Í nýjum Dagfarapistli á Hringbraut skrifar Ólafur Arnarson að Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra verði ekki kápan úr því klæðinu að setja sjö milljarða í að reisa nýtt fangelsi í stað Litla-Hrauns.
Skrifar Ólafur að svo virðist sem Guðrúnu sé efst í huga að fangelsið verði í kjördæmi hennar líkt og Litla-Hraun. Hann vekur athygli á því að hvergi sé minnst á sjö milljarða í nýtt fangelsi í nýframlögðu fjármálafrumvarpi, né heldur sé gert ráð fyrir slíkum útgjöldum í fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Hann telur Guðrúnu með þessu vera að reyna að ganga í augu kjósenda, enda styttist í næstu kosningar og þá munar um sjö milljarða framkvæmdir í kjördæminu.
Ólafur segir ljóst að staðsetning nýs fangelsis á sama stað og Litla-Hraun stendur, sé engan veginn sú hagstæðasta, enda sé staðurinn í 45 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni. Miklu eðlilegra sé að stækka fangelsið á Hólmsheiði en að ráðast i gríðarlegar framkvæmdir fyrir austan fjall og finna nýtt „krúttlegt“ nafn á nýja fangelsið.
„Engum heilvita manni dytti í hug að hanna og skipuleggja nýtt 100 rýma fangelsi frá grunni 45 kílómetra frá höfuðborginni ef hagkvæmni þess og notagildi væru höfð að leiðarljósi. Þá má velta því fyrir sér hvort æskilegasta þróunin í fangelsismálum hér á landi sé að byggja einatt meira húsnæði til að nauðungarvista fólk fremur en að leita lausna í aukinni samfélagsþjónustu dæmdra og öðrum leiðum en að loka fólk inni í læstum klefum,“ skrifar Ólafur.
Hann segir þetta vanhugsaða útspil Guðrúnar dæmi um kjördæmapot, sem ráðherrar og þingmenn séu enn fastir í. „Þessi gamaldags „hrepparígur“ grasserar enn og er hreint ekki boðlegur.“
Ólafur telur að Guðrúnu verði ekki að ósk sinni um að byggja sjö milljarða fangelsi í kjördæmi sínu og reiknar með því að skynsemin muni ráða þegar málið fái umfjöllun fjárveitingarvaldsins þannig að mannvirkinu verði valinn staður á Hólmsheiði og ríkissjóði þannig spöruð óþarfa útgjöld. Ekki megi gleyma hagræðinu af því fyrir lögreglu og réttargæslumenn, að ógleymdum aðstandendum fanga, að þurfa ekki að aka austur fyrir fjall.
Dagfara í heild má lesa hér.