Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins, segir bíræfna og óprúttna aðila nota stríðið í Úkraínu sem yfirvarp til að okra á okkur almenningi, vextir hafi verið hækkaðir um of að ófyrirsynju.
„Ég er bjartsýnn á að það muni verða hér mun auðveldara að draga fram lífið fyrir hina tekjuminni og viðkvæma hópa samfélagsins heldur en það er í dag. Annað getur ekki og má ekki verða,“ segir Jakob sem er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
„Það verður þá bara að breyta hagstjórninni þannig velgengni okkar verði ekki að gildru fyrir tíund þjóðarinnar, eða þá sem tilheyra hinum viðkvæmar hópum, eins og hefur því miður gerst,“ segir Jakob.
„Það að fela Seðlabankanum nánast einveldi yfir fjármálum okkar í þessu samhengi er kannski eitthvað sem er dálítið glannalegt, hefði ég talið. Það að skilja svona milli ríkisstjórnar og Seðlabankans, að það sé ekki einhvern veginn hægt að semja um svona millileið milli þess að hinir ríku verði miklu ríkari af svona verðbólgudraugum og -ófreskjum og tilheyrandi vaxtahækkunum, nú er þetta auðvitað ekki einangrað við Ísland, við höfum fengið yfir okkur verðbólgu og vaxtahækkanir sem ég trúi því miður að séu að hluta til gerðar að ófyrirsynju í skjóli fyrst Covid, og svo í skjóli stríðsins í Úkraínu eins og það eigi að skipta rosalegu máli fyrir okkur hér á Íslandi að verið sé að skylmast í gömlu Sovétríkjunum.“
Jakob segist segja þetta með fullri virðingu, vinsemd og meðaumkun með þolendum stríðsins og bætir við: „Það eru einhverjir bíræfnir, óprúttnir, sem nota sér slíkt ástand sem yfirvarp til að okra á okkur.“