fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Eyjan

Loksins svar við fyrirspurn Jóhanns um Lindarhvolsmálið – Bjarni tók sér 85 daga í að skrifa „nei“ og Alþingi tók sér 22 í að birta það

Eyjan
Þriðjudaginn 4. júlí 2023 19:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslandsbankamálið, sem ríkisstjórnin var harðlega gagnrýnd fyrir, hefur verið áberandi í umræðunni undanfarna viku eftir að svört skýrsla um framkvæmd bankans á útboði á hlut íslenska ríkisins í bankanum birtist og afhjúpaði lögbrot og ótilhlýðilega háttsemi starfsmanna sem reyndu að redda viðskiptavinum sínum inn í útboðið með því að virða reglur að vettugi.

Varla ætti að koma nokkrum á óvart að nú, í kjölfar þess að stjórnendur Íslandsbanka hafa fengið að taka hatta sína og stafi, sé sjónum almennings beint að öðru máli sem hefur valdið tortryggni landsmanna í garð ríkisstjórnarinnar – Lindarhvolsmálið.

Heimildin vakti í dag athygli á svörum Bjarna við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, vegna Lindarhvolsmálsins.  Bjarni segist ekki hafa verið meðvitaður um bréf sem starfsmaður ráðuneytis hans sendi á forseta Alþingis þann 20. apríl á síðasta ári þar sem lagst var gegn birtingu greinargerðar setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf. Þetta hafi hvorki verið gert með vitund né vilja ráðherrans.

Þessi starfsmaður ráðuneytisins hafði verið fyrirsvarsmaður Lindarhvols í samskiptum við Alþingi. Bjarni minnti í svari sínu á að Lindarhvol hafi verið stofnað samkvæmt þar til gerðum lögum og hafi ekki verið reiknað með aðkomu hans sjálfs að rekstrinum.

Efni bréfsins frá Lindarhvoli hafi ekki verið borið undir Bjarna en þar séu þó reifuð sjónarmið félagsins í málinu og telur Bjarni sanngjarnt og eðlilegt að þau hafi fengið að koma fram.

Í kjölfarið af umræddu bréfi átti forseti Alþingis fund með áðurnefndum starfsmanni, en fundinn sátu einnig lögfræðingur ráðuneytisins sem hafði setið í stjórn Lindarhvols og lögmaður og fyrrverandi ráðgjafi Lindarhvols. Auk þeirra sátu fundinn starfsfólk laga- og stjórnsýslusviðs skrifstofu Alþingis.

Svör Bjarna voru birt rétt fyrir helgi á vef Alþingis, en fram kemur að svarið hafi borist Alþingi þann 6. júní svo alls liðu 22 dagar frá því að Alþingi bárust svörin og þar til þau voru birt á vefnum. Í millitíðinni var þingi frestað fram að hausti svo engar umræður eiga sér nú stað í þingsalnum, en fastlega má reikna með því að málið hefði verið tekið upp á þeim vettvangi hefði svarið verið birt fyrir frestun þingsins, en Bjarni hefur sannarlega tekið sér tíma í að svara fyrirspurn Jóhanns, en fyrirspurnin var lögð fram um miðjan mars og svarið sjálft er töluvert styttra en þessi frétt.

Hvað er þetta Lindarhvolsmál?

Fyrir þá sem þurfa smá upprifjun er rétt að geta þess að einkahlutafélagið Lindarhvoll ehf. var stofnað árið 2016 í kjölfar þess að ríkið gerði nauðasamninga við slitabú föllnu fjármálafyrirtækjanna. Samkvæmt þeim samningum lögðu slitabúin fram stöðugleikaframlög í ríkissjóð sem námu um 384 milljörðum og samanstóðu meðal annars af framsalseignum á borð við hlutabréf, skuldabréf, lánaeignir og fjárkröfur og fjársópseignir. Var Lindarhvoli falið að fara með umsýslu, fullnustu og sölu þessara framlaga. Lindarhvoll starfaði þar til árið 2018 og á þeim tíma nam andvirði innleystra stöðugleikaeigna um 207,5 milljörðum.

Starfsemi Lindarhvols vakti þó tortryggni meðal almennings. Þá einkum salan á tæpum 18 prósenta hlut í Klakka ehf., sem áður hét Exista. Meðal þeirra sem gagnrýndu söluna voru eigendur Frigus II, en það er félag í eigu fyrrverandi aðaleigenda Exista og fyrrverandi forstjóra félagsins. Urðu þeir ósáttir við söluna og töldu að þar hefði söluvirði á eign ríkisins ekki verið hámörkuð og stefndu þeir Lindarhvoli til að heimta bætur fyrir það meinta tjón sem málið hafi valdið þeim.

Ríkisendurskoðun tók þessa sölu fyrir í skýrslu sem kom út árið 2020 en þar var komist að þeirri niðurstöðu að ekkert athugavert hafi verið við söluna. Hins vegar hafði fyrrverandi ríkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, verið fenginn til að koma að rannsókn ríkisendurskoðunar á fyrri stigum málsins. Komst hann langt í þeirri skoðun og ritaði greinargerð sem hefur svo legið hjá forsætisnefnd Alþingis. Hefur Sigurður kallað eftir því að þessi greinargerð verði birt, þar sem hún eigi erindi við almenning. Því hafa stjórnvöld þó hafnað með vísan til þess að um vinnuskjal sé að ræða. Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur gengið hart fram til að reyna að fá greinargerðina birta, en ekki borið erindi sem erfiði.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir óvíst að Kristrúnu takist að halda Degi úti í horni til lengdar

Segir óvíst að Kristrúnu takist að halda Degi úti í horni til lengdar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi