fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Lindarhvolsmálinu vísað til ríkissaksóknara

Ólafur Arnarson
Fimmtudaginn 6. júlí 2023 13:50

Enn virðist óreiða einkenna starfsemi Lindarhvols og aðkomu tveggja síðustu ríkisendurskoðanda að félaginu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, hefur vísað Lindarhvolsmálinu til ríkissaksóknara til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu.

Þetta kemur fram í bréfi Sigurðar til þeirra sem málið varðar, dags. 28. júní 2023. Fylgiskjöl með bréfinu eru:

  • Greinargerð setts ríkisendurskoðanda vegna Lindarhvols ehf. júlí 2018
  • Bréf til forsætisnefndar Alþingis, dags. 17. febrúar 2021
  • Bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, dags 23. nóvember 2022
  • Deloitte Valuation of Klakki ehf. at 22 May 2016
  • Bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, dags. 16. febrúar 2023
  • Bréf Ríkisendurskoðunar, dags. 19. júní 2023, til setts ríkisendurskoðanda

Eyjan hefur þessi gögn undir höndum. Greinargerðin frá júlí 2018 er 70 blaðsíður og Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, hefur neitað að afhenda hana eða leyfa nokkrum að sjá hana þrátt fyrir að forsætisnefnd hafi einróma samþykkt að afhenda hana að fengnu lögfræðiáliti um að ekki væri einungis heimilt að afhenda hana heldur beinlínis skylt.

Hér geta lesendur nálgast afrit af greinargerðinni umdeildu

Andstaða við afhendingu hefur fyrst og fremst komið frá fjármálaráðuneyti Bjarna Benediktssonar, Ríkisendurskoðun og Seðlabankanum. Því hefur verið borið við að greinargerðin sé vinnuskjal, sem er rangt enda hefur Sigurður Þórðarson sjálfur lýst því að hann skilaði vinnuskjölum sínum sem notuð voru við vinnslu hennar til Ríkisendurskoðunar í 20 möppum og á minniskubbi.

Ástæða þess að Sigurður hefur nú vísað Lindarhvolsmálinu til ríkissaksóknara er sú að mikill munur er á upplýsingum og mati því sem fram kemur í greinargerð hans og skýrslu Ríkisendurskoðunar sem Skúli Eggert Þórðarson, þáverandi ríkisendurskoðandi, skilaði til Alþingis fyrir rúmum þremur árum og ekki hefur tekist að afgreiða meðal annars vegna þeirrar leyndar sem hvílir yfir greinargerðinni sem nú er komin fram í dagsljósið.

Alvarleg gagnrýni

Í greinargerð Sigurðar Þórðarsonar kemur fram margvísleg og alvarleg gagnrýni á starfsemi Lindarhvols, m.a.:

  • Óvönduð og ófagleg vinnubrögð hafi verið ástunduð af stjórn Lindarhvols og Steinari Þór Guðgeirssyni, lögmanni, sem sá um daglegan rekstur félagsins.
  • Gagnrýni lýtur meðal annars að því að mikið regluverk hafi verið sett af hálfu stjórnar Lindarhvols en ekkert farið eftir því í neinu. Nánast öllu hafi verið útvistað.
  • Regluverkið samanstóð af 134 töluliðum sem stjórn bar að fara eftir. Í raun var það svo flókið og viðamikið að það missti marks í framkvæmd. Engin eftirfylgni og óvirkt í framkvæmd. Þetta atriði er ekki síst áhugavert í ljósi þess klúðurs sem salan á hlut ríkisins í Íslandsbanka var á síðasta ári, en hvort tveggja var á ábyrgð fjármálaráðuneytis Bjarna Benediktssonar.
  • Sigurður Þórðarson gagnrýnir aðkomu Steinars Þórs Guðgeirssonar; hann hafi verið með gríðarlega mikið af verkefnum og að ekki hafi verið gætt nægjanlega að aðskilnaði, ábyrgð og innra eftirliti. Af greinargerðinni má ráða að sú vinna sem hann var fenginn til þess að sinna hafi verið allt of viðamikil fyrir hann og litla lögmannsstofu hans.
  • Gagnrýni lýtur að því að stjórn Lindarhvols hafi ekki sett sér lágmarksverð sölueigna eins og regluverkið gerði ráð fyrir. Einungis var miðað við bókfært virði viðkomandi eignar sem var mun lægra en verðmat hlutarins. Þá er farið yfir hið viðamikla regluverk varðandi hagkvæmni og leitun að besta verðinu, auk þess að aðilar í stjórn hefðu verið skipaðir vegna sérþekkingar. Ríkið virðist hafa orðið af miklum verðmætum vegna þessa sleifarlags.
  • Mikil gagnrýni er í greinargerðinni á að óskað hafi verið eftir upplýsingum án þess að svör hafi verið veitt. Í einhverjum tilvikum þar sem vantar upplýsingar er verið að óska skýringa að baki greiðslna. Lítill áhugi virðist hafa verið hjá stjórn Lindarhvols, ráðuneytinu og fleiri aðila á að veita slíkar upplýsingar.
  • Vegna tregðu við öflun upplýsinga reyndist settum endurskoðanda erfitt að ljúka verkefni sínu. Í upphafi gekk vel en þegar settur ríkisendurskoðandi fór að grafa dýpra í einstök mál varð viðmótið allt annað. Ráðuneytið veitti engin svör í ákveðnum tilvikum, né heldur Seðlabanki Íslands. Oftar en ekki voru þetta fyrirspurnir um óútskýrðar greiðslur.
  • Gagnrýni laut að því hvernig Lindarhvoll setti ekkert lágmarksverð við sölu á Klakka eigninni. Settur ríkisendurskoðandi fór yfir það að á tilboðsdegi hafi sex mánaða uppgjör legið fyrir. Leiðrétta hefði þurft fyrir ákveðnum þáttum sem hefði gefið verðmat upp á 952 milljónum króna. Þá var hæfi bjóðanda ekki kannað í söluferli um hagsmuni upp á tæpan milljarð. Engin gögn eru til staðar um hvernig verðmat á eignum átti sér stað.
  • Talsvert er af óútskýrðum greiðslum. Sér í lagi greiðsla frá Arion banka að fjárhæð 210 milljónir sem merkt var „Klakki“ og innfærð sem stöðugleikaframlag. Settur ríkisendurskoðandi spurðist talsvert fyrir um umrædda greiðslu þar sem hann taldi hana ekki stemma en fékk aldrei nein skýr svör. Enn þann dag í dag leikur á huldu fyrir hvað verið var að greiða.
  • Vafasamt var hvernig fallist var á 20 milljón króna lækkun kaupverðs einungis á grundvelli óundirritaðs (óformlegs) minnisblaðs. Vafasamur fyrirvari kaupanda var nýttur til hins ýtrasta án fullnægjandi rökstuðnings.
  • Stjórn Lindarhvols taldi það ekki í verkahring Sigurðar Þórðarsonar að hafa eftirlit með samningi við ráðuneytið, nokkuð sem engan veginn stenst og kallar klárlega eitt og sér á sérstaka rannsókn.
  • Í greinargerðinni kemur fram að mikil almenn tregða hafi verið við afhendingu gagna. Hvítþvottur af hálfu kerfisins og þöggunartilburðir hvert sem leitað var.

Rangt farið með fyrir dómi

Ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga áttu að gilda um Lindarhvol en eftir því var í engu farið.

42-51 verkefni var beint til Steinars Þórs eftir að Lindarhvoll starfsemi Lindarhvols var hætt. Eftir það var einn stjórnarmaður í félaginu, starfsmaður fjármálaráðujneytisins. Svo virðist sem lítið eftirlit hafi verið með ráðstöfun milljarðatuga.

Jafnræði bjóðenda í sölueignir Lindarhvols var ekki tryggt – ný skilgreining á jafnræði, sem kom fram fyrir dómi í Lindarhvolsmálinu, virðist hafa verið eftiráskýring stjórnar.

Bjóðendur áttu að hafa nauðsynlegar upplýsingar og aðgengi en fengu ekki. Lindarhvoll afhenti nákvæmlega engar upplýsingar en gekk til samninga við bjóðendur í Klakka sem voru innanbúðarmenn í Klakka og höfðu því mun meiri upplýsingar en aðrir bjóðendur.

Steinar Þór Guðgeirsson var kominn með prókúru fyrir Lindarhvol áður en fyrsti fundur stjórnar var haldinn – áður en stjórnin ræður hann til verka. Stjórnin hefur þá varla ráðið hann og veitt honum umboð heldur fjármálaráðuneytið sjálft enda lágu samningar við ráðuneytið og önnur skjöl um Lindarhvol fyrir á fyrsta stjórnarfundi!

Samkvæmt skipuriti frá Lindarhvoli var Steinar Þór Guðgeirsson skilgreindur sem „Framkvæmdarstjórn/rekstur“. Við málaferlin í Lindarhvolsmálinu sagðist hann einungis hafa verið ábyrgðarlaus ráðgjafi og gerði þannig lítið úr sínu starfi og ábyrgð en framkvæmdastjóri einkahlutafélags ber ríka ábyrgð á því sem gerist í félaginu.

Ítarlegar og faglegar reglur gilda um sölu fasteigna, mun ítarlegri en sala á milljarða eignum Lindarhvols sem voru í sjoppulegu söluferli að sögn lykilvitnis í Lindarhvolsmálinu.

Kallar á skýr svör og ábyrgð

Í greinargerðinni kemur fram að samvinna Hauks C. Benediktssonar, sem var framkvæmdastjóri Eignasafns Seðlabanka Íslands og stjórnarmaður í Lindarhvoli var mikil á náin. Haukur eignaðist einkahlutafélagið Hraunból úr hendi Steinars Þórs án endurgjalds að því er virðist en félagið var með eigið fé að fjárhæð um 20 milljónir. Engin svör hafa borist frá Seðlabankanum um eðli þessara viðskipta þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, en Haukur er nú framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands.

Þá virðist salan á Klakka hafa verið samþykkt í stjórn Lindarhvols án þess að Steinar Þór hafi upplýst stjórnina um lykilupplýsingar varðandi tilboð og fyrirvara þeirra. Er það athyglisvert í ljósi þeirra ávirðinga sem Fjármálaeftirlitið og Ríkisendurskoðun hafa beint gegn stjórnendum Íslandsbanka og Bankasýslunnar vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka í fyrra.

Skúli Eggert Þórðarson, höfundur hvítþvottarskýrslunnar um Lindarhvol, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, auk núverandi ríkisendurskoðanda, hljóta nú að verða að svara því hver munurinn er á sölu Íslandsbankahlutarins og sölu eigna Lindarhvols þar sem ríkið virðist hafa orðið af milljörðum, jafnvel milljarðatugum þegar allt er talið til.

Þá hlýtur Birgir Ármannsson að vera krafinn svara um það hvers vegna hann hefur reynt að halda upplýsingum frá Alþingi og þjóðinni um jafn alvarlegt og afdrifaríkt sleifarlag við ráðstöfun ríkiseigna og greinargerð Sigurðar lýsir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt