Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarformaður Sjávarklasans segir mikilvægt að stórfyrirtæki á borð við þau sem hafa byggst upp hér á landi í sjávarútvegi og tengdum greinum hafi höfuðstöðvar sínar áfram á Íslandi og við verðum ekki útibúaland. Hann telur íslensku krónuna ekki hamlandi í þeim efnum enda séu öll helstu fyrirtækin komin út úr þeim gjaldmiðli.
Þór er viðmælandi Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
Ekki oft sem samfélög af þessari stærð sem halda í höfuðstöðvar stórra fyrirtækja. Hann segir mikilvægt að stjórnvöld fæli ekki fyrirtæki á brott og að við megum ekki við að fá stjórnvöld sem séu ósátt við að hafa fyrirtæki af þessari stærðargráðu hér á landi. Höfuðverkefni okkar sé í raun að halda í þessi fyrirtæki hér.
Aðspurður segist Þór ekki telja íslensku krónuna vera hamlandi þátt hvað varðar samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs eða þegar kemur að því að gera Ísland að ákjósanlegu höfuðstöðvalandi fyrir stórfyrirtæki í sjávarútvegi og tengdum greinum enda séu öll þessi fyrirtæki með sína starfsemi í annarri mynt en krónunni. Einhver áhrif séu vegna beinnar starfsemi hér á landi en það sé bara vegið og metið í heildarmyndinni.