fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hugmyndafræðileg kreppa

Eyjan
Fimmtudaginn 10. ágúst 2023 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í okkar litla hagkerfi beitum við gjaldeyrishöftum í stærri stíl en almennt þekkist í ríkjum, sem byggja á markaðsbúskap. Umfang þeirra jafngildir ríflega heilli þjóðarframleiðslu. Tilgangurinn er að halda uppi gengi krónunnar.

Lífeyrissparnaður landsmanna er svo mikill að gjaldeyrishöft af þessari stærðargráðu nást með því einu að hafa helming hans í höftum.

Að öllu óbreyttu stefnir í að gjaldeyrishöftin jafngildi einni og hálfri þjóðarframleiðslu.

Lítil pólitísk umfjöllun

Athyglisvert er að pólitíkin fjallar lítið um þá skekkju, sem þetta veldur í þjóðarbúskapnum.

Skýringin kann að vera sú að gjaldeyrishöft af þessu tagi trufla fyrirtæki og heimili með óbeinum hætti. Svo er málið snúið og engin skyndilausn til.

Skaðsemi hafta er hins vegar engu minni þótt þau nálgist heimili og fyrirtæki eftir krókaleiðum.

Þar sem vægi haftanna í þjóðarbúskapnum eykst jafnt og þétt verður skaðsemi þeirra alvarlegri með hverju árinu sem líður.

Málið snýst um hugmyndafræði og framtíðarsýn.

Samkeppnismismunun

Gjaldeyrishöftin skekkja verulega verðmyndun krónunnar. Enginn veit hvert rétt eða eðlilegt verð hennar er þegar gjaldeyrishöftin eru jafn umfangsmikil.

Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs benti á það í fyrra að flest fyrirtæki, sem það mega, yfirgefa krónuna af því að það er besta leið þeirra til að mæla árangur starfsemi sinnar og meta samkeppnisstöðuna. Krónan dugar greinilega ekki til þess að mati Viðskiptaráðs.

Sá hluti fyrirtækja, sem er í samkeppni á innanlandsmarkaði, hefur ekki sömu aðstöðu. Þetta er óviðunandi samkeppnismismunun. Ofan á hana bætist svo vaxtamunurinn.

Einkafjármagnið víkur og eignabólur myndast

Höftin valda því að áhættudreifing lífeyrissparnaðarins er ekki nægjanleg.

Þegar jafn stórt lífeyriskerfi þarf síðan að fjárfesta meirihluta sparnaðarins í svo litlu hagkerfi myndast viðvarandi og vaxandi hætta á eignabólum og skekkju á hlutabréfamarkaði.

Sparnaður lífeyrissjóða er félagslegt fjármagn eins og aðrir skattpeningar. Með vaxandi hraða ryðja þessir skattpeningar einkafjármagninu til hliðar í atvinnulífinu.

Félagslegt fjármagn er ráðandi afl í flestum skráðum fyrirtækjum á markaði. Það er ráðandi afl í öllum bönkum. Það er ráðandi afl í öllum stærstu viðskiptafyrirtækjum bankanna auk þess sem lífeyrissjóðirnir eru sjálfir í þeim hópi.

Frumkvæðiskrafturinn dofnar

Þannig víkur innlent og erlent einkafjármagn fyrir félagslegu fjármagni. Það hefur meiri áhrif í íslensku atvinnulífi en í flestum öðrum um markaðshagkerfum. Sumir trúa á það.

En reynslan kennir okkur að einkafjármagninu fylgir meiri frumkvæðiskraftur. Þess vegna er þessi þróun skaðleg fyrir heildina. Gleymum ekki að frumkvæðiskrafturinn er einn af hornsteinum norræna velferðarkerfisins.

Vaxandi hlutdeild félagslegs fjármagns í atvinnulífinu mun einnig leiða til þess að samkeppnisreglur láta smám saman undan. Án virkra samkeppnisreglna er ekki unnt að tala um markaðsbúskap.

Þetta eru aðeins dæmi um skaða, sem gjaldeyrishöftin valda. En þau sýna að gjaldeyrishöft búa um sig eins og mein í hagkerfinu óháð því að hverjum þau beinast.

Talsverð fræðileg umfjöllun

Fræðimenn hafa verið duglegri en stjórnmálamenn að fjalla um vandann og mögulegar lausnir.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Hersir Sigurgeirsson skrifuðu afbragðs góða bók um þennan vanda árið 2014 með heitinu: Áhættudreifing eða einangrun.

Í fyrra var birt greinargóð skýrsla, sem Már Guðmundsson fyrrum seðlabankastjóri skrifaði með tillögum um að draga úr höftunum í áföngum.

Áhrifaríkasta og áhættuminnsta leiðin er þó að taka upp evru eins og Gylfi Zoega prófessor hefur nýlega rökstutt í stærra samhengi í Vísbendingargrein. Fyrir því er vaxandi hljómgrunnur meðal þjóðarinnar og fyrirtækja.

Dagskrármál

Víst er að við þurfum að finna leið út úr ógöngum svo umfangsmikilla hafta. Sérfræðingar hafa bent á fleiri leiðir en eina. En þjóðin er í þeirri klípu að pólitíkin hefur vikið sér hjá því að setja málið á dagskrá.

Gjaldeyrishöftin endurspegla því hugmyndafræðilega kreppu.

Hún snertir hagsmuni lífeyrisþega beint og hefur miklar afleiðingar fyrir fyrirtæki og heimili. Án viðbragða getum við séð þróttminna atvinnulíf og veikara velferðarkerfi.

Hér eru grundvallaratriði í húfi.

Þeir sem telja sig málsvara frjálslyndra hugmynda og velferðarsamfélags ættu að setja afnám gjaldeyrishaftanna á dagskrá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn