Í ævisögu Jóhannesar Nordal fjallar hann um skaðsemi haftastefnu og verndartolla sem ríktu hér frá í heimskreppunni um 1930 allt til að Viðreisnarstjórnin innleiddi viðskiptafrelsi um 1960. Frelsi borgaranna, samkeppni og frjáls viðskipti eru helstu stoðir velferðar og hagsældar að mati Jóhannesar. Mörg dæmi sanna þessa skoðun hans.
Með inngöngu Íslands í EFTA var tollum af iðnaðarvörum aflétt og í framhaldinu blómstraði íslenskur iðnaður. Fyrir nokkrum árum var tollum af grænmeti aflétt og síðan hefur íslenskur grænmetisiðnaður blómstrað.
Eftir að einokun ríkisins á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði var aflétt hefur ríkt öflug samkeppni og hröð framþróun á þessum sviðum. Áður ríkti fákeppni í útflutningi á fiski með SH og SÍF en eftir að þessi markaður var gefinn frjáls hafa hundruð fyrirtækja annast sölu á fiskafurðum með góðum árangri.
Með þátttöku Íslands í Evrópusamstarfinu höfum við tengst 500 milljóna markaði með viðskiptafrelsi og samkeppni í huga.
Alltaf þegar markaðslausnir og samkeppni kemst á eykst hagur heimila og fyrirtækja.
Verndartollar og samkeppnisleysi.
Þrátt fyrir þessi sannindi og reynslu leggur ríkið háa tolla á matvöru sem heimilin nota daglega.
Það leiðir til þess að íslensk heimili fá ekki að njóta hagkvæms verðs á erlendri matvöru og íslensk iðnfyrirtæki fá ekki að flytja inn ódýrt mjólkurduft sem er uppistaðan í sælgætis- og ísframleiðslu.
Í nokkra mánuði á þessu ári fengu heimilin að njóta tollfrjáls kjúklingakjöts frá Úkraínu á hálfvirði en það frelsi var stöðvað af stjórnarmeirihlutanum.
Í dag setur ríkið verndartolla og heldur uppboð á innflutningskvótum sem veldur allt að 1000 króna aukakostnaði á hvert kíló af innfluttum osti, skinku, pylsum og kjötvörum.
Verndartollarnir valda neytendum í landinu miklum skaða. Áætlað er að hver fjölskylda í landinu skaðist um sem nemur um 130 þúsund krónum á ári sem eru um 200 þúsund krónur í launum fyrir skatta. Þessir tollar valda því meðal annars að við búum eitt hæsta matarverð á Vesturlöndum sem aftur eykur verðbólgu og hækkar vexti og vísitölu á húsnæðislánum okkar.
Að auki eru mjólkurframleiðendur undanþegnir samkeppnislögum og mega stunda samráð sem er ólöglegt hjá öðrum atvinnugreinum.
Vitlausari getur stjórnarstefna eiginlega ekki verið. Enginn græðir – allir tapa!
Ostarnir í Costco.
Um daginn átti ég leið um Costco. Þar er að finna um 35 ostategundir og um 25 sortir af kjötáleggi. Allar þessar vörur bera allt að 1000 krónu áðurnefndan verndartoll á kíló. Nánast engar af nákvæmlega þessum vörum eru framleiddar á Íslandi.
Landbúnaðarstefnan er ekki að vinna með hagsmuni neytenda í huga. Sérhagsmunir eru teknir fram yfir almannahagsmuni.
Störf bænda eru mikilvæg og sjálfsagt að hið opinbera komi þeim til aðstoðar eins og í nágrannalöndum okkar. En verndartollar og samkeppnisleysi eru ekki rétt leið. Nær væri að styðja bændur til landnýtingar, skógræktar og uppgræðslu eins og gert er í öllum ríkjum Evrópusambandsins. Þar eru viðskipti tollfrjáls og engir framleiðslustyrkir eins og hér.
Landbúnaður á Íslandi er að miklu leyti undir stjórn ríkisins sem er með nefndir og ráð sem ákveða verð á framleiðslunni, stýrir kvótakerfi, útdeilir styrkjum og setur á verndartolla.
Bændur í basli.
Áratugum saman hafa bændur barist fyrir betri kjörum án árangurs. Sauðfjárbúskapur er mikið basl og mjólkurbændur kvarta undan afkomunni. Verð fyrir framleiðsluna eru ákveðin á fundum ríkisstofnunarinnar sem heitir Verðlagsnefnd búvara. Afurðastöðvar senda bréf til bænda á hverju sumri þar sem þær upplýsa um ákvörðun sína um afurðaverð lambakjöts til bænda. Þeir fá líka tilkynningu um mjólkurverð frá ríkisstofnun.
Framleiðslan á lambakjöti er töluvert umfram eftirspurn og mjólkin er víða framleidd á smáum býlum þar sem hagkvæmni stærðar næst ekki. Skattgreiðendur styrkja framleiðsluna um 15 milljarða á ári og tollvernd gegn innflutningi er talin kosta neytendur um 17 milljarða ári.
Þessi skelfilega landbúnaðarstefna hefur viðgengist í um 60 ár. Þrátt fyrir ríkisstuðning og tollvernd, stuðning frá Byggðastofnun og fleiri stofnunum ríkisins, flókið mjólkurkvótakerfi og þrátt fyrir að bændur séu flestir með tvöfalt vægi atkvæða í landinu er árangurinn fáránlega lélegur, fyrir alla aðila í landinu. Allir tapa á þessu kerfi, enginn hagnast, nema afurðastöðvarnar.
Bændur og ESB
Stærsta hagsmunamál bænda er stuðningur þeirra við aðild Íslands að ESB sem er með stærsta landbúnaðarstuðningskerfi í heiminum. Með aðild fengist tollfrjáls aðgangur íslenskra landbúnaðarvara að markaði 500 milljóna neytenda.
Um helmingur fjárlaga ESB fer í stuðning við bændur, þó ekki framleiðslustuðning heldur jarðræktarstyrki. Finnskir bændur geta vottað um ágæti ESB aðildar fyrir bændur en staða þeirra hefur breyst mikið til batnaðar eftir ESB aðild Finnlands.
Með aðild að ESB myndu íslenskir bændur fá ríflega jarðræktarstyrki frá ESB enda er hann skilgreindur sem heimskauta landbúnaður sem ESB styrkjakerfið tekur opnum örmum.
Viðreisn vill öflugan og sjálfbæran landbúnað.
Lausnin í þessu málið felst í því að gefa bændum frelsi til að framleiða það sem þeir vilja framleiða, ákveða verðið sjálfir og taka samkeppni erlendis frá fagnandi. Bændur þurfa að fá að stjórna sínum málum sjálfir, verða frjálsir bændur!
Það gerðu grænmetisbændur þegar þeir losnuðu undan krumlum ríkisafskipta og innflutningur var gefinn frjáls. Grænmetisgeirinn blómstraði og keppir í dag við innflutninginn með stolti og krafti.
Ég hef mikla trú á frjálsum íslenskum landbúnaði. Hann framleiðir framúrskarandi vöru með mun minni kolefnisspori en innflutt matvara, notar engin sýklalyf, og getur hæglega keppt á frjálsum markaði.
Bændur eiga ekki að láta ríkið segja sér hvað þeir mega framleiða og fá greitt fyrir vöruna. Þeir eiga að ákveða það sjálfir og láta íslenska neytendur njóta góðrar vöru á góðu verði.
Viðreisn vill draga úr miðstýringu í landbúnaði og auka frelsi, bæði neytendum og bændum til hagsbóta. Viðreisn leggur áherslu á aukna fjölbreytni og nýsköpun með markvissum stuðningi við verkefni á sviði landbúnaðar og vöruþróunar í greininni.
Viðreisn vill að bændur fái frelsi til að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir og stuðla að innri samkeppni í greininni. Afnám verndartolla og aukin samkeppni skapar tækifæri fyrir landbúnaðinn.
Viðreisn vill sjá fleiri frjálsa bændur!
Thomas Möller er varaþingmaður og stjórnarmaður í Viðreisn.