Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR segir atvinnulífið hafa staðið við sitt í sambandi við lífskjarasamningana, staðið við þær launahækkanir sem samið var um, verkalýðshreyfingin hafi staðið við sitt en ríkið hafi vanefnt öll sín loforð.
Ragnar Þór er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
Ragnar Þór segir verkalýðshreyfinguna ekki geta sótt kostnaðarhækkanir sem dunið hafa á fólki annars staðar en í kjarasamningum.
Fólk á leigumarkaði sé á verðtryggðum leigusamningum og fái á 12 mánaða fresti hækkanir upp á tugi þúsundir króna.
„Inni í þessu átti að vera endurskoðun á húsaleigulögum sem hefur alls ekki farið fram. það er eitthvað í gangi núna sem beinlínis skerðir réttindi leigjenda,“ segir Ragnar Þór.
„Það er bjánaleg hugsun að leyfa bönkunum að níðast á fólki. Ákveðin leigufélög eru sek um það sama, ekki öll en sum. Framkoman er til skammar.“
Ragnar segir að á húsaleigumarkaði hér á landi ríki villta vestrið. Hann segir verkalýðshreyfinguna eiga þá kosti að sækja kjarabætur í gegnum kjarasamninga eða löggjafann. Ef allt þurfi að sækja til atvinnulífsins muni fara illa og því þurfi stjórnvöld og löggjafinn að gera sitt.