fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Blóð og kvalræði háþróaðra dýra skiptimynt fyrir stóla

Eyjan
Laugardaginn 2. september 2023 18:01

Ole Anton Bieltvedt

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég efast ekki um, að Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, sé í hjarta sínu dýravinur og vilji dýrum, umhverfi og náttúru vel, en í framkvæmd hefur ýmislegt farið úrskeiðis, í handaskolum, hjá henni.

Ýmsir eru þannig af Guði gerðir, að þeir bíða með margt fram á síðustu stundu; draga erfið mál í lengstu lög. Margir reyna svo að bæta útlit og áferð sinna mála með orðskrúði, skreyttum en stundum fölskum umbúðum. Gæti hvort tveggja nokkuð átt við um ráðherra.

Þann 8. maí birti MAST skelfilega skýrslu um hvalveiðar sumarið 2022, kolsvarta skýrslu, sem sýndi, að lífið hafði verið murkað úr 41% dýranna, með mis fólskulegum og skelfilegum hætti. Fór um alla góða menn.

Ekki hef ég séð, hversu margar hvalkýrnar voru af þeim 148 dýrum sem drepin voru, en ýmsar þeirra hafa verið með nánast fullgenginn kálf í kviði og aðrar með lifandi kálf sér við hlið, sem hefur veslast upp og soltið í hel við móðurmissinn.

Þessi skýrsla hefði átt að duga ráðherra til að ákveða og tilkynna veiðibann. Efni hennar hafði líka legið fyrir mánuðum saman, en formlegur frágangur og útgáfa skýrslu dróst, þar sem Hvalur hf. þráaðist við og fór endurtekið fram á fresti til að gera athugasemdir.

Skýrsla MAST for svo formlega til Fagráðs um velferð dýra, 22. maí, og má spyrja af hverju það tók 14 daga að koma skýrslunni milli þessara tveggja aðila, sem þó eru í sama húsi. Hér hefði ráðherra mátt ýta á.

Alla vega kom þessi niðurstaða frá Fagráði 16. júní:

„Niðurstaða ráðsins var sú að sú veiðiaðferð sem beitt er við veiðar stórhvela samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra“.

Gaf ráðið jafnframt til kynna að það telji að ekki sé hægt að bæta svo úr, með núverandi skipum, tólum og veiðiaðferðum, að veiðar geti samræmst þessum lögum.

Byggir sú afstaða eflaust m.a. á því, að núverandi sprengiskutull, Hvalgranat-99, sem Hvalur notar við langreyðaveiðar, var þróaður til hrefnuveiða í Noregi, en langreyðar eru tíu sinnum stærri dýr en hrefnur, 40-70 tonn á móti 4-7 tonnum. Er því ljóst að þó að Hvalgranat-99 kunni að drepa hrefnu í einu skoti getur það engan veginn átt við um langreyði.

Á grundvelli skýrslu MAST frá 8. maí, og álitsgjafar Fagráðs á skýrslunni, frá 16. júní, bannaði ráðherra svo hvalveiðar, fyrst um sinn til 31. ágúst, þann 20. júní.

Þetta hefði auðvitað átt að gerast nokkru fyrr, þar sem veiðar áttu að hefjast 21. júní, en aðilar málsins, Hvalur hf. og starfsmenn Hvals, til sjós og lands, máttu svo sem vita, löngu fyrr, að í bann stefndi, og hefðu þeir mátt haga sínum væntingum og ráðstöfunum skv. því.

Hvað sem því líður, var ákvörðun Svandísar málefnaleg, vel grunduð og rétt, það marg lá fyrir – hafði reyndar gert þá þegar 2014, þegar skýrsla dr. Egil Ole Öen, Wildlife Management, var lögð fram – að veiðarnar, veiðiaðferðir, stæðust ekki lög nr. 55/2013 með neinum hætti.

Var ákvörðun Svandísar frá 20. júní auðvitað líka mikið gleði- og fagnaðarefni fyrir okkur, dýra-, náttúru- og umhverfisvini, líka þá, sem telja að virðing við lífríki og náttúru, mannúð og siðsemi gagnvart öðrum lífverum, ekki sízt gagnvart öðrum spendýrum, svo og ímynd lands og þjóðar meðal annarra siðmenntaðra þjóða, skipti nokkru máli.

Á sama hátt var ákvörðun Svandísar 31. ágúst, aftur með dags fyrirvara, um að leyfa veiðar að nýju, mikið áfall. Í veðri var látið vaka, að veiða mætti aftur aðeins með miklu strangari skilyrðum og harðara eftirliti en gilti fyrir bann, en nýja reglugerðin, sem Svandís setti, og á að ganga í átt skerpingar veiðiskilyrða, nr. 895/2023, tekur ekki gildi fyrr en 18. september. 

Getur Hvalur því hafið veiðar að nýju og stundað þær í tæpar 3 vikur, megnið af þeim tíma, sem eftir kann að vera veiðitímabils, á óbreyttum forsendum; þeim sömu og giltu um hörmungar drápið 2022. Skilur nú kannske einhver betur, hvað ég átti við með „orðskrúði“ og „fölskum umbúðum“ í upphafi pistils.

Annað mál er það að þessi skerptu og ströngu veiðiskilyrði, sem flestir fjölmiðlar virðast trúa að séu til staðar og flytja fréttir um, virðast vera meira í orði en á borði.

Alla vega segir Kristján Loftsson á forsíðu MBL 1. september, fyrst í stórfyrirsögn. „Við getum alveg lifað með þessu“, svo í texta m.a. þetta: „Ég er ekki búinn að lúslesa reglugerðina, en mér sýnist, að ákvæði hennar kveði að mestu leyti á um það sem við höfum verið að gera hvort sem er.“

Með öðrum orðum: Í reynd er allt óbreytt, aðeins búið að bæta í orðskrúðið í kringum veiðarnar. Búa til einhverjar nýjar umbúðir, án þess að breyta innihaldi neitt.

Á bak við það sjónarspil, sem hér fer fram, býr auðvitað þetta:

Það hefur gætt vaxandi ágreinings milli stjórnarflokkanna, og eru ráðherrar orðnir hræddir um, að upp úr kunni að sjóða. Stólar í bráðri hættu og ljóst, að þeir myndu týnast til langframa í nýjum kosningum. VG, sem var í 17% fylgi í upphafi stjórnarsamstarfs, nú í 6%. D minna laskaðir.

VG beygir sig því í duftið fyrir D, enn einu sinni. Áður fór „þjóðgarður á miðhálendinu“, „stórfellt átak í loftslagsmálum“, „endurskoðun laga um vernd, friðun og veiðar villtra dýra“ og „endurskoðun stjórnarskrár“. Nú fer, sem sagt, hvalafriðun. Með því verður blóð og kvalræði háþróaðra dýra að skiptimynt fyrir stóla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir óvíst að Kristrúnu takist að halda Degi úti í horni til lengdar

Segir óvíst að Kristrúnu takist að halda Degi úti í horni til lengdar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi