Kári Stefánsson segir að ef ekki væri fyrir tilkomu Íslenskrar erfðagreiningar fyrir 27 árum væru erfðafræðivísindin 10 árum á eftir því sem nú er. Íslensk erfðagreining er leiðandi fyrirtæki á sínu sviði í heiminum í dag.
Kári er viðmælandi Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
Aðspurður segir Kári það ólíku saman að jafna, þeim framförum sem Íslensk erfðagreining hefur leitt og því þegar Henry Ford fann upp færibandið og bylti iðnframleiðslu í heiminum. „Það var ný tækni en við erum vísindamenn, við erum að leita að þekkingu, við erum í sandkassanum og berum ekki ábyrgð á neinu nema leiknum,“ segir Kári.
Hann segir að þrátt fyrir að erfðafræðin og önnur vísindi hafi þróast mikið verði menn þó að átta sig á einu, sem er að við sem einstaklingar munum öll deyja. „Náttúran er ótrúlega flink í því að sjá til þess,“ segir Kári sem hefur enga trú á því að meðalaldur fólks fari nokkurn tímann mikið yfir 100 ár.
Að hans sögn er ekki óraunhæft markmið að meðalaldur fólks fari í 100 ár á næstu 25-50 árum. „En lengra förum við ekki,“ bætir hann við.