fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Lindarhvolsmálið: Sigurður Þórðarson getur varpað sprengju á fjármálaráðherra, forseta Alþingis og ríkisendurskoðanda

Eyjan
Fimmtudaginn 8. júní 2023 11:23

Enn virðist óreiða einkenna starfsemi Lindarhvols og aðkomu tveggja síðustu ríkisendurskoðanda að félaginu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjármálaráðuneytið neitar enn að afhenda greinargerð Sigurðar Þórðarsonar fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda um málefni Lindarhvols þrátt fyrir að Umboðsmaður Alþingis hafi ítrekað bent ráðuneytinu á að túlkun þess á upplýsingaskyldu stjórnvalda sé andstæð lögum.

Ráðuneytið breytti í tvígang tilkynningu á vefsíðu sinni um lögfræðilegar ástæður þess að synjað hefur verið um birtingu greinargerðarinnar eftir að Umboðsmaður setti ofan í við það um túlkun þess á lögum og reglum.

Eftir seinni breytinguna óskaði Eyjan á ný eftir því að fá greinargerðina afhenta og fékk synjun með röksemdafærslu sem gengur gegn ábendingum Umboðsmanns og uppfærðri tilkynningu á vefsíðu ráðuneytisins.

Ráðuneytið vísar ávallt til greinargerðar Sigurðar sem „vinnuskjals“ en sú skilgreining er röng. Sigurður hefur sjálfur bent á að greinargerðin sé ekki vinnuskjal. Vinnuskjölin sem notuð voru við gerð greinargerðarinnar sendi Sigurður í 20 möppum og á minniskubb til varðveislu hjá Ríkisendurskoðun. Eyjan hefur kært synjun ráðuneytisins til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Mætti á lokaðan þingnefndarfund

Sigurður Þórðarson mætti á lokaðan fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gærmorgun. Nefndin hefur tekið aftur á dagskrá skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol sem legið hefur óafgreidd á Alþingi í rúm þrjú ár, sem mun vera einsdæmi með skýrslur frá þeirri stofnun. Ástæða þess að ekki hefur tekist að afgreiða skýrsluna er að Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, neitar að veita aðgang að greinargerð Sigurðar Þórðarsonar í trássi við vilja allra annarra nefndarmanna forsætisnefndar þingsins.

Á fundinum var farið yfir tvö bréf sem Sigurður hefur sent Alþingi varðandi þetta mál. Sigurður er mjög ósáttur við að greinargerð hans skuli ekki hafa verið gerð aðgengileg þar sem hann lítur svo á að hún sé þegar opinbert plagg. Þá telur Sigurður að Núverandi ríkisendurskoðandi, Guðmundur Björgvin Helgason, og Skúli Eggert Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi og höfundur skýrslunnar sem ekki hefur tekist að afgreiða í rúm þrjú ár, hafa vegið alvarlega að faglegum heiðri hans með yfirlýsingum um efni greinargerðar hans.

Á fundinum mun Sigurður hafa gert nefndarmönnum grein fyrir því að hann muni á næstunni gera upp hug sinn varðandi næstu skref af hans hálfu í þessu máli.

Ljóst er að í greinargerð Sigurðar Þórðarsonar eru gerðar alvarlegar athugasemdir við ýmis atriði varðandi ráðstöfun eigna Lindarhvols. Þessar athugasemdir eru virtar að vettugi í þeirri skýrslu sem Skúli Eggert Þórðarson, þáverandi ríkisendurskoðandi, skilaði til Alþingis fyrir meira en þremur árum. Í umræðum um þetta mál á Alþingi í vetur hefur komið fram að meirihluti þingheims vill fá greinargerð Sigurðar Þórðarsonar fram í dagsljósið áður en skýrsla Skúla Eggerts verður afgreidd.

Þinglok með miklum flýti

Í þessari viku ákvað ríkisstjórnin í miklum flýti að ljúka þingstörfum fyrir helgi þrátt fyrir að mörg umfangsmikil og mikilvæg mál séu óafgreidd. Margir telja þennan æðibunugang vera merki um að samlyndi ríkisstjórnarflokkana sé í besta falli takmarkað um þessar mundir.

Eitt þeirra mála sem ekki verður afgreitt á þessu þingi er Lindarhvolsskýrslan. Fróðlegt verður að sjá hver næstu skref Sigurðar Þórðarsonar verða í því máli. Lögspekingar hafa bent á að greinargerð hans sé þegar opinbert plagg og honum því í lófa lagið að koma henni fram í dagsljósið með einhverjum hætti kjósi hann að gera það.

Miðað við það sem fram kom við flutning Lindarhvolsmálsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar má ætla að greinargerð Sigurðar innihaldi upplýsingar sem geta komið sér mjög illa fyrir fjármálaráðherra, núverandi og fyrrverandi ríkisendurskoðanda og forseta Alþingis.  Birting hennar gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir ríkisstjórnarsamstarfið ef í ljós kemur að fjármálaráðherra og samflokksmaður hans, forseti Alþingis, hafi reynt að fela upplýsingart um vinnubrögð hjá stjórn Lindarhvols sem hafi kostað íslenska ríkið milljarða, jafnvel milljarðatugi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK