fbpx
Mánudagur 04.nóvember 2024
Eyjan

Píratar boða frumvarp um bann við hvalveiðum

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 31. ágúst 2023 13:00

Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í tilkynningu frá Andrési Inga Jónssyni, þingmanni Pírata, kemur fram að þingflokkur Pírata hafi kallað eftir stuðningi allra þingflokka til að leggja fram frumvarp um bann við hvalveiðum um leið og þing kemur saman að nýju. Alþingi verður sett 12. september næstkomandi.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra tilkynnti fyrir stundu að hvalveiðar verði leifðar á ný, eftir að hún bannaði þær tímabundið, en með hertum skilyrðum.

Í tilkynningunni segir að ótækt sé að hvalveiðar fari eftir geðþóttaákvörðun einstakra ráðherra eða stefnulausrar ríkisstjórnar. Aðkoma þingsins sé nauðsynleg.

Enn fremur er kallað eftir því að málið fái vandaða þinglega meðferð og að þingið taki afstöðu með umhverfinu, loftslaginu, dýravelferð og framtíðinni.

Andrés, sem er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, hefur óskað eftir meðflutningsfólki, að frumvarpinu, úr öllum þingflokkum. Í tölvupósti til allra þingflokka segir Andrés að ákvörðun matvælaráðherra um að leyfa áframhaldandi hvalveiðar sýni að ríkisstjórnin ráði ekki við að ljúka þessu verkefni með sómasamlegum hætti. Það sé því nauðsynlegt að þingið láti til sín taka og stígi þetta skref sem sé sjálfsagður hluti þess að vera ríki sem vill vera leiðandi þegar kemur að verndun hafsins og lífríkis þess.

Frumvarpið felur það m.a. í sér að lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum verði breytt þannig að hvalveiðar og sala á hvalaafurðum verði bannaðar. Samkvæmt frumvarpinu myndu lög um hvalveiðar nr. 26/1949 verða felld úr gildi.

Í greinargerðinni með frumvarpinu er vísað til laga sem sett voru 1886 um friðun hvala. Friðun þeirra hafi síðan verið aukin 1903 og 1913. Í henni segir einnig:

„Á vertíðinni 2022 setti matvælaráðherra reglugerð þar sem MAST var falið að hafa nánara eftirlit með veiðunum út frá dýraverndarsjónarmiði. Því eftirliti eru gerð skil í skýrslu sem kom út í maí sl., „Eftirlitsskýrsla – Velferð hvala við veiðar á langreyðum á Íslandi 2022”. Þar kemur fram að veiðiaðferðir Hvals hf. leiði til hryllilegra og langdreginna dauðastríða hvala; aðferðirnar stríða gegn lögum um velferð dýra svo ekki verði um villst. Samkvæmt skýrslunni standast veiðiaðferðir Hvals hf. engan veginn kröfur laga um dýravelferðarlög. Frávikin eru svo stór að frekar er um að ræða reglu en undantekningu.“

Hert skilyrði séu ekki nóg

Píratar segja að ný reglugerð með hertum skilyrðum um veiðarnar dugi ekki til:

„Í ljósi þess að engin fullvissa er fyrir því að breyttar veiðiaðferðir uppfylli markmið laga um dýravelferð telja flutningsmenn óásættanlegt að veita leyfi fyrir tilraunastarfsemi í hvaladrápi sem alls óvíst er að skili mannúðlegri aflífun. Hvalirnir skulu njóta vafans.“

Í greinargerðinni er einnig vísað til nýlegrar könnunar um afstöðu Íslendinga til hvalveiða:

„Samkvæmt nýrri könnun Maskínu eru 42% fólks á móti hvalveiðum og 29% fylgjandi þeim, þá er mjög afgerandi að fólk eldra en 60 ára er frekar fylgjandi heldur en yngra fólk. Andstaða við hvalveiðar hefur aukist á milli ára í takt við meiri umræðu, þeim sem eru fylgjandi hvalveiðum hefur einnig fækkað á milli ára. Ekki má gleyma því að hvalveiðar þykja mikil tímaskekkja erlendis.“

Vísað er til sögu hvalveiða hér á landi og minnt á að þær hafi fram á 20. öld aðallega verið stundaðar af erlendum veiðimönnum og að Íslendingar hafi áður fyrr verið hallari undir að friða hvali:

„Strax árið 1886 voru hval­veiðar bann­aðar á sumrin innan 3 mílna lög­sög­unnar en það hafði lítil áhrif enda hægt að veiða utan við míl­urnar þrjár og draga afl­ann í næstu hval­veiði­stöð. Íslenskir sjó­menn voru almennt á móti hval­veiðum enda trufl­uðu þær aðrar veið­ar. Alþingi bannaði hval­veiðar í 10 ár frá árinu 1915 og það bann var fram­lengt til 1928.“

Áhersla er einnig lögð á að efnahagslegir hagsmunir Íslands af hvalveiðum séu hverfandi og að hvalaskoðun og kvikmyndagerð skili mun meiru í þjóðarbúið. Eins og kunnugt er hafa áhrifamiklir aðilar í bandarískum kvikmyndaiðnaði hótað að koma ekki með verkefni til Íslands verði hvalveiðum haldið áfram.

Að lokum segja Píratar að ríki eins og Ísland sem eigi allt undir því að lífríki hafsins sé sem heilbrigðast:

„Ísland á að vera leiðandi þegar kemur að  verndun hafsins. Það er ábyrg afstaða og sú eina rökrétta fyrir ríki sem á allt sitt undir því að sjórinn umhverfis landið sé heilbrigður og að sjávardýr stór sem smá þrífist vel. Í þágu náttúrunnar, vegna dýravelferðar, til að standa með loftslaginu og stuðla að verndun hafsins þá er nauðsynlegt að taka skrefið, stöðva hvalveiðar og vernda þessi mikilvægu og stórkostlegu dýr.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“