fbpx
Föstudagur 08.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Lengi lifi kynin öll

Eyjan
Laugardaginn 8. júlí 2023 12:00

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur verið mikið lán fyrir íslenskt samfélag á síðustu áratugum að geta horfst í augu við alla þá fjölbreytni og hæfileika sem sannarlega skreyta mannlífið hér á landi – og gefa fólki tækifæri til að njóta sinna eigin eðliskosta.

Lengi vel ríkti einsleitnin ein á Íslandi. Karllæg vanafestan leið engar undanþágur frá ofríki og forréttindum, hvort heldur var til náms og vinnu, launa og stöðuveitinga, ellegar í félagslífi, samlífi og sýnileika í samfélaginu.

Það var aðeins ein mynd af mannlífinu viðurkennd. Hún var valin af körlum, fyrir karla.

Í þessum efnum eru umskiptin alger. Fjölbreytnin hefur yfirunnið einsleitnina. Það er vel. Og það er raunar nauðsynlegt til þess að samfélagið megi heita sanngjarnt og réttlátt. Og rúmi litróf þess.

Krafturinn sem þessu hefur fylgt er dásamlegur. Hans sér stað á öllum sviðum. Jafnvel gamla móðurmálið tekur kipp. Eðlilega. Það lagar sig að breytingunum. Vitaskuld. Það hefur einmitt verið lán og gæfa íslenskrar tungu að geta tekið sér far með tíðarandanum.

Þess vegna fögnum við nýju orðunum í íslensku máli, því þau túlka betri tíma í þjóðlífi, jafnrétti og mannréttindum – og þau gera svo mörgu fólki fært að segja frá sjálfsmynd sinni og einstaklingseðli í fullu samræmi við eigin lífsskilning.

Eftir stendur auðugra tungumál sem rímar við hugsun æ fleiri manneskja. Og vonandi allra eftir því sem nýju hugtökunum fjölgar.

„Við fjölgum ekki kynjunum með því að útiloka önnur.“

En það er í þessu ljósi sem gjalda verður varhug við því að útiloka gömul og gjaldgeng orð í íslensku. Við fjölgum ekki kynjunum með því að útiloka önnur.

Víðsýnin og umburðarlyndið sem þjóðin hefur tamið sér í svo ríkum mæli á nýrri öld verður að gilda á öllum sviðum. Það er enginn bragur að því – í ljósi allrar mannréttindabaráttunnar – að fólki skuli bregða við það eitt að karlkyn heyrist í samtali manna. Og það er krafa um gamla einsleitni að ekki megi lengur segja að margir hafi safnast saman á sólskinsdegi í Nauthólsvík, heldur verði að segja að mörg hafi komið þar saman. Og annað misbjóði fólki.

Mörg hver?

Íslenska byggir á frumlagi og andlagi.

Og í þessu tilviki hafa mörg ekkert andlag. Ekki frekar en öll sem núna eru þau einu sem eru velkomin í sund.

Við skulum fagna auðugra tungumáli. Og öllu frelsinu sem því fylgir. En við skulum ekki gera það fátækara og óttaslegnara. Og við skulum ekki skammast okkar fyrir kynin, hver sem þau eru, ellegar draga fram gamaldags fordóma til að gera minna úr einhverjum þeirra.

Og það er líklega mergurinn málsins. Nýir tímar kalla á að kynin lifi í öllum sínum fjölbreytileika. Öll kynin.

Og hvers vegna að banna eitt – eða leggja fæð á það – ef baráttan var allan tímann sú að fagna þeim og fjölga þeim?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!
EyjanFastir pennar
03.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið
EyjanFastir pennar
26.09.2024

Svarthöfði skrifar: Fjárnám er orð dagsins – Ragnar Reykás seðlabankastjóri

Svarthöfði skrifar: Fjárnám er orð dagsins – Ragnar Reykás seðlabankastjóri
EyjanFastir pennar
26.09.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Töframeðal stjórnmálanna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Töframeðal stjórnmálanna