Mér verður af og til hugsað til samtals sem átti fyrir nokkrum árum við gamalreyndan verkalýðsforingja af vinstri vængnum. Sá hafði trúnaðarstarfa sinna vegna átt samskipti við stjórnmálamenn allra flokka um áratugaskeið og kvaðst merkja ýmsar breytingar í pólitíkinni á seinni árum. Til að mynda fannst honum henda alloft að forystumenn Sjálfstæðisflokksins skildu ekkert hvað hann væri að fara þegar talið bærist að kjörum hinna lakast settu í þjóðfélaginu. Hann sagði þetta mikla breytingu frá fyrri tíð og nefndi sérstaklega þá borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins sem síðar urðu forsætisráðherrar. Á árum áður hefðu daglega setið í röðum á biðstofu borgarstjórans margir sem bjuggu við bág kjör og borgarstjórinn sjálfur í því hlutverki að þurfa að greiða götu þessa fólks. Verkalýðsforinginn gamalreyndi sagði það áhugavert út af fyrir sig að síðar hefðu það verið vinstrimenn sem bætt hefðu hverri silkihúfuna ofan á aðra í borginni og þar með tryggt að engir þurfandi rötuðu inn á skrifstofu borgarstjórans.
En allt um það, þessi kynni borgarstjórans af kjörum okkar minnstu bræðra hefðu, að mati viðmælanda míns, gert það að verkum að þeir hinir sömu forystumenn Sjálfstæðisflokksins hefðu vitað vel hvar skórinn kreppti og því getað lagt margt gott til þegar leysa þurfti úr vandamálum láglaunafólks og bótaþega.
Raunar held ég að þetta skilningsleysi á kjörum hinna verst settu í þjóðfélaginu sé litlu ef nokkru minna hjá forkólfum vinstriflokkanna. Það er engin furða að orðið hafi til sérstakur flokkur utan um málstað þessa hóps — Flokkur fólksins — sem vel að merkja fékk sex menn kjörna í síðustu alþingiskosningum, eða jafnmarga og Samfylkingin. Þeir gömlu forystumenn Sjálfstæðisflokksins sem áður voru nefndir voru gjörkunnugir þeirri stefnu að gæta hagsmuna allra stétta. Andstæðingar flokksins höfðu þetta lengi í flimtingum en staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn naut frá fyrstu tíð mikils fylgis verkafólks — ólíkt þeim flokkum á hinum Norðurlöndunum sem hann hefur jafnan talið bræðraflokka. Þeir flokkar höfðu framan af verið flokkar landeigendaaðals og kaupsýslumanna, á þeim tíma er kosningaréttur var bundinn við efnahag og eiga sér því allt aðrar rætur.
Sem kunnugt er urðu flokkar sósíaldemókrata hryggjarstykkið í flokkakerfi Skandinavíu eftir að kosningaréttur varð almennur, sannkallaðir þjóðarflokkar á sama tíma og hægrivængurinn var margklofinn. Sjálfstæðisflokkurinn, sem sannarlega var hægra megin, varð aftur á móti fjöldaflokkurinn hér á landi, þjóðarflokkur sem raunar teygði sig hugmyndafræðilega yfir alla miðju stjórnmálanna og nokkuð til vinstri. Meðaltalsfylgi Sjálfstæðisflokksins var á síðustu öld í kringum 37% á landsvísu í alþingiskosningum. Höfuðvígið var í Reykjavík þar sem flokkurinn hélt hreinum meirihluta allt til ársins 1978 og aftur 1982–1994.
Í Reykjavík fólust vinsældirnar ekki hvað síst í dugmiklum borgarstjórum sem stóðu að hverri stórframkvæmdinni á fætur annarri. Nefna má í því sambandi söfnun vatnsréttinda og virkjun Sogsins, fyrstu almenningshitaveitu í heimi, útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, byggingu glæsilegra skólabygginga, lagningu varanlegs slitlags og gangstétta og svo mætti áfram telja. Slíkar opinberar stórframkvæmdir sýna að flokkurinn var fjarri því hreinræktaður hægriflokkur.
Inntak sjálfstæðisstefnunnar var orðrétt að „vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum“. Þetta er nokkuð klassísk skilgreining á stefnu mið-hægriflokks en því fer víðsfjarri að flokkurinn hafi nokkru sinni verið „sótsvart íhald“ eins og hann var oft uppnefndur. Ef við viljum heimfæra flokkinn upp á erlenda hugmyndafræði hefur hann lengst af verið borgaralegur flokkur íhaldsmanna, frjálslyndra og að einhverju marki hægrisinnaðra jafnaðarmanna, ekki ósvipað og kristilegu flokkarnir sem urðu til á meginlandinu eftir síðari heimsstyrjöld. Og líkt og þeir flokkar hafði Sjálfstæðisflokkurinn sterk tengsl við verkalýðshreyfinguna.
Sem langstærsti stjórnmálaflokkur landsins á síðustu öld var Sjálfstæðisflokkurinn miklu meira en stefna — hann var feikna áhrifamikil valdastofnun í þjóðfélaginu. Slíkar valdastofnanir hafa á öllum tímum gætt margs konar hagsmuna og vinnubrögðin að vonum misjöfn. Ég skráði minningar Ellerts B. Schram, alþingismanns og ritstjóra, sem komu út fyrir tæpum þremur árum. Þar röktum við hvernig flokksgæðingar fengu lóðir hjá Reykjavíkurborg og hvernig Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gerðu með sér helmingaskipti um stórframkvæmdir fyrir varnarliðið. Menn voru vegnir og metnir eftir flokkshollustu og í því kerfi voru raunar allir flokkarnir samsekir.
En svo allrar sanngirni sé gætt þá má sjá af skrifum og ræðum (og athöfnum) sjálfstæðismanna að þeir voru upp til hópa einlægir málsvarar einstaklingsfrelsis, mannréttinda, lýðræðis, réttarríkis, atvinnufrelsis og sér í lagi frjálsra viðskipta. Þeir töluðu fyrir eignadreifingu og séreignarstefnu og slagorðin „eign fyrir alla“ og „stétt með stétt“ gjarnan notuð. Og líkt og kristilegu flokkarnir á meginlandinu lagði Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á kjör þeirra sem minna máttu sín í samfélaginu; hjálpa þeim sem væru hjálpar þurfi, og að skapa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Þarna birtist draumsýn um þjóðfélag þar sem sköpunarkraftur borgaranna yrði leystur úr læðingi, menn fengju að rækta hæfileika sína, nytu afraksturs erfiðis síns en byggju samt sem áður við öryggi — og ekki hvað síst er árin færðust yfir og starfsgeta þyrri.
Almennt finnst mér bera æ minna á hugsjónum og hugmyndafræði í stjórnmálunum og engu líkara en flestir þingmenn og borgarfulltrúar skynji hvorki tíðarandann né þá hugmyndafræði sem flokkar þeirra byggðu á; skilji ekki hvaða erindi þeir eigi í pólitíkinni. En af því að hér er Sjálfstæðisflokkurinn til umræðu má nefna sem dæmi að þingkona flokksins kom af fjöllum á dögunum er tíðindamaður eins fjölmiðilsins innti hana álits á þeirri óánægju sem ríkti meðal flokksmanna um stjórnarsamstarfið, þar sem hugmyndafræði flokksins kæmist vart að.
Ég er ekki frá því að líkt sé komið stærstum hluta þingheims — hann lifir í einangruðum heimi þar sem menn hafa komið sér upp fríðindum á fríðindum ofan. Samtryggingarnet flokkanna er orðið svo þéttriðið að flestum sem falla út af þingi er komið fyrir í aðstoðarmannsstöður, þeir fluttir í letigarða fjölþjóðastofnana, ellegar búin eru til embætti hér heima. Þannig stækkar „stjórnmálastéttin“ með hverju árinu og hún sér um sig, eins og ég rakti nokkuð í síðasta pistli þar sem ríkisvæðing stjórnmálastarfs var til umfjöllunar. Raunar hafa allnokkrir komið að máli við mig í kjölfar þess pistils og sagt mér sögur af fjármálaóreiðu og ógætilegri meðferð þeirra miklu fjármuna sem flokkarnir hafa skammtað sér af skattfé. Þetta styrkir mig enn í þeirri trú að hvort tveggja þurfi að opna bókhald flokkanna upp á gátt og setja þröngar skorður við ráðstöfun þess almannafjár sem þeir taka sér.
Ríkisvæðing stjórnmálanna hefur lamað allt eigið eiginlegt félagsstarf, umræður eru varla nokkrar. Þetta er þeim mun bagalegra fyrir þá sök hversu fámennir við Íslendingar erum og flokkarnir orðnir margir og veikburða félagslega. Allt „bakland“ er meira og minna hjörð bitlingaþega. Sjálfstæðisflokkurinn er þar reyndar að nokkru undanskilinn, þar er enn talsverð hreyfing almennra félagsmanna innanborðs.
Svo ég vendi kvæði mínu í kross þá spurði nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar í stefnuræðu á flokksþingi þeirra í október í fyrra: „Hvað gerðum við vitlaust?“ og vísaði þar til þess að flokkurinn hefði beðið afhroð í fernum kosningum til Alþingis í röð og sagði svo að það væru „svik við okkur sjálf og svik við jafnaðarstefnuna og fólkið í landinu að halda bara áfram á sömu braut — eins og ekkert sé.“ Inntakið í ræðunni var að gildi jafnaðarstefnunnar hefðu staðist tímans tönn og þeim þyrfti að halda hátt á lofti. Samfylkingin ætti að verða flokkur sem gætti hagsmuna „venjulegs fólks á Íslandi“ og hafði hún þar sérstaklega í huga velferðarmálin sem sósíaldemókratar hafa jafnan lagt höfuðáherslu á. Hún bætti því við að flokkurinn skyldi koma á „virkari tengingu við fólkið í landinu — venjulegt fólk, hinn almenna launamann. Og það verður ekki gert með öðrum hætti en maður á mann. Niður af sápukassanum — beint í augnhæð. Sú nálgun mun einkenna flokkinn undir minni forystu.“
Hún viðurkenndi ítrekað í ræðunni að flokkurinn hefði einangrast hugmyndafræðilega og hann yrði að „brjótast út úr bergmálshellinum“. Pólitíkin væri lent í öngstræti þar sem framsóknarmenn hefðu unnið kosningasigur út á að skila auðu:
„Er ekki bara best að yppta öxlum, geispa og gefast upp? Þetta var boðskapur Framsóknar. Skiptir máli hvernig þú stjórnar? Nei, það skiptir bara máli hver situr í stólnum og hittir fræga fólkið í útlöndum. Þetta er stefna VG.“
Stefnumið Kristrúnar hafa fallið mörgum vel í geð. Samfylkingin hlaut aðeins 9,9% fylgi á landsvísu í alþingiskosningunum fyrir tæpum tveimur árum en ef litið er til þjóðarpúls Gallups hefur leiðin bara legið upp á við síðan. Nýjasta mælingin sýnir fylgið í 28,6% og yrði flokkurinn langstærstur á þingi ef kosið yrði nú. Segir mér hugur að mildari ásýnd og afturhvarf til klassískra áherslna í máli formannsins hafi hér mest um að segja. Í sömu könnun mældist fylgi Sjálfstæðisflokks aðeins 21%. Í þessu sambandi má líka rifja upp að þegar Sjálfstæðisflokkurinn naut mests fylgis var mun meiri áhersla á félagsleg gildi og samhjálp, svo sem undir kjörorðum á borð við að búa vel að öldruðum. Hugmyndafræði flokka skarast með ýmsum hætti og engin tilviljun hversu farsælt samstarf Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur áttu á sjöunda áratugnum.
Tíminn einn mun leiða í ljós hvort Samfylkingunni auðnist að finna upprunann, kjarnann í sinni stefnu, en við blasir að fólki fellur vel í geð málflutningur í þá veru. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að hefja sömu vegferð — leita upprunans — hefja hin gullvægu gildi stefnu sinnar til vegs á nýjan leik. Aðeins þannig getur hann endurheimt fyrri stöðu. Fyrsta skrefið á þeirri vegferð er að segja skilið við stjórnarsamstarf undir forystu flokksins yst á vinstrivængnum.