Bann þýskra stjórnvalda á íslenskum upprunaábyrgðum fyrir græna orku er á pari við hryðjuverkalöggjöf Breta gegn Íslandi í hruninu og efnahagslegu áhrifin hefðu orðið tvöfalt til þrefalt meiri en Icesave. Þetta kemur fram hjá Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
Sú aðgerð þýskra stjórnvalda að banna upprunaábyrgðir fyrir íslenska orku nú í vor var gríðarlega harkaleg og ósanngjörn gagnvart litlu ríki sem uppfyllir allar sömu kröfur og önnur Evrópuríki, að sögn Harðar.
Markadurinn: Hördur Arnarson - Klippa 5
Þjóðverjar afturkölluðu bannið tímabundið eftir myndarlegt inngrip íslenskra stjórnvalda þar sem bæði umhverfisráðherra og utanríkisráðherra beittu sér, að sögn Harðar. Hann vonast til að málið verði endanlega úr sögunni nú í haust og segir enga innistæðu fyrir aðgerðum Þjóðverja sem hafi verið einstaklega fjandsamlegar í garð Íslands.
Til að setja hlutina í samhengi bendir Hörður á að efnahagsleg áhrif af þessari aðgerð þýskra stjórnvalda yrðu tvöföld til þreföld þau sem orðið hefðu af Icesave ef Ísland hefði þurft að bera þann kostnað óbættan.
Hörður segir upprunaábyrgðakerfið í Evrópu vera mjög gott, það stuðli að því að orkuframleiðsla og -notkun færist yfir í endurnýjanlega orku og styðji því við orkuskiptin.
Sala upprunaábyrgða grænnar orku skilar 20 milljörðum inn í íslenska hagkerfið á hverju ári og án þeirra væri raforkuverð til íslenskra heimila hærra en ella vegna þess að afrakstur sölu upprunaábyrgða nýtist í raun til að niðurgreiða orkuverð til íslenskra heimila á löglegan hátt, en Landsvirkjun, sem markaðsráðandi fyrirtæki, er óheimilt að selja orku undir kostnaðarverði.