Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals-Útsýn, segir óskiljanlegt að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra standi ekki fyrir myndarlegri ferðamálaráðstefnu hér einu sinni á ári til að kynna Ísland, fá hingað stóra kaupendur ferðaþjónustu og flugfélögin sem hingað fljúga. Þetta geri flestir áfangastaðir í heiminum en eigi ekki við hér á Íslandi.
Þórunn er viðmælandi Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
„Það er eins og allir í þessum stofum og ráðuneytinu hugsi meira um að fara til útlanda á ráðstefnur með miklum tilkostnaði en að fá fólk hingað til Íslands,“ segir Þórunn. „Þetta er galið,“ bætir hún við.
„Við eigum að vera með ferðamálaráðstefnu hérna á sama tíma og Iceland Airwaves er haldin á hverju ári,“ segir Þórunn.
Þá hefur Þórunn sterkar skoðanir á því að erlendir ferðamenn sem koma sér í sjálfheldu þannig að kalla þurfi út björgunarsveitir beri kostnað af útkallinu. Slíkt viðgengst erlendis og telur Þórunn það arfavitlaust að íslenskur almenningur og fyrirtæki borgi slíkar björgunaraðgerðir óbeint með styrkjum og skattfé.