fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Eyjan

Ágúst Bjarni skrifar: Raunverulegar aðgerðir í húsnæðismálum sem skipta máli

Eyjan
Miðvikudaginn 7. júní 2023 16:30

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðustu misseri hef ég fjallað mikið um stöðuna í húsnæðismálum og viðrað áhyggjur mínar af stöðunni á húsnæðismarkaði til framtíðar ef ekkert yrði að gert. Það er að afleiðingarnar yrðu á endanum hátt fasteigna- og leiguverð sem leiða myndi að óbreyttu til aukins þrýstings á verðbólgu. Það er því mjög jákvætt að ríkisstjórnin hafi nú kynnt raunverulegar og skynsamlegar aðgerðir um kröftuga húsnæðisuppbyggingu inn í úrræði sem munu gagnast þeim hópum samfélagsins sem hafa átt hvað erfiðast með að koma sér þaki yfir höfuðið á undanförnum árum.

Fleiri leiguíbúðir og framlög til hlutdeildarlána verða aukin enn frekar

Framboð af húsnæði fyrir tekju- og eignaminni fjölskyldur og einstaklinga verður stóraukið með auknum framlögum til hlutdeildarlána ásamt því að stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins verða tvöfölduð. Það þýðir að 1000 íbúðir verða byggðar árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins í stað 500. Til viðbótar verða byggðar tæplega 800 íbúðir á þessu ári sem er fjölgun um 250 frá fyrri áformum. Hér er um tvíþættar aðgerðir að ræða þar sem annars vegar stofnframlög eru veitt til byggingar og kaupa á hagkvæmum leiguíbúðum og hins vegar aukin framlög til hlutdeildarlána sem veitt eru til kaupa á nýjum íbúðum og standa fyrstu kaupendum undir tilteknum tekjumörkum til boða. Á manna máli þýðir þetta að það verður farið í stórátak við að byggja hagkvæmar íbúðir fyrir þann hóp samfélagsins sem hefur staðið einna verst og hefur átt erfitt uppdráttar við að komast inn á fasteignamarkaðinn.  Þá er mikilvægt að ná höndum yfir þá stöðu sem ríkt hefur á leigumarkaði og koma þar á stöðugleika. Samhliða þeim aðgerðum sem ég hef hér farið yfir er unnið að lagabreytingum sem munu tryggja betur réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði, en búast má við tillögum þess efnis fyrir 1. júlí næstkomandi.

Tryggja þarf nægt lóðaframboð

Við vitum það og þekkjum að ef raunveruleg uppbygging á hér að eiga sér stað og standast þann metnaðarfulla tímaramma sem innviðaráðherra hefur kynnt, þá þarf að tryggja nægjanlegt framboð lóða á næstu misserum. Sveitarfélög þurfa að hafa svigrúm og getu til að brjóta nýtt land og byggja, samhliða því að þétta byggð. Þannig og einungis þannig munum við komast í mark í því verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur kynnt og ég hef hér farið yfir eru raunverulegar og góð skref í þá átt að tryggja áframhaldandi nauðsynlega uppbyggingu húsnæðis til næstu ára. Nú þurfa allir að taka höndum saman, því með samhentu átaki er hægt að koma í veg fyrir þá sviðsmynd sem ég hef ítrekað haldið á lofti; að aukinn skortur og samdráttur í uppbyggingu muni koma í bakið á okkur með miklum áhrif á fasteigna- og leiguverð sem síðar muni leiða til hárrar verðbólgu. Það er ástand sem við megum ekki undir neinum kringumstæðum láta raungerast.

Verkefni næstu mánaða

Það er auðvitað þannig að húsnæði er ein af grunnþörfum mannsins og hefur áhrif á allt okkar daglega líf, allt frá andlegri heilsu okkar til efnahagslegs stöðugleika og aukinnar samheldni í samfélaginu. Það er því óumflýjanlegt að staðan á húsnæðismarkaði verður áfram eitt af okkar stærstu viðfangsefnum næstu mánuði og þá sérstaklega í því verkefni að ná tökum á verðbólgunni til lengri tíma. Þrýstingur og ójafnvægi á húsnæðismarkaði snertir okkur öll með einum eða öðrum hætti og okkur sem störfum á vettvangi stjórnmálanna verður að bera gæfa til þess að horfa til framtíðar og tryggja stöðugleika í húsnæðismálum. Með því að byggja meira um land allt munum við ná tökum á verðbólgunni, annars ekki. Þessar aðgerðir eru því stórt skref í hárrétta átt og þeim ber að fagna.

Höfundur er þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir óvíst að Kristrúnu takist að halda Degi úti í horni til lengdar

Segir óvíst að Kristrúnu takist að halda Degi úti í horni til lengdar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það má semja um aðildarskilmála að ESB – mörg dæmi sýna það og sanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast

Sigmundur Ernir skrifar: Auðræðið eflist og lýðræðið linast
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi

Orðið á götunni: Nýir leiðtogar munu spreyta sig fyrir næstu borgarstjórnarkosningar – alger uppstokkun í aðsigi