Þorvaldur Gylfason, prófessor emerítus í hagfræði við Háskóla Íslands, gerir málefni Lindarhvols að umtalsefni í færslu á Facebook-síðu sinni nú í morgunsárið. Eins og kunnugt er var umtöluð skýrsla Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda, um málefni félagsins birt í gær. Skýrslunni hafði verið haldið leyndri síðan árið 2018. Í henni er farið yfir rekstur félagsins sem var stofnað til að halda utan um eignir bankanna, sem hrundu árið 2008, og enduðu í faðmi íslenska ríkisins.
Kröfur um afsagnir vegna málsins hafa komið upp og Þorvaldur nefnir sérstaklega til sögunnar í færslu sinni Ásu Ólafsdóttur hæstaréttardómara en býður lesendum að nefna fleiri sem ættu að víkja vegna LIndarhvolsmálsins:
„Þeim fer fjölgandi sem ættu að sjá sóma sinn í að “stíga til hliðar” í þeirri nýgömlu spillingarhrinu sem ríður nú yfir landið. Ein þeirra er Ása Ólafsdóttir hæstaréttardómari sem sat í stjórn Lindarhvols án þess að segja múkk. Í heilbrigðu stjórnarfari myndi hún láta sig hverfa úr Hæstarétti a.m.k. þar til ríkissaksóknari hefur lokið rannsókn sinni. Fleiri þyrftu að gera slíkt hið sama. Þið getið bætt nöfnum á listann.“