Í tilkynningu frá Hagstofu Íslands kemur fram að nýjustu mælingu á vísitölu neysluverðs er lokið.
Samkvæmt henni er Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í ágúst 2023, 597,8 stig og hækkar um 0,34 prósent frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 494,5 stig og hækkar um 0,49 prósent frá júlí 2023.
Í tilkynningunni segir að sumarútsölum sé að ljúka og verð á fötum og skóm hafi hækkað um 5,8 prósent og nemi áhrif þess á vísitöluna 0,21 prósent hækkun. Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkaði um 4,5 prósent sem hefur áhrif til hækkunar á vísitölunni um 0,10 prósent. Verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði hins vegar um 8,4 prósent sem hafði áhrif til lækkunar vísitölunnar um 0,19 prósent.
Þessi mæling þýðir að síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 7,7 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 7,6 prósent. Verðbólga á ársgrundvelli nemur þar með 7,7 prósent og hækkar lítillega frá því í júlí en þá nam ársverðbólgan 7,6 prósent.
Í tilkynningunni segir að lokum að vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í ágúst 2023, sem er 597,8 stig, gildi til verðtryggingar í október 2023.