Í nýrri fylgiskönnun Gallup sem birt var í gær kom í ljós að fylgi ríkisstjórnarinnar er komið niður í 35 prósent og hefur aldrei verið lægra. Allir stjórnarflokkarnir tapa fylgi og hafa samtals misst 14 þingmenn yfir til stjórnarandstöðuflokanna.
Staða Vinstri Grænna er sérstaklega erfið en flokkurinn er með aðeins 6,2 prósent fylgi og hefur meðal annars misst Miðflokkinn talsvert fram úr sér en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og hans fólk státa af 7,8 prósent fylgi.
Ólafur Arnarson gerir fylgishrunið ríkistjórnarinnar að umtalsefni sínu í pistli á Hringbraut og þá sérstaklega viðbrögð Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra.
„Þegar ríkismiðillinn RÚV spyr Katrínu Jakobsdóttur um þessa niðurstöðu þá svarar hún því til að hún hafi litlar áhyggjur af þeim takmarkaða stuðning sem stjórnin nýtur og telur stjórn sína standa sterkum fótum. Þetta ber vott um annað hvort mikinn valdhroka eða botnlausa heimsku. Víst er að þetta ber ekki vott um að ráðherrann lesi af skynsemi í aðstæður,“ skrifar Ólafur og undrast langlundargeð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins yfir stöðu mála.