Neyðarástand blasir við í heilbrigðisstofnunum landsins og nauðsynlegt er að auka fjármagn til þeirra.
Sjúkraliðafélag Íslands skorar á stjórnvöld að auka fjármagn í fjárlögum næsta árs til heilbrigðisstofnana landsins. Í áskoruninni segir að nánast sérhver heilbrigðisstofnun glími við mönnunarvanda og álag. Nýverið hafi borist fréttir af ófremdarástandi í Vestmannaeyjum og á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem bregðast þurfi við.
„Yfir sumartíma og snemma hausts eru meginlínur lagðar í fjárlagafrumvarpi næsta árs innan sérhvers ráðuneytis. Núna er rétti tíminn til að benda á að óbreytt ástand gengur ekki. Heilbrigðisstarfsfólk er víða komið að þolmörkum.“ segir í áskoruninni
„Sjúkraliðafélag Íslands hvetur því heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra að tryggja aukið fjármagn til heilbrigðisstofnana landsins í fjárlagafrumvarpi næsta árs sem nú er í bígerð.
Fólk veikist, slasast og því fjölgar burtséð frá hvað er sett í fjárlög. Það gengur ekki lengur að láta heilbrigðisstarfsfólk taka á sig augljóslegan skort á fjármagni til heilbrigðisstofnana í formi aukins álags, bágra starfsaðstæðna og manneklu.“