Svandís Svavarsdóttir mun heimila hvalveiðar 1. september. Ólafur Arnarson skrifar í Dagfarapistli á Hringbraut að hann hafi heimildir fyrir því að formenn ríkisstjórnarflokkanna hafi komið saman á lokuðum fundi til að freista þess að halda laskaðri ríkisstjórninni á lífi.
Hann segir Bjarna Benediktsson hafa þótt heldur leiðitaman forsætisráðherranum sem hann kom til valda en nú hafi hann talað tæpitungulaust og látið á sér skilja að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki sætta sig við frekari yfirgang af hálfu Svandísar í þessu máli. Í hvalveiðimálinu væri ríkisstjórnarsamstarfið í húfi.
Katrín Jakobsdóttir, sem stóð ásamt Svandísi Svavarsdóttur að því að banna hvalveiðarnar með sólarhringsfyrirvara í júní, mun nú hafa sett Svandísi stólinn fyrir dyrnar og því liggur fyrir að bannið verður ekki framlengt um næstu mánaðamót. Með þessu niðurlægir Katrín Svandísi sem verður fórnað í málinu, að sögn Ólafs.
Hann gefur í skyn að eftirmál kunni að verða vegna þessa máls og skrifar í lok pistilsins: „Oft veltir lítil þúfa stóru hlassi. Nú má spyrja hvort Kristján Loftsson eða Svandís Svavarsdóttir teljist vera litla þúfan í þessu máli?“
Dagfara í heild má lesa hér.