fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hinar raunverulegu skepnur

Eyjan
Sunnudaginn 24. september 2023 06:00

Ole Anton Bieltvedt

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í eitt sinn náðist ekki í núverandi umhverfisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson, þegar nokkuð lá við, en hann reyndist þá hafa farið á hreindýraveiðar, sér til dægradvalar og skemmtunar – að drepa eitt hreindýr að gamni sínu – því varla voru þarfir til staðar hjá ráðherra.

Með í förum var svo aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, sem þá var. Auk aðstoðarmennsku við ráðherra virtist sá hálfgerður atvinnumaður í hreindýradrápi, enda sýndi hann sig á Facebook með drepið dýr annars vegar og skotvopn vígalegt, hins vegar, glaðbeittur og skælbrosandi. Allundarleg starfsblanda það.

Þetta sýnir, að háttsettir menn í stjórnkerfinu stunda, og styðja þá auðvitað líka, hreindýraveiðar. Það er reyndar með ólíkindum smekkleysi Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins að hann skuli hafa skipað alkunnan veiðimann í embætti umhverfisráðherra, en það er einmitt í verkahring umhverfisráðherra að tryggja vernd og velferð íslenzkrar náttúru og lífríkis, hreindýr þar auðvitað meðtalin.

Á sama hátt verður að telja það nokkurn siðferðisbrest hjá Guðlaugi Þór, að taka að sér þetta embætti. Í flestum öðrum ríkjum, sem gera nokkuð með siðferði og ábyrgð ráðamanna,  hefði Guðlaugur Þór talizt vanhæfur í þennan ráðherradóm.

En, við erum auðvitað á Íslandi.

Engar sögur fara af því, hversu hittnir þessi veiðikappar hafa verið, hvort þeir hitti alltaf bráðina, blessuð dýrin, vel, tryggi þeim samstundis-dauða, eða særa þau stundum aðeins, til þess eins, að þau kveljist og þjáist, kannske vikum eða mánuðum saman – e.t.v. kom skot í höfuð eða trýni og gerði dýrinu ókleift éta, kannske lenti skot í fæti, þannig, að dýrið varð að bjargast, jafn lengi og slíkt gengur, á þremur fótum – en af þeim hreindýrum, sem felld voru eitt sumarið, höfðu 33 dýr verið skotin og limlest áður, en tórðu, misjaafnlega illa á sig komin, lentu svo í annarri árás, og voru þá endanlega drepin. Annað eins sport!

Nefna má, að aðstoðarmaðurinn var í Félagi leiðsögumanna með hreindýraveiðum, en það félag var þá einmitt að mæla með því, að veiðar hreindýra með boga og örvum yrðu leyfðar. Flott félag og háleit málefnabarátta það. Góður félagsskapur fyrir aðstoðarmann félagsmálaráðherra.

Undirrituðum verður stundum hugsað til þess, að það eru ekki dýrin, sem eru hinar raunverulegu skepnur, heldur mennirnir. 

Í janúar 2020 héldu Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, umhverfisráðuneytið og Náttúrustofa Austurlands fund, þar sem þau tilmæli Fagráðs um velferð dýra lágu fyrir, að mylkar hreindýrskýr yrðu ekki felldar frá kálfum sínum.

Þar sem hreinkýr eru mjólkandi í 5 mánuði og hreinkálfar fæðast um mánaðamótin maí/júní, hefði þessi stefnumörkun átta að þýða, að kúaveiðar hefðu ekki mátt hefjast fyrr en 1. nóvember, þegar kálfar væru 5 mánaða, í stað 1. ágúst, þegar kálfar eru rétt 2ja mánaða, eins og var.

Á þeim tíma hefði fengitími hreindýra, sem er í október, líka komið inn í þetta ferli, en á fengitíma losnar nokkuð um tengsl hreinmóður og kálfs, sem hefði gert kálfum móðurmissinn nokkru bærilegri, þó að móðir og kálfur séu áfram nátengd og fylgist að fram á næsta vor, ef bæði lifa.

Ofangreind tilmæli Fagráðs voru því okkur, Jarðarvinum, mjög að skapi, en við höfum verið að berjast fyrir því, að griðatími hreinkálfa yrði lengdur. Ekkert spendýr hefur náttúrulega burði til að standa á eigin fótum, eitt og móðurlaust, án móðurmjólkur, leiðsagnar og verndar, rétt 2ja mánaða gamalt.

Tilmæli Fagráðs um griðatíma kálfa til 1. nóvember hefðu því verið mikið framfaraspor fyrir blessaða kálfana. Þeir hefðu haldið mæðrum sínum í minnst 5 mánuði í stað 2ja. Og, hvað gerðist!?

Guðlaugur Þór hefur nú haft síðasta orðið um hreindýraveiðar í 2 sumur, án þess að gera nokkurn skapaðan hlut með þessi tilmæli Fagráðs um velferð dýra, sem þó er ætlað að veita stjórnvöldum leiðbeiningar og ráðgjöf í þessum efnum skv. skýrum lagaákvæðum.

Hreindýr má því eftir sem áður fella frá og með 1. ágúst (þegar yngstu hreinkálfar eru 6-8 vikna), en nú er þeim tilmælum beint til veiðimanna og leiðsögumanna þeirra, að þeir drepi mest geldar kýr fram til 15. ágúst. Þessi tilmæli komu reyndar frá forvera Guðlaugs Þórs.

Það er þó auðvitað helber skrípaleikur, því hreindýr eru hjarðdýr, geldar kýr ekki nema 10-15% af kúahópnum og nánast ómögulegt að greina þær frá hinum kúnum, munur nánast enginn, nema helzt á júgrum, en hvernig á að sjá hann úr 200m fjarlægð?

Þessi ljóti drápsleikur og illþyrmilega dýraníð gagnvart kálfunum hefur því haldið áfram síðustu 2 sumrin, gegn skýrri ráðgjöf Fagráðs, en með blessun Guðlaugs Þórs.

Á næstu vikum verður stefna mótuð fyrir hreindýraveiðar 2024. Er vonandi, að Fagráð og Matvælastofnun gangi nú hart fram við Umhverfisstofnun, og þá einkum umhverfisráðherra, sem endanlega ræður, með það að hætt verði að drepa mylkar hreinkýr. Fagráð réði frá frekari hvalveiðum með óbreyttum hætti, enda var þar um heiftarlegt dýraníð að ræða, og sætti matvælaráðherra því. Er nú vonandi, að umhverfisráðherra sjái sóma sinn í, að hlíta og fylgja lögboðinni leiðsögn Fagráðs.

Til að tryggja nútímalega dýra-, náttúru- og umhverfisvernd, og þá um leið mannúðlega stjórnarhætti í landinu, verður þó að brjóta upp þá öflugu valdaklíku landsins, sem D og B byggðu af mikilli kostgæfni upp á síðustu öld og hafa svo tryggt rækilega í sessi æ síðan. Til þess verður tækifæri í síðasta lagi 2025. Fyrir undirrituðum, síðasta tækifærið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ruglingurinn í kringum EES-samninginn og ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ruglingurinn í kringum EES-samninginn og ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi