fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Eyjan

Þorbjörg Sigríður skrifar: Millistéttin sem gleymdist

Eyjan
Föstudaginn 15. september 2023 16:37

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrstu umræðu fjárlaga var að ljúka rétt í þessu. Fréttirnar eru áframhaldandi hallarekstur á ríkisstjórnarheimilinu sem mun vinna gegn aðgerðum Seðlabankans til að stemma stigu við verðbólgu. Heimilin í landinu munu borga brúsann. Á sama tíma fer orka ríkisstjórnarinnar í innbyrðis erjur. Sundruð ríkisstjórn sýnir almenningi aftur og aftur að hún getur ekki starfað eftir skýrri stefnu. Hún er stefnulaus í lykil málaflokkum og sundruð bæði hvað varðar hagstjórn og velferð. Hún er jafnframt sundruð í löggæslu-, útlendinga-, húsnæðis- og orkumálum. Reyndar í flestum málum sem snerta venjulegt fólk í landinu. Á meðan bíða verkefnin einfaldlega næstu ríkisstjórnar.

Rússneskt vaxtastig

Vextir í landinu hafa verið hækkaðir 14 sinnum í röð og eru núna að nálgast rússneskt vaxtastig. Tugþúsundir finna fyrir hærri afborgunum af húsnæðislánum og enn aðrir sjá hvernig höfuðstóll húsnæðisláns hækkar þrátt fyrir að borgað sé af láninu mánaðarlega.

Hvert sem komið er heyrist að fólk er með hugann við verðbólgu og heimilisbókhaldið. Vaxtahækkanir bitna harðast á ungu fólki og barnafjölskyldum. Þetta er millistéttin. Ríkisstjórnin hefur hins vegar aðeins viljað beita húsnæðis-, vaxta- og barnabótum til að verja þau sem lakast standa en hefur skilið millistéttina eftir með höggið af fullum þunga. Þetta er fólkið sem ríkisstjórnin hefur gleymt og skilið eftir í þessu ástandi.

Þegar stýrivextir fóru að hækka var rúmur fjórðungur lántakenda með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Í ár munu 4500 heimili bætast í þennan hóp og verða þá ekki lengur í skjóli fastra vaxta. Í því sambandi verður að hafa í huga að aldrei hafa fleiri keypt sér sína fyrstu íbúð en á árunum 2020 og 2021. Fyrstu kaupendur og millistéttin eiga  hins vegar ekkert skjól hjá ríkisstjórn í landi þar sem meðalvextir á húsnæðislánum eru 10,5%, margfalt hærri en innan evrusvæðisins.

Fólk sem ekki hefur keypt sér fyrstu íbúð kemst í dag einfaldlega ekki inn á markaðinn. Fasteignaverð hefur aldrei verið hærra í hlutfalli við laun. Á síðasta áratug hefur fasteignaverð á Íslandi hækkað mest í samanburði 41 landa OECD; um 100% að raunvirði. Þessi hækkun er um fjórðungur á hinum Norðurlöndunum.

Rauður markaður

Þegar fjármálaráðherra kynnti fjárlög fyrir 2023 spurðum við í Viðreisn hvort hann teldi að fjárlögin myndu hafa jákvæð áhrif á vaxtastigið í landinu. Í ár spyrjum við aftur sömu spurningar. Svarið er að þau gera það ekki. Það sem meira er þá er ekki einu sinni að finna í frumvarpinu nokkurt markmið um árangur við að ná niður verðbólgu. Skýr skilaboð hvað það varðar myndi hafa áhrif á verðbólguvæntingar. Reyndar hafði fjárlagafrumvarpið neikvæð áhrif á verðbólguvæntingar sem sjást í því að markaðurinn sýndi rautt daginn eftir kynningu fjármálaráðherra á frumvarpinu. Það segir mikla sögu.

Stjórnvöld verða að sýna forystu í ástandi sem þessu og vera skýr um stefnu sem og um markmið aðgerða. Það gerði Viðreisn við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2023. Þá lögðum við fram tillögur til að verja millistéttina í gegnum vaxta- og húsnæðisbótakerfið og með greiðslum barnabóta. Við lögðum ein fram hagræðingartillögur sem beindust að því að fara betur með fjármuni í stjórnsýslunni, að ráðuneytum yrði aftur fækkað og skuldir ríkisins yrðu greiddar niður um 20 milljarða á árinu. Við lögðum til tekjuöflun fyrir ríkið með hækkun veiðigjalda og kolefnisskatta. Allar okkar tillögur spegluðu þá hugmyndafræði að sýna ábyrgð í efnahagsmálum og trúverðugar tillögur í velferðarmálum.

Háskattalandið Ísland

Íslendingar greiða háar fjárhæðir í skatta og lífeyri. Á árinu 2021 námu skatttekjur hins opinbera að viðbættu framlagi í lífeyrissjóði nær 45% af landsframleiðslu samkvæmt gögnum OECD. Aðeins Danmörk var hærri á þessum mælikvarða. Við þurfum að taka sjóðasöfnun lífeyrissjóða með í reikningsdæmið vegna þess að mörg lönd fjármagna lífeyriskerfin sín með gegnumstreymi.

Það er merkilega lítil umræða um hversu háir skattar eru á Íslandi eða hvernig á því stendur að háir skattar skila engu að síður heilbrigðisþjónustu sem einkennist fyrst og fremst af biðlistum. Svo hár skattur á að skila heilbrigðum opinberum rekstri og sterkri velferð sem stenst samanburð við kerfi Norðurlandanna. Svo er einfaldlega ekki.

Vaxtakostnaður ríkisins á næsta ári verður 111 milljarðar, fjórði stærsti útgjaldaliður ríkisins. Þess vegna gengur það ekki upp í umræðu um fjárlög og stöðu ríkisins að ræða ekki skuldir eða kostnað af skuldum. Ríkið er að þessu leyti í sambærilegri stöðu og heimilin á Íslandi. Það er vaxtakostnaðurinn sem er að fara með ríkissjóð.

Velferð og hagstjórn

Fjárfesting stjórnvalda í heilbrigðisþjónustu er minni á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum. Getur verið að þessi ævintýralegi vaxtakostnaður hafi áhrif á getu stjórnvalda til að fjárfesta í heilbrigðisþjónustu og innviðum? Svarið blasir auðvitað við.

Getur verið að stjórnvöld séu ófær um að nýta skattfé almennings betur og forgangsraða meðan öll orka fer í innbyrðis erjur? Auðvitað. Landsmenn eiga skilið ábyrgari hagstjórn og skynsamari velferðarstefnu. Ábyrg hagstjórn snýst um að sýna hófsemi í skattlagningu og að fara vel með fjármuni almennings. Skynsöm velferðarstefna snýst um að forgangsraða fjárfestingum í þágu heilbrigðismála og almannahagsmuna. Fyrir það stendur Viðreisn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Vatnsævintýrið fór í sama vask og bruggið – 212 milljón króna gjaldþrot

Vatnsævintýrið fór í sama vask og bruggið – 212 milljón króna gjaldþrot
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Nú mæra þeir Bjarna sem settu honum stólinn fyrir dyrnar – nýrri valdablokk vex fiskur um hrygg

Orðið á götunni: Nú mæra þeir Bjarna sem settu honum stólinn fyrir dyrnar – nýrri valdablokk vex fiskur um hrygg
Eyjan
Fyrir 1 viku

Blendin viðbrögð við brotthvarfi Bjarna – „Sagan jarðar róginn“ – „Bless bless“

Blendin viðbrögð við brotthvarfi Bjarna – „Sagan jarðar róginn“ – „Bless bless“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Reiðin er vondur ráðgjafi – Hver ætlar að segja fúlu körlunum sem töpuðu kosningunum það?

Orðið á götunni: Reiðin er vondur ráðgjafi – Hver ætlar að segja fúlu körlunum sem töpuðu kosningunum það?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu