Ólafur Arnarson segir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur vera óþarfan ráðherra í vinstri stjórn, sem búið hafi verið til nýtt ráðuneyti fyrir með ærnum tilkostnaði. Hann veltir fyrir sér hvort hún hyggi á frama í borgarmálunum þegar ráðherraferlinum lýkur.
Í nýjum Dagfarapistli á Hringbraut gerir Ólafur aðsenda grein Áslaugar Örnu um borgarmálin, sem birtist í Morgunblaðinu í dag að umfjöllunarefni. Hann segir Bjarna Benediktsson hafa látið það eftir áhrifamiklum flokkseigendum í Sjálfstæðisflokknum að ýta undir hana í stjórnmálum þó að ekki hafi hún, að mati Ólafs, enn sem komið er sýnt neina burði sem kalli á mikinn frama í stjórnmálum.
Undrast Ólafur tal Áslaugar Örnu um „vinstri stjórn“ Reykjavíkurborgar þegar hún situr sjálf í vinstri stjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Telur Ólafur að Sjálfstæðisfólk sem líti á „vinstri stjórn“ sem skammaryrði þurfa að líta í eigin barm, ekki síst það sem nú nýtur forystu og leiðsagnar Katrínar.
Ólafur furðar sig á því að Áslaug Arna gagnrýni meirihlutann í borginni fyrir slæman fjárhag hennar og bendir henni á að spyrja fjármálaráðherra um stöðuna í ríkisfjármálunum.
Segir hann hana eiga að vita að fjárhagur í opinberum rekstri sé þungur um þessar mundir og einu gildi hverjir haldi um stjórnvölinn í daglegum rekstri, hvort það sé Bjarni Benediktsson með þúsund milljarða hallarekstur ríkisins, Dagur B., Ásdís í Kópavogi eða Þór Sigurgeirsson í dvergsamfélaginu á Seltjarnarnesi sem Sjálfstæðismenn hafa rekið í mínus í sjö ár.
Ólafur rifjar upp að síðan 1994 hafa Sjálfstæðismenn varla komið að meirihlutasamstarfi í Reykjavíkurborg en þrátt fyrir það lækki fylgi flokksns frá einum kosningum til hinna næstu
„En hvers vegna birtir óþarfi ráðherrann þessa innantómu grein í sínu nafni í Morgunblaðinu? Það skyldi þó aldrei vera að hún máti sig í að leiða lista flokksins í næstu borgarstjórnarkosningum, þegar hún verður dottin út úr ríkisstjórn? Þá gæti hún bætt sér í röð mislukkaðra lukkuriddara flokksins í því hlutverki, allt frá Birni Bjarnasyni, Hönnu Birnu, Halldóri Halldórssyni, Eyþóri Arnalds og Hildi Björnsdóttur. Ekki slæmur félagsskapur!“ skrifar Ólafur.
Dagfara í heild má lesa hér.