fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Samfylkingin og Viðreisn með nánast jafnmikið fylgi og allir ríkisstjórnarflokkarnir í nýrri könnun Maskínu

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 25. júlí 2023 13:37

Samfylkingin og Viðreisn eru nú með nær sama fylgi og allir þrír ríkisstjórnarflokkarnir samanlagt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stöð 2 og Vísir hafa birt nýja skoðanakönnun Maskínu sem tekin var frá 6. júlí þar til í gær. Hún sýnir sömu þróun og verið hefur allt þetta ár. Ríkisstjórnin er kolfallin, Samfylkingin er áfram afgerandi stærsti flokkur landsins og allir stjórnarflokkarnir hafa tapað miklu fylgi, samtals 13 þingmönnum.

Samfylkingin fengi 25,3 prósent fylgi og 16 þingmenn kjörna, missir 1,5 prósent frá síðustu könnun en fékk einungis 9,9 prósent fylgi í kosningunum árið 2021. Viðreisn bætir nú við sig og samtals fengju þessir tveir miðjuflokkar 35,7 prósent greiddra atkvæða samkvæmt könnuninni sem er svipað og allir ríkisstjórnarflokkarnir fengju samtals en fylgi þeirra nemur 36,9 prósent.

Framsókn fengi 9,6 prósent og næði sjö þingmönnum en er nú með 13 menn kjörna. Píratar halda sínum 11 prósentum og næðu sjö mönnum inn á þing. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn fengju fjóra menn kjörna hvor flokkur en Sósíalistar kæmu ekki manni á þing frekar en nú er. Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn fyrir neðan tuttugu prósentin og er með 19,3 prósent fylgi, fengi 13 menn kjörna en tapar fjórum frá núverandi þingmannatölu.

Ríkisstjórnin væri kolfallin ef niðurstaða þessarar könnunar gengi eftir. Líklegast er að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, myndaði ríkisstjórn sem leiðtogi stærsta flokksins á þingi. Hún gæti myndað stjórn samkvæmt „Reykjavíkurmynstrinu“, þ.e. Samfylking, Viðreisn, Píratar og Framsókn sem fengju samtals 37 þingmenn kjörna ef marka má könnun Maskínu. Samstarf þessara fjögurra flokka hefur gengið vel í borginni og því má ætla að ástæða þætti til að láta reyna á samstarf þeirra í ríkisstjórn.

Fræðilega séð gæti Samfylkingin myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum en þá þyrfti að fá einn flokk til viðbótar til að meirihluti næðist. Verður það að teljast ólíklegur kostur miðað við þær skoðanakannanir sem birtar hafa verið það sem af er þessu ári en þær virðast kalla eftir grundvallarbreytingum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt