fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Breyta þarf vindmyllupólitíkinni

Eyjan
Fimmtudaginn 27. júlí 2023 06:00

Vindmyllur Landsvirkjunar á Hafinu norðan Búrfells. Mynd/Landsvirkjun

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sveitarfélög hafa vegna ágreinings um skattheimtu nýtt sér heimild í lögum til að stöðva beislun vindorku tímabundið. Að auki er alls óvíst hversu lengi Hvammsvirkjun mun tefjast.

Þetta segir eina sögu: Eftir sex ára stjórnarsamstarf er orkuráðherra staddur á flæðiskeri með eitt allra stærsta framfaramál þjóðarinnar.

Markmið ríkisstjórnarinnar um full orkuskipti fyrir 2040 og fyrirheit hennar í stjórnarsáttmála um græna iðnbyltingu eru í blindgötu.

Pólitíski vandinn

Í grænu  skýrslu orkuráðherra kemur fram að til þess að ná markmiðum í loftslagsmálum og græna iðnbyltingu þurfi að bæta við 100 MW af rafafli á hverju einasta ári í tvo áratugi. Nú er ár liðið án þess að fyrstu framkvæmdir séu einu sinni í sjónmáli.

Hitt er enn merkilegra að engin áætlun er til um framhaldið.

Sannarlega er það svo að ríkisstjórnin þarf ekki að halda fast í öll markmið. Hún getur seinkað markmiðum í loftslagsmálum og dregið úr væntingum um hagvöxt.

Allt myndi það þó hafa hliðarverkanir á ríkisfjármál, kjarasamninga og verðbólguvæntingar, sem þarf að ræða eigi að fara þá leið. Það er ekki heldur gert.

Pólitíski vandinn er sá að ríkisstjórnin kemur sér hvorki saman um að standa við markmiðin né að víkja frá þeim.

Ekki komin á byrjunarreit eftir sex ár

Við óbreyttar aðstæður kemst engin ný orkuvinnsla af stað á næstunni, hvorki með vindafli né vatnsafli.

Engin ríkisstjórn kemst úr sporunum með því að dansa stöðugt í kringum byrjunarreitinn.

Óhjákvæmilegt fyrsta skref er að ná samkomulagi um hversu mikið þarf að virkja. Með öðrum orðum að samræma markmið um orkuskipti, græna iðnbyltingu og orkuöflun.

Annað skref er að ná samkomulagi um hversu stóran hlut á að ætla vatnsaflinu og hver hlutur vindorkunnar á að vera.

Eftir sex ár hefur ríkisstjórnin ekki komist á þennan byrjunarreit.

Vindmyllupólitíkin

Svo virðist sem unnið sé eftir þeirri hugmynd að láta innlenda og erlenda vindmylluriddara keppast um að koma upp vindmyllugörðum vítt og breitt um landið.

Það eina sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um eftir sex ár er að fyrst þurfi að setja leikreglur.

Vandinn er að endalaust er unnt að þæfa umræður um leikreglur og skattheimtu meðan ekkert samkomulag er um hversu mikil orkuþörfin er. Þetta þóf hentar VG mjög vel.

Jafnvel þótt þófið tæki enda er þetta ekki þjóðhagslega hagkvæmasta leiðin. Auk heldur er hún líkleg til að leiða til mestra árekstra við náttúruverndarsjónarmið.

Nýtt plan

Eina leið orkuráðherra til þess að koma sér af flæðiskerinu er að leggja fram nýtt plan.

Í fyrsta lagi þarf hann fyrir haustið að setja VG það skilyrði fyrir framhaldi stjórnarsamstarfsins að fallast á raunhæft markmið um heildarorkuöflun og hversu stórt hlutverk vindmyllurnar fá.

Í öðru lagi þarf hann að fela Landsvirkjun að afla meirihluta þeirrar vindorku sem þarf til orkuskipta. Sennilega má ná því á þremur fyrir fram skilgreindum svæðum.

Í þriðja lagi þarf að fela Landsvirkjun að hraða framkvæmdum. Eftir sem áður yrði svigrúm fyrir sveitarfélög og einstaklinga til að reisa minni vindmyllugarða þar sem náttúruverndarsjónarmið leyfa.

Í mars lagði formaður Viðreisnar til að svipuð stefnubreyting yrði verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Það var mikilvægt pólitískt framlag. Vandinn er að þjóðin hefur ekki efni á að bíða í tvö ár.

Stundaglasið tæmist hratt

Stefnubreyting myndi leiða til aukinnar þjóðhagslegrar hagkvæmni af því að vindorkan er háð varaafli frá vatnsaflsvirkjunum.

Með því að hafa vindmyllugarðana færri en stærri eru meiri möguleikar á að ná ásættanlegu jafnvægi milli loftslagsverndar og náttúruverndar.

Svo yrði auðveldara að leysa vandann með auðlindagjaldið.

Ráðherrann á val um að bíða á flæðiskerinu fram til kosninga eða koma sér þaðan í tæka tíð.

Stundaglasið tæmist hratt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn