fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Að skammast sín fyrir þjóðtunguna

Eyjan
Laugardaginn 19. ágúst 2023 14:00

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það getur verið þarft og nauðsynlegt að vakna öðru hverju upp með andfælum eftir að hafa sofið á verðinum. Felmtri slegnar sálir eiga það einmitt til að hugsa sinn gang – og það á dýptina – ef þær vita upp á sig skömmina.

Svo er einmitt farið um þá fjöldamörgu landsmenn sem vilja hlúa að íslenskri tungu og auka veg hennar í ræðu og riti. Þeir eru margir hverjir með böggum hildar þessi misserin, enda virðist móðurmálið eiga mjög undir högg að sækja á opinberum vettvangi.

Einna skýrast sér þessa stað í atvinnugreininni sem vaxið hefur hraðast á undanliðnum árum. Svo er komið fyrir ferðaþjónustunni hér á landi að hún virðist ekki lengur vilja bjóða erlendum ferðamönnum til íslenskumælandi lands. Það er eins og hún skammist sín fyrir þjóðtunguna. Og hafi þess utan enga trú á því að útlendingar hafi áhuga á helstu sérkennum þjóðarinnar.

Þetta er endemis fásinna.

Ferðamenn vilja öðru fremur verða fyrir nýstárlegum hughrifum í löndunum sem þeir sækja heim. Þeir vilja ferðast frá því hversdagslega til þess einstæða og óvenjulega. Og ein helsta ástæða þess að þeir velja að koma til Íslands er að hér á landi er að finna afar fágætar náttúrugersemar innan um þjóðlíf og menningu sem á varla sinn líka eftir að hafa þrifist svo lengi á afskekktum stað úti í miðju Atlantshafi.

Eitt af því sem þessir ágætu gestir Íslands hrífast hvað mest af er að þessi ein allra fámennasta þjóð á jarðríki skuli hafa varðveitt sitt eigið tungumál á jafn hrífandi máta og raun ber vitni, hvort heldur er í gömlum sögum, ljóðum og listsköpun af öllu tagi, ellegar með því að laga það eilíflega að nýjum tímum með hugmyndaríkri orðasmíð og endurgerðum hugtökum.

„Svo er komið fyrir ferðaþjónustunni hér á landi að hún virðist ekki lengur vilja bjóða erlendum ferðamönnum til íslenskumælandi lands.“

Það má heita svo að margur útlendingurinn sé gáttaður á þessu þrekvirki, að finna til íslensk orð yfir allt það sem batnar og breytist í hraða nútímans.

Því skýtur það skökku við, svo ekki sé meira sagt, að gestgjafinn sjálfur, ferðaþjónustan á Íslandi, reyni af fremsta megni að fela þessa sérstöðu samfélagsins við ysta haf, í stað þess einmitt að hampa henni í samræmi við óskir viðskiptavinarins.

Þetta er svona álíka gáfulegt og að blygðast sín fyrir eyðileg víðernin inn til landsins, eða fyrirverða sig sakir skorts á skógum og trjábreiðum meðfram þjóðveginum.

Hvorutveggja gerir Ísland að einstöku ferðamannalandi þar sem gestirnir gapa yfir þeirri yfirsýn sem blasir við þeim.

Íslensk tunga er órjúfanlegur partur af sjálfsmynd þjóðarinnar. Þá mynd þarf ekki að skammast sín fyrir – og þeirri mynd ber öllum atvinnugreinum að hlúa að, nýjum sem gömlum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
30.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta
EyjanFastir pennar
29.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel

Steinunn Ólína skrifar: Ég trúi því að alheimurinn vilji okkur vel
EyjanFastir pennar
22.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!