Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir verkalýðshreyfinguna verða að sækja í kjarasamningum þann kostnaðarauka sem heimilin hafa orðið fyrir vegna vaxtahækkana og hærri leigu, auk þess sem framlegðartölur íslenskra fyrirtækja, stórra og smárra, sýni að allar erlendar hækkanir hafi runnið beint út í verðlag og meira til.
Ragnar Þór er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni um Verslunarmannahelgi.
Ragnar segir hagsvið VR hafa gert úttekt á hagnaði fyrirtækja, meðal annars fengið upplýsingar frá Creditinfo um flest íslensk fyrirtæki, og niðurstöðurnar séu skýrar. Framlegð þeirra og hagnaður hafi aukist gríðarlega að undanförnu.
Greining Samkeppniseftirlitsins sýnir, að sögn Ragnars Þórs, sömu niðurstöður. Allar erlendar hækkanir hafi farið beint út í verðlag og meira til. Framlegðarhlutfallið hækkað. Þetta sýni að samfélagslegri ábyrgð íslenskra fyrirtækja á erfiðum tímum sé verulega ábótavant.
Ragnar segir stjórnvöld hér á landi ekkert hafa gert til að sporna við verðbólgu eftir Covid og innrás Rússa í Úkraínu, öfugt við það sem stjórnvöld í þeim löndum sem við berum okkur saman við hafi gert.
Í sumum löndum hafi verið settur hvalrekaskattur á orkufyrirtæki vtil að niðurgreiða orkukostnað almennings og þó að slíkt eigi ekki við hér á landi megi velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að setja hvalrekaskatt á bankana sem hagnast gríðarlega á hækkandi útlánsvöxtum hér.
Ragnar bendir á að bankarnir þurfi ekki að hækka vexti sína í takt við stýrivaxtahækkanir Seðlabankans og víða erlendis sýni bankar meira aðhald í vaxtahækkunum en þeir íslensku.