Samkvæmt tilkynningu utanríkisráðuneytisins hefur starfsemi sendiráðs Íslands í Rússlandi verið lögð formlega niður frá og með deginum í dag.
Fyrirsvar gagnvart Rússlandi og öðrum umdæmisríkjum sendiráðsins færist þar með til utanríkisráðuneytisins.
Utanríkisráðherra tilkynnti 9. júní sl. að frá og með 1. ágúst 2023 yrði starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu lögð niður. Samkvæmt tilkynningunni var ákvörðunin tekin í ljósi þess að staðan sé sú að það samræmist ekki forgangsröðun í utanríkisþjónustu Íslands að starfrækja sendiskrifstofu í Moskvu við núverandi aðstæður.
Fyrirsvar Íslands gagnvart Rússlandi og öðrum umdæmisríkjum sendiráðsins (Armeníu, Belarús, Kasakstan, Kirgistan, Moldóvu, Tadsíkistan, Túrkmenistan og Úsbekistan) færist að svo stöddu til utanríkisráðuneytisins.
Tekið er fram í tilkynningunni að ákvörðun um að leggja niður starfsemi sendiráðsins feli ekki í sér slit á stjórnmálasambandi Íslands og Rússlands. Um leið og aðstæður leyfi verði lögð áhersla á að hefja starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu á ný.