fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Ole Anton skrifar: Greinin sem ekki fékkst birt í Morgunblaðinu

Eyjan
Sunnudaginn 4. júní 2023 16:39

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í á 4. viku hefur undirritaður beðið eftir birtingu neðangreindrar greinar í Morgunblaðinu/MBL. Þrátt fyrir eftirgangsmuni, líka við ritstjóra, hefur greinin ekki fengizt birt.

Þegar núverandi ritstjórar tóku þar ritstjórnarvöldin, 25. september 2009, sagði annar þeirra, Davíð Oddsson, þetta: „Blað gengur út á, að koma gagnrýnisröddum að, svo allir geti komizt að eigin niðurstöðum, þegar öll sjónarmið hafa fengið framgang“.

Þetta var flott hugsun hjá Davíð, vel mælt, góð stefna, en gallinn er bara sá, að hann stendur ekki við hana. Svíkur sína eigin yfirlýstu stefnu meir og meir.

Eftir fall Fréttablaðsins hefur ritskoðun á efni Morgunblaðsins greinilega stóraukizt, og efni, sem samræmist ekki skoðunum eða stefnu ritstjórans verið ýtt til hliðar í vaxandi mæli.

Einokunaraðstaða blaðsins á prentmiðlamarkaði hefur verið notuð, misnotuð, meir og meir, til að fyrirbyggja frjáls skoðanaskipti, frjálsa umræðu og frjálsa skoðanamyndun í landinu.

Lítið „sjálfstæði“ í því hjá málgagni Sjálfstæðisflokksins. Vanvirða fyrir flokkinn og aldar gamalt blaðið, sem á að standa fyrir og tryggja „sjálfstæði“; frelsi landsmanna til orðs og æðis.

Hér kemur sjávarútvegurinn auðvitað líka inn, en hann er ríki í ríkinu, og gefur ritstjórum skýrar línur um það, sem má og ekki má í efnismeðferð og birtingum.

Sjávarútvegurinn vill hvalveiðar, fullt frelsi til allra athafna og arðflettingar af hafinu og engar takmarkanir eða skerðingar, af neinu tagi á sinni starfsemi, en sjávarútvegurinn flokkar fornaldarlegar veiðar og grimmdarlegt og siðlaust dráp á háþróuðum spendýrum, langreyðum, sem flokka verður sem fíla hafsins, með veiðum á fiskum, sem eru miklu einfaldari dýr og hluti af náttúrlegri lífskeðju annarra fiska, sjávardýra og manna.

Morgunblaðið birtir því ekki fréttir eða annað efni, þar sem hvalveiðar eru gagnrýndar, þrátt fyrir það, að síðasta skoðanakönnun Maskínu sýni, að 51% þjóðarinnar er andvígt hvalveiðum, en aðeins 29% hlynnt. Ef þeim, sem ekki tóku skýra afstöðu, er sleppt, er 64% andvíg.  Skítt með skoðun þjóðarinnar!

Hérna kemur svo greinin, sem ekki hefur fengizt birt í MBL:

Við verðum nú sem þjóð að líta í spegil 

Undirritaður hefur fylgst með hvalveiðum hér, umhverfi þeirra, forsendum og flestu, sem þeim tengist, um árabil. Í ljósi þess, að hvalveiðar eru enn í gangi og enn er verið að fjalla um þær – reyndar á 6. stjórnarári Katrínar Jakobsdóttur, sem lýsti sig, ásamt með öðrum Vinstri grænum og núverandi sjávarútvegsráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, eindregið mótfallna hvalveiðum – vil ég gera nokkra grein fyrir þeirri mynd, sem við blasir.

Þekkingarskortur og skilningsleysi

Ýmsir halda, að öll sjávardýr séu einföld dýr, allt einhverjir fiskar, líka hvalir. Þetta er auðvitað firra. Sjávardýr eru jafn fjölbreytileg og ólík hvert öðru og landspendýr. Hvalir eru háþróuð spendýr, sem kenna hvert örðu, leika sér saman, bindast vina- og fjölskylduböndum, hlakka til og gleðjast, kvíða fyrir og hryggjast, finna á allan hátt til; eru í grundvallaratriðum sköpuð eins og við, mennirnir, og önnur landspendýr. Með háþróað skyn, greind og breitt tilfinningalíf.

Meiðsli, áverkar og limlestingar valda þeim kvölum, nákvæmlega eins og okkur, mönnum. Hvalir eru fílar úthafanna.

Dráp með sprengjuskutli

Veiðiskip eltir hval, sem reynir að forða sér. En, dýrin geta ekki kafað endalaust, og verða að koma upp til að draga andann. Hvalabyssan, 60-70 ára gamalt verkfæri, er ekki nákvæmt drápstól. Hvalurinn á ferð, og oftast sést aðeins á bak eða sporð örstutta stund.

Veiðiskilyrði líka oft misjöfn, og, þó að það sé skylda veiðimanna, aðeins að veiða við góð skilyrði, þegar unnt er að drepa örugglega með einu skoti, þá er sú skylda augljóslega ekki alltaf rækt. Um leið eru þá lög og ákvæði veiðileyfis brotin. Það ætti ekki að líðast.

Skyttan tekur í gikkinn og sprengjuskutullinn borar sig inn í síðu eða bak hvalsins og springur þar. Tætir hold og líffæri dýrsins, oft án þess að drepa strax. Klær skutuls spennast út og læsast í innyflum og holdi.

Í skýrslu um dráp á 148 langreyðum í fyrra kemur fram, að 36 dýranna háðu dauðastríð í allt að tvær klukkustundir, tvö þeirra þurfti að skjóta fjórum sinnum og eitt komst undan með skutul í bakinu eftir fimm klukkustunda eftirför, til þess eins að drepast í kvalræði og hörmungum!

Skelfilegar aðfarir og ömurleg helganga! Það hlýtur að vera eitthvað að okkur Íslendingum, mest samt vænu fólki, að við skulum styðja og leyfa þennan hrylling. Ein allra þjóða heims leyfum við dráp á stórhveli og það líka með þessum viðbjóðslega hætti.

Við verðum nú að líta í spegil. Hvar er okkar mannúð og siðmenning komin!? Erum við kannske skrælingjar nútímans?

Stórmerkilegar rannsóknir IMF

IMF, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, vinnur ekki aðeins með beinum hætti að efnahags- og gjaldeyrismálum, heldur beitir sjóðurinn sér líka fyrir ýmiss konar rannsóknum og greiningum á öðrum sviðum, sem hafa óbein áhrif á alþjóðleg efnahagsmál.

IMF hefur varið miklum tíma og fjármunum til að rannsaka loftslagsvána, enda trúlega stærsta einstaka vandamálið og áskorunin, sem við mannkyninu blasir.

Efnahagslega hliðin á þeim vanda er auðvitað hamfarahlýnunin með þeim loftslags- og veðrasviptingum – flóðum, þurrkum og fárviðrum – sem henni fylgja.

Hvað segir í rannsóknarskýrslu IMF?

Yfirskrift rannsóknarskýrslunnar er ”Nature’s Solution to Climate Change”; lausn náttúrunnar sjálfrar á loftslagsvánni.

Meðal annars leiða rannsóknirnar í ljós, að stórhveli, langreyður, taka til sín og geyma 33 tonn af  CO2 í búknum, sem jafngildir kolefnis geymsluþoli um 1.500 trjáa.

Þegar dýrin deyja, sökkva þau niður á botn, þar sem hræið og kolefnið nýtast sem næringarefni inn í vistkerfi lífvera neðstu laga hafsins.

Eins leiða rannsóknirnar í ljós, að næringarríkur úrgangur hvala er aðalfæða plöntusvifsins í hafinu, sem aftur framleiðir um helming alls súrefnis í lofthjúpnum.

Er framlag plöntusvifsins jafngildi fjögurra Amazon-skóga, hvað varðar kolefnisbindingu og loftslagsvernd. Amazon-skógarnir eru þó oft kallaðir lungu jarðarinnar.

Verðgildi langreyðanna okkar lifandi

IMF reiknar svo út verðgildi hvers stórhvelis, hverrar langreyðar, en ljóst er, að baráttan við loftslagsmengunina mun kosta mikla fjármuni.

Sú staðreynd, svo og mikið verðgildi hvala fyrir náttúru, lífríki og upplifun ferða- og heimamanna, er tekið með í reikninginn. Niðurstaða IMF er, að hvert stórhveli hafi verðgildi upp á a.m.k. 2 milljónir Bandaríkjadala, eða um 270 milljónir króna, en bara lifandi.

Ef Hval hf líðst, að veiða 150 langreyðar í sumar, jafngildir það þá því, að þessar langreyðar lifandi hefðu verðgildi upp á 40 milljarða króna, sem sennilega er tugfallt verðgildi afurðanna, ef þær seljast þá.

Og, til að bæta það tjónið á loftslagsgæðum, sem drápið á 150 langreyðum myndi valda, þyrfti að rækta upp skóg 225 þúsund trjáa.

 Tekjur af hvalaskoðun og hvalveiðum

 Síðast, þegar gerð var úttekt á tekjum af, annars vegar, hvalaskoðun og, hins vegar, hvalveiðum, gögn frá 2015, var talið, að  tekjur af hvalaskoðun á heimsvísu hefðu verið 2,1 milljarður Bandaríkjadala á sama tíma og tekjur af hvalveiðum voru aðeins taldar 31 milljón Bandaríkjadala. Voru tekjur af hvalaskoðun þannig 70 sinnum meiri, en af hvalveiðum!

Hvað sagði Jóhannes Kjarval um hvalina?

Það er við hæfi, að ljúka þessari greinargerð með tilvitnun í einn helzta snilling þjóðarinnar, Jóhannes Kjarval, sem elskaði hvali og sá og skildi mikilvægi þeirra fyrir lífríkið og jörðina:

„Hið stóra hjarta heimssálarinnar, hvalanna, sortjerar undir tónbylgjum, sem mundu glatast á þessum hnetti, ef við högum okkur verr en óvitar.“

(Hvalasaga 1956).

Höfundur er stofnandi og formaður Jarðarvina, félagasamtaka um dýra-, náttúru- og umhverfisvernd

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?