fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Lindarhvoll skilar ársreikningi fimm mánuðum of seint – fjárframlög ríkissjóðs virðast byggja á samningi sem fallinn er úr gildi fyrir fimm árum

Ólafur Arnarson
Laugardaginn 2. september 2023 12:00

Enn virðist óreiða einkenna starfsemi Lindarhvols og aðkomu tveggja síðustu ríkisendurskoðanda að félaginu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lindarhvoll ehf., eignarhaldsfélagið sem fjármálaráðherra stofnaði til að sjá um úrvinnslu og ráðstöfun eigna upp á hundruð milljarða sem slitabú föllnu bankanna afhentu ríkinu sem stöðugleikaframlag árið 2016, skilaði loks ársreikningi sínum þann 30. ágúst, tveimur dögum áður en sjálfkrafa hefði verið lögð 600 þúsund króna sekt á félagið fyrir vanrækslu í þessum efnum.

Lindarhvoll átti lögum samkvæmt að skila ársreikningi til Fjársýslu ríkisins í síðasta lagi 31. mars sl. Félagið trassaði því í fimm mánuði að fara eftir lögum. Ekki verður töfin skýrð með því að rekstur Lindarhvols hafir verið svo umfangsmikill og flókinn á síðasta ári að svo langan tíma hafi tekið að ganga frá ársreikningi vegna þess að heildarvelta félagsins var tæpleg 5,8 milljónir árið 2022. Þar af var launakostnaður eina stjórnarmanns félagsins 2,1 milljón eða um 37 prósent af heildar rekstrarkostnaði þess.

Aðrir kostnaðarliðir voru keypt lögfræðiþjónusta fyrir 2,4 milljónir með virðisaukaskatti, 839 þúsund fyrir bókhald, skattskil og endurskoðun, sem verður að teljast vel í lagt hjá fyrirtæki með svo litla veltu. Þá var annar kostnaður ríflega 400 þúsund krónur.

Athygli vekur að þótt umfang reksturs félagsins dragist verulega saman milli ára koma til launagreiðslur til eina stjórnarmanns félagsins upp á 1,8 milljónir á síðasta ári, en engin stjórnarlaun voru greidd árið 2021. Lætur nærri að stjórnarlaunin séu stærsti einstaki útgjaldaliður Lindarhvols á síðasta ári.

Þrátt fyrir að í skýrslu stjórnar með ársreikningnum komi sérstaklega fram að samningur fjármálaráðuneytisins við stjórn Lindarhvols um úrvinnslu og umsýslu stöðugleikaeigna frá apríl 2016 hafi verið felldur niður frá og með 7. febrúar 2018. Er tekið fram í skýringu nr. 3 við ársreikninginn, um framlag ríkissjóðs (einu tekjur Lindarhvols á árinu), að samkvæmt 5. gr. samnings milli ráðherra og Lindarhvols ehf. í apríl 2016 sé kveðið á um að kostnaður við úrvinnslu og ráðstöfun stöðugleikaframlagseigna skuli greiddur af söluvirði þeirra. Þarna ber ekki á öðru en að framlag ríkisins byggi á samningi sem hefur ekki verið í gildi í meira en fimm ár.

Guðmundur Björgvin Helgason, ríkisendurskoðandi, áritar reikninginn án athugasemda. hið sama gerir óháður löggiltur endurskoðandi. Athygli vekur að hvorugur þeirra gerir athugasemd við að ríkisframlagið, voru einu tekjur Lindarhvols á árinu 2022 virðist byggt á samningi milli Lindarhvols og fjármálaráðuneytisins, sem felldur hefur verið úr gildi.

Sök sér er að óháður endurskoðandi, sem einskorðar sína skoðun við rekstrargögn félagsins sjálfs geri ekki athugasemd við þetta en ætla mætti að ríkisendurskoðandi, sem hefur eftirlitshlutverki að gegna gagnvart framkvæmdavaldinu, græfist fyrir um hverju það sætir að allar tekjur Lindarhvols virðast byggjast á samningi sem er löngu fallinn úr gildi.

Eyjan hefur sent fjármálaráðuneytinu og Lindarhvoli beiðni um afhendingu allra reikninga sem standa að baki greiddum lögfræðikostnaði á árinu 2022. Einnig var óskað eftir fundargerðum frá öllum stjórnarfundum ársins 2022, auk þess sem óskað var eftir því að upplýst yrði ver tók ákvörðun um að greiða stjórnarmanni félagsins laun fyrir árið 2022.

Þá óskaði Eyjan eftir því að upplýst verði um það á hvaða fjárheimildum framlög ríkissjóðs til Lindarhvols allt frá 7. febrúar 2018, þegar samningurinn milli félagsins og fjármálaráðuneytisins var látinn niður falla, séu byggð.

Óskað var eftir skjótum svörum.

Mál Frigusar II á hendur Lindarhvoli og ríkinu vegna framkvæmd útboðs á hlutum í Klakka verður tekið fyrir í Landsrétti nú í haust. Landsréttur mun hafa aðgang að greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda, um Lindarhvol en fjármálaráðherra, ríkisendurskoðandi og forseti Alþingis komu í veg fyrir að hún lægi fyrir sem gagn í málinu þegar það var tekið fyrir í héraðsdómi í byrjun þessa árs. Greinargerð Sigurðar dregur upp dökka mynd af starfsemi Lindarhvols og varpar löngum skugga á störf núverandi og fyrrverandi ríkisendurskoðanda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK