefur ekkert með hæfni seðlabankastjóra eða hjartalag hans að gera.

Það breytir ekki hinu að fátt er skiljanlegra en að forystumenn launþega reiðist þegar verðtryggða krónan er vakin af dvala.

Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins hitti naglann á höfuðið þegar hann í grein í síðustu viku benti á þann mikla aðstöðumun í samfélaginu, sem þrískipt gjaldmiðlakerfi veldur.

Þeir sem lakast eru settir búa við ófullkomnasta gjaldmiðilinn og þyngstu vaxtabyrðina. Þeir sem best eru settir búa í miklu hagstæðara vaxtaumhverfi og fá að nota mynt sem fullnægir því þríþætta hlutverki sem gjaldmiðlar eiga að þjóna.

Þeir sem loka augunum fyrir þeim veruleika, sem formaður Starfsgreinasambandsins bendir á, geta ekki talað fyrir hugmyndafræði jafnra tækifæra. Yfirlýsing hans var uppreisn gegn ójöfnuði, sem óhjákvæmilega veldur viðvarandi óstöðugleika á vinnumarkaði.

Verkurinn

Óréttlæti þessa þrískipta peningakerfis endurspeglast vel í húsnæðismálunum nú um stundir, og hefur reyndar lengi gert.

Fyrir níu árum skrifuðu hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson:

Íslendingar verða að horfast í augu við það að með lítinn gjaldmiðil er erfitt að lofa stöðugum kaupmætti, lágri verðbólgu og fyrirsjáanlegri greiðslubyrði húsnæðislána.“

Þorri Íslendinga horfist í augu við þennan veruleika í dag.

Eigendur hótelkeðjanna, frystihúsanna, togaranna, fiskeldisstöðvanna og orkuiðnaðarfyrirtækjanna þurfa hins vegar ekki að horfast í augu við veruleika heimilanna þegar þeir fjárfesta.

Verkurinn er sá að það reynist þrautin þyngri að fá meirihlutann á Alþingi til að horfast í augu við þann veruleika misskiptingar, sem formaður Starfsgreinasambandsins er ósáttur við og hagfræðingar hafa lengi bent á.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
07.12.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?