fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Seðlabankinn skaut himinhátt yfir markið

Ólafur Arnarson
Laugardaginn 22. júlí 2023 18:00

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Verðbólgan virðist nú hjaðna hratt. Í júlí mældist tólf mánaða verðbólga 7,6 prósent og lækkar úr 8,9 prósent í júní.

Ekki þurfti að bíða lengi eftir því að fulltrúar ríkisstjórnarinnar kæmu fram fyrir skjöldu, berðu sér á brjóst og hreyktu sér af því að eiga heiðurinn af þessum árangri. Næsta víst er að Ásgeir Jónsson og félagar hans í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands telja himinháa okurvextina, sem þeir hafa nú hækkað 13 sinnum í röð í sífellt stærri skrefum, – vextina sem eru að knésetja ungar fjölskyldur hér á landi – vera vopnið sem náði verðbólgunni niður.

Staðreyndin er hins vegar sú að síðustu vaxtahækkanir Seðlabankans hafa lítið með hjöðnun verðbólgu nú að gera, enda er vitað að áhrif vaxtabreytinga í hagkerfinu koma fram 12-18 mánuðum síðar.

Verðbólguhjöðnunin nú er þrátt fyrir fullkominn ólestur ríkisfjármála, enda hafa útgjöld ríkissjóðs þanist stjórnlaust út allan síðasta áratug.

Útsölur en ekki vaxtahækkanir

Ástæða þess að vísitala neysluverðs var nær óbreytt milli mánaða (hækkaði um 0,03 prósent) er sú helst að sumarútsölur eru í fullum gangi og valda 0,34 prósenta lækkun vísitölunnar. Einnig lækkar nú reiknuð húsaleiga (áhrif til lækkunar eru 0,14 prósent) og þar gætir áhrifa vaxtastigsins í landinu að einhverju marki.

Einnig hefur styrking krónunnar áhrif en þar ræður mestu aukið innstreymi gjaldeyris hingað til lands á einhverju mesta ferðasumri sögunnar.

Gleymum því samt ekki að 7,6 prósenta ársverðbólga er himinhá og langt yfir öllum viðmiðunarmörkum Seðlabankans og stjórnvalda.

Stórfelldur tilflutningur fjármagns í samfélaginu

Við þessar aðstæður skila bankar methagnaði í uppgjörum sínum vegna þess að vaxtatekjur þeirra hafa stóraukist vegna vaxtahækkana Seðlabankans. Þessi hagnaður kemur frá fyrirtækjunum í landinu og heimilunum. Hér er því um gríðarlegar fjármagnstilfærslur frá atvinnulífi og heimilum til fjármálafyrirtækja og fjárfesta að ræða.

Við blasir að afleiðing þessa verður sú að fyrirtæki og heimili munu í stórum mæli neyðast til að færa fjármögnun sína úr óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð, sem bjóða lægri greiðslubyrði í bráð en eru margfalt dýrari þegar upp er staðið, auk þess sem verðtrygging grefur undan virkni þeirra vopna sem Seðlabankinn hefur yfir að búa í baráttunni við verðbólgu.

Ef horft er á þróun vísitölu neysluverðs frá því í júlí í fyrra kemur í ljós að verðbólga breyttist lítið frá júlí fram í febrúar á þessu ári en hefur síðan farið lækkandi.

Þetta gefur til kynna að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hafi skotið hátt yfir markið með ítrekuðum og vaxandi vaxtahækkunum síðustu tólf mánuðina hið minnsta. Áhrifin af vaxtahækkunum síðustu tólf mánaða eru einungis að litlu leyti komin fram. Hagkerfið mun finna fyrir þunga þeirra af fullum krafti eftir 6-18 mánuði.

Verðbólguvaldur í sjálfu sér

Raunar er það svo að vaxtakostnaður er það ríkur hluti kostnaðar íslenskra fyrirtækja og heimila að hávaxtastefna Seðlabankans er verðbólguvaldur í sjálfu sér, bæði vegna þess að rekstrarkostnaður fyrirtækja hækkar og þess að vextir eru einn stærsti útgjaldaliður heimilanna og háir vextir hafa því mikil og afgerandi áhrif á kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningum, en fram undan er mikil kjarasamningalota þar sem allir helstu kjarasamningar eru lausir á næstu mánuðum.

Við blasir að í núverandi hávaxtaumhverfi verða kjarasamningar á komandi vetri afar snúnir og ólíklegt að niðurstöður þeirra leiði til stöðugleika að óbreyttu.

Þá blasir við að rekstrarumhverfi fyrirtækja, sem háð eru fjármögnun í íslenskum krónum, er þungt og þyngist. Hætt er við að hávaxtastefna Seðlabankans steypi íslensku hagkerfi í kreppu, sem getur orðið þungbær atvinnulífinu, heimilunum og ekki síst fjármálafyrirtækjum, þegar viðskiptavinirnir, fyrirtækin og heimilin, lenda í vandræðum vegna stökkbreyttrar greiðslubyrði. Þá er hætt við að bankar og aðrir lánveitendur muni í auknum mæli leysa til sín íbúðir og aðrar eignir, líkt og gerðist eftir Hrun.

Sú kreppa sem nú er hætt við að Seðlabankinn og stjórnvöld hafi kallað yfir hagkerfið verður ríkissjóði Íslands og sveitarfélögunum líka þungbær ef að líkum lætur. Sveitarfélögin standa einstaklega illa nú og eru ekki í stakk búin að mæta efnahagskreppu.

Kjarni vandans

Hið dapurlega við þetta allt saman er að þær miklu vaxtahækkanir sem Seðlabankinn hefur innleitt frá því í maí 2021 hafa að mestu verið gagnslausar, ef ekki beinlínis skaðlegar. Stór hluti verðbólgunnar hefur stafað af erlendum verðhækkunum sem vextir Seðlabanka Íslands hafa engin áhrif á. Annar hluti hefur stafað að því að vaxtahækkanir Seðlabankans eru beinn áhrifavaldur á hinn séríslenska húsnæðislið vísitölu neysluverðs og miklar vaxtahækkanir valda hækkun húsnæðisliðarins.

Þriðji hlutinn er svo sá, sem áður hefur verið vikið að, að vextir eru einn stærsti kostnaðarliður íslenskra fyrirtækja og heimila og því valda háir vextir kostnaðarverðbólgu.

Ýmsir hafa orðið til að benda á að kjarni þess vanda sem stafar að íslensku hagkerfi liggur í sjálfum gjaldmiðlinum. Líklegt er að verkalýðshreyfingin muni í vaxandi mæli kalla eftir endurskoðun og jafnvel uppstokkun í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar. Spurningin er hvort atvinnulífið gerir það líka eða hvort sérhagsmunirnir eru of ríkir þar til að ljá megi máls á því að skipta um gjaldmiðil.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?