fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Lindarhvolsmálið komið í eðlilegan farveg sakamáls

Ólafur Arnarson
Föstudaginn 14. júlí 2023 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkissaksóknari hefur sent bréf Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda í málefnum Lindarhvols, ásamt fylgigögnum, sem meðal annars innihalda greinargerð Sigurðar um starfsemi Lindarhvols sem fjármálaráðherra, forseti Alþingis, Seðlabankinn og ríkisendurskoðandi hafa lagt allt kapp á að halda leyndri, til héraðssaksóknara til efnislegrar meðferðar.

Af þessu er ljóst að ríkissaksóknari hefur lagt sjálfstætt mat á að ábendingar Sigurðar sem koma fram í greinargerðinni og öðrum gögnum málsins séu svo alvarlegar og studdar gögnum að nauðsynlegt sé af hálfu ákæruvaldsins að hefja rannsókn á því hvort tilefni sé til að höfða sakamál vegna starfsemi Lindarhvols og ráðstöfunar eigna.

Lindarhvolsmálið er því komið í eðlilegt ferli sakamála.

Með þessu hefur ríkissaksóknari sópað út af borðinu hjákátlegum og ámátlegum tilraunum fjármálaráðherra, forseta Alþingis og Guðmundar Björgvins Helgasonar, ríkisendurskoðanda, til að gera lítið úr greinargerð Sigurðar og tilraunum þeirra til beina umræðunni í þann farveg að öllu máli skipti hvernig greinargerðin komst fyrir augu fjölmiðla og almennings en ekki hvað í henni stendur.

Sjá einnig: 9 gölnustu ávirðingarnar úr Lindarhvolsskýrslunni – Steinar alls staðar, leyndarhyggja og rausnarlegur afsláttur á grundvelli tortryggilegs minnisblaðs

Ljóst er að Skúli Eggert Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi og höfundur opinberrar skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol, „hvítþvottarskýrslunnar“ svonefndu, og Guðmundur Björgvin Helgason, núverandi ríkisendurskoðandi, geta þurft að svara erfiðum spurningum héraðssaksóknara um sín afskipti af Lindarhvoli og ummæli um greinargerð Sigurðar.

Ólöglærður lögspekingur

Guðmundur Björgvin Helgason, sitjandi ríkisendurskoðandi, hefur farið mikinn og hvergi dregið af sér í ófrægingarherferð gegn Sigurði Þórðarsyni. Meðal þess sem Guðmundur Björgvin hefur haldið fram er að Sigurður hafi farið út fyrir verksvið sitt og umboð með því að ræða við aðra aðila en Lindarhvol um starfsemi og einstaka gjörninga á vegum félagsins og þá hafi hann heldur ekki haft umboð til að senda Alþingi og fleirum greinargerð sína, sem var uppgjör á störfum hans sem settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols.  Sterkar meiningar Guðmundar Björgvins um lögmæti starfa Sigurðar vekur nokkra athygli í ljósi þess að Guðmundur er ekki löglærður, eins og hann benti sjálfur á í tengslum við Íslandsbankamálið á síðasta ári.

Seint í gærkvöldi, fimmtudaginn 13. júní, birtist viðtal við Sigurð Þórðarson á mbl.is sem er um margt áhugavert.

Sigurður Þórðarson segir meðal annars: „Ég bara næ þessu ekki. Ég skil ekki hvað maðurinn er að fara. Ég var bara að skoða þetta tiltekna verkefni sem ég fékk þarna,“ og bætir við:

„Ég meina um hvað fjallaði þetta? Það var meðhöndlun á stöðugleikaframlögunum þrotabúa bankanna sem að ríkissjóður eignaðist. Ég talaði við slitabúin og við Seðlabankann. Þetta voru aðilar sem að komu að þessu ferli. Átti ég bara að tala við Lindarhvol? Menn verða nú aðeins að átta sig á því hvað felst í því að vera endurskoðandi.“

Ríkisendurskoðandi sem er ekki endurskoðandi

Þessi síðasta setning Sigurðar er baneitruð píla á Guðmund Björgvin, ríkisendurskoðanda. Eins og fyrr segir er hann ekki löglærður. En hann er heldur ekki endurskoðandi. Guðmundur Björgvin Helgason er stjórnmálafræðingur en ekki endurskoðandi.

Flestir myndu ætla að það lægi í hlutarins eðli að ekki mætti kjósa sem ríkisendurskoðanda aðra en þá sem væru réttilega menntaðir og vottaðir hæfir til að starfa sem endurskoðendur en svo mun ekki vera. Líklega er mikilvægt að festa kyrfilega í lög að enginn nema endurskoðandi megi gegna embætti ríkisendurskoðanda í ljósi þess að Alþingi var sjálfu ekki treystandi til að gera svo sjálfsagða kröfu síðast þegar það kaus nýjan ríkisendurskoðanda.

Sjá einnig: Hér er greinargerðin um Lindarhvolsmálið sem forseti Alþingis vildi ekki að væri opinberuð

Þöggunarfólkið í Lindarhvolsmálinu reynir nú að halda því fram að fátt nýtt hafi komið fram við birtingu greinargerðar Sigurðar Þórðarsonar. Fjármálaráðherra heldur því meira að segja fram að árangurinn af starfsemi Lindarhvols hafi verið hreint frábær.

Þetta er bara ekki rétt.

Mögulegt milljarðatjón – hugsanlega saknæmt

Bara í sölunni á Klakka varð ríkið af hálfum milljarði, eignin fór á hálfvirði. Þetta var engin óheppni. Í besta falli var um sleifarlag stjórnar Lindarhvols og Steinars Þórs Guðgeirssonar að ræða. Margt bendir hins vegar til að tilefni sé til að rannsaka málið með tilliti til refsiverðrar háttsemi þar sem Steinari og stjórn Lindarhvols var kunnugt um verðmat frá Deloitte sem verðmat Klakka á tvöföldu því verði sem selt var á til stjórnenda Klakka, auk þess sem Steinar Þór var fulltrúi Lindarhvols í stjórn Klakka og hafði upplýsingar um mjög gott uppgjör félagsins sem einungis stjórnendur Klakka sem keyptu á hálfvirði vissu um en ekki aðrir bjóðendur í félagið.

Sjá einnig: Lindarhvolsmálinu vísað til ríkissaksóknara

Lindarhvoll ráðstafaði eignum fyrir hundruð milljarða og ljóst er að þótt einungis tíunda hluta eignanna hafi verið ráðstafað með jafn skelfilegum hætti og Klakka getur tjón íslenska ríkisins hafa numið mörgum milljörðum.

Á mannamáli erum við hér að tala um möguleg umboðssvik stjórnar Lindarhvols og Steinars Þórs Guðgeirssonar eins og Hæstiréttur Íslands skilgreindi þau í hinum svonefndu hrunmálum. Umboðssvikin eru þá gagnvart eigendum Lindarhvols, íslenskum skattgreiðendum. Þetta er alvarlegt mál og fagnaðarefni að héraðssaksóknari skuli nú taka það til efnislegrar meðferðar.

Ábyrgð þingmanna mikil

Eitt af því sem mikilvægt er að rannsaka er hvers vegna Fjársýslu ríkisins eða öðrum opinberum aðila var ekki falið að ráðstafa stöðugleikaeignunum á sínum tíma. Hvers vegna vildi fjármálaráðherra endilega stofna einfalt einkahlutafélag til að ráðstafa ríkiseignum upp á hundruð milljarða? Hversu hátt ná umboðssvikin? Ljóst er að þau vinnubrögð stjórnar Lindarhvols og Steinars Þórs Guðgeirssonar, sem lýst er í greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, hefðu aldrei fengið að viðgangast hjá Fjársýslu ríkisins, sem er þaulvön að selja verðbréf í útboðum, án þess að því fylgi alvarleg eftirmál eða hneyksli eða rökstuddur grunur um að hagsmunir íslenska ríkisins hafi verið fyrir borð bornir vegna fúsks eða einhvers verra.

Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna ættu að hugsa sig vandlega um hvort þeir vilja verða meðsekir frekar en orðið er í því að reyna að hylja eitthvert alvarlegasta fúsk í meðförum eigna ríkisins frá stofnun lýðveldis. Ef til vill ætla stjórnarþingmenn að treysta því að ekkert verði úr málinu og að almenningur gleymi þessu máli fyrir kosningar. Þá þurfa þeir hinir sömu þingmenn að gera það upp við sig hvað þeir eru að gera á þingi og gagnvart hverjum þeir bera ábyrgð þegar upp er staðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorgerður Katrín: Í Covid vorum við upp á náð og miskunn Svía komin vegna þess að Ísland var ekki í ESB

Þorgerður Katrín: Í Covid vorum við upp á náð og miskunn Svía komin vegna þess að Ísland var ekki í ESB
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðni hryggur yfir græðginni – „Öllum er víst sama um þig, Freyja mín“

Guðni hryggur yfir græðginni – „Öllum er víst sama um þig, Freyja mín“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni