fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Afskræming stjórnmálastarfs

Eyjan
Sunnudaginn 6. ágúst 2023 15:30

Á 17. og 18. öld urðu samkvæmissalirnir (fr. les salons) miðstöð hins nýja aldaranda. Helst voru það konur sem stýrðu þessum fundum. Hugmyndirnar sem þarna mótuðust brutust síðar fram í frönsku byltingunni. Frægastur var salon madame Geoffrin. Olíumálverk Anicet Charles Gabriel Lemonnier (1743–1824).

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenskt samfélag hóf ekki að nútímavæðast að ráði fyrr en á ofanverðri nítjándu öld. Samfara byltingu í atvinnuháttum og menningarlífi varð lýðræðisvakning. Með stjórnarskránni 1874 voru helstu mannréttindi innleidd með formlegum hætti, en þar á meðal var félagafrelsi. Á næstu árum og áratugum varð ótrúleg gróska í almennu félagsstarfi og komið á fót aragrúa frjálsra félagasamtaka þar sem landsmálin voru oftar en ekki til umræðu.  

Ýmis vandasöm ágreiningefni á ofanverðri nítjándu öld og í byrjun þeirrar tuttugustu voru ekki útkljáð í alþingissalnum heldur á opnum borgarafundum, líkt og þeim sem Stúdentafélag Reykjavíkur efndi reglulega til. Sagt er að hér á landi hafi myndast mjög sterk lýðræðishefð á skömmum tíma; þorri almennings lærði að starfrækja almenn félög, efna til funda og útkljá deilumál í skipulögðum rökræðum. Sú mikla lýðræðishefð sem skapaðist um aldamótin næstsíðustu, einkum í ungmennafélögum og félögum góðtemplarareglunnar, færðist yfir á verkalýðsfélög og félög stjórnmálaflokkanna þegar þeir hófu að taka á sig mynd er leið á tuttugustu öld.  

Skortur á félagslegum þroska 

Varla leikur á tvennu að þessari gömlu lýðræðishefð hefur hnignað. Ég hef orðið þess var í margvíslegum félagsstörfum að víða skortir veruleg á þekkingu á grundvallaratriðum í þessum efnum, svo sem fundarsköpum og ræðumennsku. Ekki er svo ýkja langt síðan stór hluti ungs fólks lærði lýðræðisleg vinnubrögð í málfundafélögum framhaldsskóla og ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna, en slíkt starf er orðið ákaflega bágborið og jafnan í meira lagi losaralegt. Nýlega heyrði ég af stéttarfélagi þar sem atkvæðagreiðsla um kjarasamning fór fram á spjallsvæði eins samfélagsmiðilsins svo dæmi sé tekið. 

Afturförin í félagsmálum nær upp í efstu lög samfélagsins og þess sér reglulega stað, jafnt í þingsal borgarstjórnar sem Alþingis, að stór hluti kjörinna fulltrúa getur illa komið skipulega fyrir sig orði, beitir ítrekað rökvillum og misvirðir fundarsköp. Margt af þessu fólki virðist með öðrum orðum skorta heilbrigðan félagslegan þroska, væntanlega vegna þess að það hefur lítt ef nokkuð kynnst skipulögðum félagsstörfum. Ég hef líka orðið þess var að fjölmargir bera takmarkað skynbragð á mikilvægi þess að í hvers kyns félagsstarfi sé farið að lýðræðislegum leikreglum. Fyrir þeim hinum sömu eru fundarsköp jafnvel bara einhver óþarfa formlegheit. 

Þessi þróun er háskaleg því örlög okkar þjóðskipulags oltið á því hversu vel borgararnir fylgja grundvallarreglum lýðræðislegra vinnubragða í hvers kyns félagskap. Samfélagið er ein heild ótal félaga, allt frá frjálsum almennum félögum, félögum í fyrirtækjarekstri til ríkis og sveitarfélaga.  

Hugmyndafræðileg stöðnun 

Í tilfelli stjórnmálaflokkanna sér hugmyndafræðilegri stöðnun víða stað — því ef litlar sem engar umræður fara fram á vettvangi flokkanna sjálfra gleymist eiginlegt inntak skoðana. Hugmyndafræðin trénar, hættir að vera lifandi. Taka má dæmi um þetta af tali margra íslenskra stjórnmálamanna sem klifa á orðunum „frelsi“ og „frjálslyndi“ en þegar betur er að gáð virðast þessir sömu stjórnmálamenn sjaldnast hafa djúpan skilning á hugtökunum. Þeir hafa glatað kjarnanum, eftir er aðeins skelin og hismið. 

Hvað sem því líður þá er tilvist stjórnmálaflokka — sem starfa án afskipta ríkisvalds — ein meginforsenda lýðræðislegra stjórnarhátta. Þar á með réttu að vera vettvangur pólitískrar þátttöku borgaranna, flokkarnir eiga að vinna að samþættingu hagsmuna í heildstæða stefnu, þjálfa flokksfólk í málefnastarfi og gera það hæft til pólitískrar forystu. Þannig verði til skýrir kostir fyrir kjósendur að velja úr þegar gengið er að kjörborði. 

Stjórnmálastarf er nefnileg ekki „almannaþjónusta“ í neinum skilningi en samt er svo komið að langstærstur hluti kostnaðar við rekstur stjórnmálasamtaka hér á landi er greiddur úr ríkissjóði svo sem kunnugt er. Flokkarnir hafa seilst æ dýpra í vasa skattgreiðenda en sem dæmi jukust fjárframlög til þeirra um 127% milli áranna 2017 og 2018. Í úttekt Viðskiptablaðsins í fyrrahaust kom fram að samtals námu ríkisstyrkirnir rétt tæpum sjö milljörðum króna á árunum 2010 til 2022 — reiknað til verðlags í fyrra. 

Ríkisflokkurinn 

Brynjólfur Gauti Guðrúnar Jónsson, doktorsnemi í tölfræði, birti á dögunum áhugavert talnaefni á vefsvæði sínu, Meitli, unnið upp úr ársreikningum stjórnmálaflokkanna. Þar má glögglega sjá að stóraukinn ríkisstyrkur til flokkanna á síðustu árum hefur ekki leitt af sér meiri umsvif þeirra því útgjöld til rekstrar hafa lítið aukist. Ríkisstyrkinn hafa flokkarnir notað þess í stað til að byggja upp sjóði sína. Þannig batnaði fjárhagsstaða allra flokka umtalsvert á árunum 2007 til 2020 ef Sjálfstæðisflokkurinn er undanskilinn, en hann gekk á eigið fé sitt á umræddu tímabili. Styrkjunum er á endanum að mestu eytt í aðdraganda kosninga, en þeim er ekki varið til reglubundinnar starfsemi — til að styrkja lýðræði — eins og hugmyndin var kannski í upphafi. Brynjólfur Gauti orðar það svo í úttekt sinni að almenningur fái því „fyrst og fremst fleiri og stærri kosningaauglýsingar fyrir þetta fé“. 

Fólk og fyrirtæki mega ekki leggja til flokkanna meira en 550 þúsund krónum á ári. Úttekt Brynjólfs Gauta sýnir að þau framlög hafa snarlækkað á seinni árum en sérstaka athygli vekur að tveir flokkar, Píratar og Flokkur fólksins, njóta varla nokkurs fjárhagslegs stuðnings almennings. 

Ef við lítum á ársreikning Flokks fólksins fyrir árið 2021, sem er nýjasti reikningur flokksins sem skilað hefur verið til Ríkisendurskoðunar, þá námu opinberir styrkir samtals 68.636.356 kr. en félagsgjöld aðeins 393.000 kr. sem er vel innan við 1% af heildartekjum. Útgjöldin voru mun hærri þetta ár en undir liðnum „alþingiskosningar“ eru tilgreindar 69.842.882 kr. Samtals námu útgjöldin rúmum 129 milljónum króna, en flokkurinn var búinn að safna ríkisstyrk fyrri ára og í lok árs nam eigið fé ríflega 33 milljónum. 

Nýjasti ársreikningur Pírata sem finna má á heimasíðu Ríkisendurskoðunar er fyrir árið 2020. Það ár námu styrkir frá hinu opinbera 85.883.238 kr. en félagsgjöld og styrkir frá einstaklingum aðeins 1.748.107 kr. eða sem samsvarar tæplega 2% af heildartekjum. Laun og launatengd gjöld er langstærsti útgjaldaliður Pírata en þeir vörðu tæpum 37 milljónum þess gjaldaliðar á árinu 2020. 

Því má velta upp hversu trúverðugir stjórnmálaflokkar eru í umræðu um vandvirkni, gegnsæi, fagmennsku og þar fram eftir götunum þegar þeir virða ekki einföldustu reglur um skil á ársreikningi en Píratar hafa raunar áður trassað að skila ársreikningi. Til viðbótar má nefna að aðeins þrír flokkar skiluðu reikningum á réttum tíma til Ríkisendurskoðunar í fyrra; Miðflokkur, Sósíalistaflokkur og Vinstri grænir. Flokkarnir komast því ekki einasta upp með að skammta sjálfum sér milljarða af almannafé heldur láta þeir eins almenningi komi varla við hvernig þessum fjármunum er ráðstafað.  

Í reynd þyrfti að innleiða miklu opnara bókhald flokkanna, þar sem hægt væri að sjá öll útgjöld — slíkt er ósköp sanngjörn krafa eigi skattgreiðendur að standa straum af kostnaði við rekstur þeirra. Almenningur sem stundar rekstur er jafnvel beittur þungum viðurlögum skili hann ekki þeim reikningum sem honum ber til skattyfirvalda eða vanvirði með einhverjum hætti þær reglur sem gilda í þeim efnum. Stjórnmálaflokkarnir telja sig yfir þetta hafnir. 

Því má velta upp hversu „frjáls“ þau stjórnmálasamtök eru sem nær eingöngu eru rekin fyrir skattfé — en svo allra sanngirni sé gætt þá njóta flokkar líka opinberra styrkja í nálægum ríkjum. Þar er þó margt með öðrum hætti. Nefna má sem dæmi að í Þýskalandi mega opinberir styrkir til stjórnmálaflokka ekki nema hærri upphæð en sem samsvarar sjálfsaflafé þeirra og það eru einkum félagsgjöld almennra félaga — síður styrkir fyrirtækja. Til viðbótar má geta þess að þar í landi eru miklar hömlur á ráðstöfun opinberra styrkja til flokkanna; meðal annars er gert ráð fyrir útgáfustarfi og rannsóknum á hugmyndafræði, en til hliðar við þýsku flokkana starfa rannsóknarstofnanir. Hér á landi eru ekki skilyrði af þessu tagi og flokkar komast upp með að verja stærstum hluta ríkisstyrksins í auglýsingaskrum rétt í aðdraganda kosninga.  

Sú staða sem hér er uppi er öldungis óboðleg. Takmarka þarf opinbera styrki við flokkana og gera kröfu til þess að þeir verji fjármunum af opinberum styrkjum til rannsókna, útgáfustarfs og málefnavinnu, en sömuleiðis þarf að opna bókhald flokkanna upp á gátt — þeim verði gert að birta nákvæmar upplýsingar um öll útgjöld. Þetta er þeim mun mikilvægara í ljósi þess að í sumum flokkanna skortir beinlínis lýðræðislegt aðhald; jafnvel eru engir fundir haldnir. Ég hef heyrt dæmi þess að félagsmönnum í stjórnmálafélagi hafi verið neitað um nánari útskýringar á reikningum síns flokks þegar grunur vaknaði um að ekki væri allt með felldu varðandi ráðstöfun fjármuna — sem vel að merkja voru peningar skattgreiðenda.  

Við blasir að opinberir styrkir til flokkanna í óbreyttri mynd eru ekki til þess fallnir að styðja við lýðræðislega virkni í þjóðfélaginu — þvert á móti — þeir hafa beinlínis stuðlað að afskræmingu stjórnmálaflokkanna sem varla eru nokkuð annað en skurnin og hismið. Kjarninn finnst hvergi. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
17.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
10.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin