fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Ásdís sökuð um að færa einum ríkustu systkinum landsins lúxus-lóðir á silfurfati án útboðs – „Þetta verða dýrar íbúðir fyrir ríkt fólk“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 24. ágúst 2023 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Kópavogsbæ samþykkti á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag samkomulag sem veitir fjárfestum í Fjallasól lóðir með verðmætum byggingarrétti við sjávarsíðuna á Kársnesi. Um er að ræða reit sem gengur undir nafninu Reitur 13.

Félagið Fjallasól er í eigu MATA-systkina, Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna. Þau eiga meðal annars Ölmu leigufélag sem ítrekað hefur ratað í fréttir fjölmiðla fyrir gífurlegar hækkanir á leiguverði. Eins eru þau hluthafar í fasteignafélögunum Reginn, Reit og Eik, stórfyrirtækjum á borð við Matfugl, Mata-heildsölu, Salathúsið, Ali og Freyju sælgætisgerð. Samkomulagið er dagsett 15. ágúst á þessu ári og hafði Ásdís þegar undirritað það með fyrirvara um samþykki bæjarráðs, þegar samkomulagið var lagt fyrir bæjarstjórn.

Vont samkomulag

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata, segir að samkomulagið sé vont fyrir margar sakir en bendir hún sérstaklega á tvennt.

„Annars vegar er verið að úthluta miklum gæðum, byggingarlandi á okkar besta stað, án auglýsingar og án þess að aðrir hafi nokkurn kost á því að fá hlutdeild í þessum gæðum. Landi sem er eign allra, Kópavogsbúa, en ekki bara Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. Þetta er algjört brot á jafnræði og dregur úr virkri samkeppni á byggingarmarkaði.

Í Kópavogi eru í gildi reglur um úthlutun á byggingarrétti þar sem kveðið er á um að allar lóðir skuli auglýstar á vef Kópavogsbæjar í að minnsta kosti tvær vikur áður en þeim er úthlutað. Rökstuðningur bæjarstjóra fyrir því að auglýsa ekki er flækjustig vegna skipulagsins sem gerir ráð fyrir að reiturinn allur verði ein lóð – vel að merkja eitthvað sem var algjörlega fyrirséð þegar meirihlutinn afgreiddi deiliskipulagið nýlega. Merkilegt nokk þá er þó samt sem áður í samkomulaginu gert ráð fyrir að stofnaðar verði lóðir fyrir hvern byggingarreit og bæjarráð geti samþykkt framsal á lóðum eða byggingarrétti og reyndar enn fremur að Kópavogsbær skuli leitast við að samþykkja nýja framsalshafa. Það ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að skipta lóðunum hreinlega strax upp og úthluta í samræmi við samþykktar reglur bæjarstjórnar.

Hitt er að í samningnum er ekkert sem tryggir íbúðir fyrir tekjulága hópa, við erum ekki að uppfylla markmið aðalskipulags Kópavogs um fjölbreytt húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir alla félagshópa.

Aðeins er kvöð um að 10% íbúða verði 1-3 herbergja íbúðir sem eru minni en 90 fermetrar og ætlaðar fyrstu kaupendum, leigjendum, stúdentum og eða öldruðum. inni í því eru 4,5% sem Kópavogsbær kaupir mögulega fyrir félagslegt húsnæði. Sennilega ekki þó, því samningurinn er orðaður þannig að bænum bjóðist að kaupa íbúðirnar á markaðsverði sem er alveg ljóst að verður hátt á þessum reit. Nær hefði verið að hafa ákvæði um að bærinn greiddi kostnaðarverð fyrir eða semja í það minnsta strax um ásættanlegt verð. Raunin er nefnilega sú að Kópavogsbær hefur ekki verið að kaupa þetta hlutfall íbúða á nýjum reitum þar sem verðið er yfirleitt mjög óhagstætt. Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Andri Steinn Hilmarsson sagði það meira að segja hreint út í pontu í gær að ákvæðið um félagslega húsnæðið í þessum samningi væri bara staðlað ákvæði en honum þætti ekki fara vel að því að bjóða upp á lúxus félagslegt húsnæði með sjávarútsýni heldur væri nær að kaupa frekar húsnæði annars staðar í bænum.“

Dýrar íbúðir fyrir ríkt fólk

Sigurbjörg bendir á að tíu prósent sé afar lágt hlutfall og ekkert sé tekið fram að umræddar leiguíbúðir verði ódýrar eða á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga. Þar með geti fjárfestar uppfyllt sinn hluta samningsins með því að leigja út 10 prósent íbúða en geti verðlagt leiguna að vild þar sem ekkert viðmið sé til staðar. Hér sé því ekki verið að mæta kröfu um framboð fyrir fjölbreytta hópa Kópavogsbúa í húsnæðisleit.

„Þetta verða dýrar íbúðir fyrir ríkt fólk“.

Í öðrum uppbyggingasamningum sem Kópavogsbær hafi gert á öðrum þróunarsvæðum sé kveðið á um 15-20 prósent íbúða á verði fyrir þá sem eru að kaupa í fyrta sinn og eins sé þar að finna áherslu á að 4-5 prósent íbúða skuli uppfylla skilyrði hlutdeildarlána. Ekkert slíkt sé til staðar í þessu samkomulagi um Reit 13.

„Allt frá upphafi máls hefur allt í kringum þennan reit verið einn stór skrípaleikur á vegum fjárfesta annars vegar og meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hins vegar. Deiliskipulagið var alfarið unnið á forsendum fjárfestanna og einhvern veginn sitja Kópavogsbúar uppi með skipulag sem felur í sér 30% meira byggingarmagn en samþykkt deiliskipulagslýsing (sem unnin var í góðu samráði við bæjarbúa) kveður á um. Ennfremur hefur sennilega alltaf verið gert ráð fyrir því að lóðir innan reitsins í eigu Kópavogsbæjar verði afhentar án frekar flækjustigs eins og útboðs eða auglýsinga. Fjárfestarnir í Vinabyggð sem upphaflega keyptu upp byggingar á reitnum seldu þær til Fjallasólar fyrir rúmu ári síðan og lokagreiðsla þeirra á milli hafði ekki farið fram áður en samkomulag við Kópavogsbæ um lóðaafhendinguna var undirritað.“

Fordæma samkomulagið

Fulltrúar Pírata, Viðreisnar, Vina Kópavogs og Samfylkingar höfnuðu samkomulaginu á fundi bæjarstjórnar og bókuðu:

„Samkomulag þetta er gert við aðila sem ekki hefur afsal fyrir eignarréttindum og byggist á deiliskipulagi sem ekki hefur gengið í gildi. Samkomulag um uppbyggingu og þróun er vanbúið og gjörsamlega ótímabært.
– Hér er um að ræða ráðstöfun á lóðum bæjarins til einkaaðila án útboðs.
– Kostnaðargreining á innviðaþörf liggur ekki fyrir.
– Sambærilegar kvaðir og hér koma fram um leiguíbúðir fyrir stúdenta, fyrstu kaupendur og aldraða hafa reynst haldlausar með öllu í fyrri samningum við þróunaraðila og engin útfærsla fylgir.
– Kaupréttur bæjarins á félagslegum íbúðum á markaðsverði er markleysa í ljósi þess að fyrir liggur að íbúðir á svæðinu verða mjög dýrar.
Samningurinn felur í sér að öll áhætta liggur hjá Kópavogsbæ. Undirritaðar fordæma hvernig staðið er að gæslu almannahagsmuna í þessu samkomulagi.“

Þeim fjölda spurninga sem komu fram á fundinum var ekki hægt að svara þar sem Ásdís bæjarstjóri var fjarverandi. Því bókaði minnihlutinn að þau fordæmi samninginn og meðferð málsins og bentu jafnframt á að ekki sé hægt að fullyrða neitt um hagkvæmni hans þar sem engin kostnaðargreining vegna innviðauppbyggingar hafi verið lögð fram.

Meirihlutinn lagði fram bókun gegn bókun minnihlutans þar sem ekki var tekið undir gagnrýninna og sagt að nauðsynlegt væri, til að standa vörð um hagsmuni Kópavogs, að ganga frá samkomulagi við lóðarhafa um byggingarréttargjald áður en deiliskipulag fari í auglýsingu. Þar með væri tryggt að uppbyggingaraðilar taki þátt í kostnaði á innviðauppbyggingu á svæðinu.

„Til að tryggja heildstæða uppbyggingu á reitknum er nauðsynlegt að úthluta hluta af lóðum bæjarins á reikntum, til uppbyggingaraðila. Við úthlutun á lóðum bæjarins var tekið mið af markaðsverði og vandlega farið yfir allar forsendur í því samhengi.“

Bergljót Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, bókaði á fundi bæjarráðs þann 17. ágúst um málið að nauðsynlegt væri að Kópavogur nýtti hluta lóða sinna á Reit 13 til úthlutunar til óhagnaðardrifinna byggingarfélaga. Yfirvöld í Kópavogi hafi ekki séð ástæðu til að leggja land undir slíka uppbyggingu skv. núverandi lagaheimildum, til þessa og séu í mikilli skuld við þennan hóp.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Valkyrjustjórnin tekur við á morgun

Valkyrjustjórnin tekur við á morgun
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Viðreisn fái fjármálaráðuneytið og utanríkismálin – Inga Sæland fylgi hjartanu og taki félagsmálaráðuneytið

Viðreisn fái fjármálaráðuneytið og utanríkismálin – Inga Sæland fylgi hjartanu og taki félagsmálaráðuneytið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Lofar nýjum og betri Brynjari 2025 – „Ekki þjóðsaga að nefið stækki með hverri lygi“

Lofar nýjum og betri Brynjari 2025 – „Ekki þjóðsaga að nefið stækki með hverri lygi“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið