fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Þorbjörg Sigríður skrifar: Katrín segir og Bjarni segir

Eyjan
Miðvikudaginn 28. júní 2023 06:35

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Katrín Jakobsdóttir segir þjóðinni núna að ekkert hafi komið fram sem bendi til að óeðlilega hafi verið staðið að undirbúningi Íslandsbankasölunnar af hálfu fjármálaráðherra. Ég hugsa að umboðsmaður Alþingis hljóti að staldra við þessar yfirlýsingar. Yfirleitt gæta ráðherrar sín á því að tjá sig ekki um um mál hjá eftirlitsaðilum meðan þau eru enn til meðferðar. Öll þjóðin man eftir því, nema kannski Katrín, að spurningar um vanhæfi fjármálaráðherra vöknuðu eftir að í ljós kom að faðir hans var á meðal kaupenda í lokuðu útboði fagfjárfesta.  Í bréfum umboðsmanns til fjármálaráðherra er fjallað um hæfisreglur stjórnsýslulaga og spurningar hans varða m.a. undirbúning sölumeðferðar Íslandsbanka. Þegar fjármálaráðherra heldur því nú fram að hann beri enga lagalega ábyrgð á sölunni þarf hann að svara því hvers vegna umboðsmaður Alþingis er þá að skoða ákvarðanir hans. Í Kastljósviðtali þann 14. nóvember sl. kom skýrt fram hjá fjármálaráðherra að hann gæti borið pólitíska ábyrgð ef sala á ríkisbanka heppnaðist ekki vel og að hann gæti borið lagalega ábyrgð á sölunni. Skyndilega hefur sú afstaða hans gjörbreyst. Og sem fyrr eltir VG söguskýringar Sjálfstæðisflokksins.

Nýtt líf Bankasýslunnar

Ríkisstjórnin lagði niður Bankasýslu ríkisins í apríl 2022 með fréttatilkynningu og talaði þá um annmarka á undirbúningi sölunnar sem og á sölunni sjálfri. Ráðherrar töluðu þá um að þeir treystu ekki Bankasýslunni eftir það sem á undan væri gengið. Og síðan þá hefur ekkert heyrst  frá Bankasýslunni. Í fréttatilkynningunni sagði jafnframt að ef þörf væri á frekari rannsóknum þegar niðurstöður Ríkisendurskoðunar og Seðlabankans lægju fyrir myndi ríkisstjórnin sjálf beita sér fyrir slíku á vettvangi Alþingis.

Viðskiptaráðherra var sú eina innan ríkisstjórnarinnar sem virtist sjá að pólitíkin hefði haft eitthvað um söluna og framkvæmd hennar að segja. Hún gat jafnvel séð að ríkisstjórnin hefði tekið einhverjar ákvarðanir. Hún rifjaði t.d. upp umræður á fundum í ráðherranefnd um söluna þar sem ráðherrarnir deildu um hvaða söluaðferð ætti að velja. Í Morgunblaðinu sagði viðskiptaráðherra þetta: „Ég var ekki hlynnt þeirri aðferðafræði sem varð ofan á við söluna á bréfum í Íslandsbanka. Vildi almennt útboð en ekki að bréfin yrðu seld til valins hóps fjárfesta.“ Hún bætti við: „Ég hef alltaf talið skyn­sam­legt að taka lít­il og hæg­fara skref. Hafa vaðið fyr­ir neðan sig. Ekki ein­blína á verð, held­ur gæði framtíðar­eig­enda. Önnur leið var hins veg­ar val­in og því miður er fátt sem kem­ur á óvart í þessu máli og hver út­kom­an varð.“

Pólitískar ákvarðanir

Ákvörðun um að selja banka í eigu ríkisins var tekin af forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar. Risastór pólitísk ákvörðun eins og fjármálaráðherra hefur sjálfur sagt. Ákvörðun um söluaðferð var sömuleiðis tekin af sömu ráðherrum. Sérstök ráðherranefnd um efnahagsmál ræddi hvernig ætti að standa að sölunni. Og ábyrgðin á sölu á tugmilljarða hlutum í ríkisbanka er auðvitað alltaf æðsta mannsins í ferlinu. Það er ekki þannig að þriðja stærsta hlutafjárútboð Íslandssögunnar við sölu á ríkiseign hafi ekkert með stjórnvöld að gera.

Ábyrgð Íslandsbanka blasir sannarlega við eftir að niðurstaða Fjármálaeftirlitsins var kynnt og fjallað hefur verið rækilega um þátt Bankasýslunnar. Almenningur hefur hins vegar enn ekki fengið að sjá neina úttekt á aðdraganda sölunnar og á pólitískum þáttum málsins.

Eftir skýrslu Fjármálaeftirlitsins virðist vandamál ríkisstjórnarinnar ekki lengur vera framganga Bankasýslunnar heldur framganga Íslandsbanka. Það er talið sterkt að umboðslaus Bankasýsla mæti á hluthafafund fyrir hönd almennings. Formenn ríkisstjórnarflokkanna eru öll á því að lengra nái pælingar um ábyrgð og traust ekki. Það skýrir kannski hvers vegna bara þriðjungur þjóðarinnar treystir ríkisstjórninni.

Segja þarf alla söguna

Fyrst kom skýrsla Ríkisendurskoðunar sem fjallaði um þátt Bankasýslunnar en ekkert um pólitíkina í ferlinu. Nú birtist skýrsla Fjármálaeftirlits sem fjallar um afmarkaðan hluta sölunnar en fjallar ekkert um pólitíkina. Við höfum orð Katrínar og Bjarna fyrir því að þar hafi allt verið í sóma. En duga orð Katrínar og Bjarna til að endurheimta það traust sem glataðist í þessari sölu? Er ekki eðlilegra að fá að heyra alla söguna í stað þess að almenningur fá bara að heyra hvernig sagan endaði?

Lilja Alfreðsdóttir sagði á sínum tíma það sem við blasir. Það var ekki hægt að skella skuld­inni al­farið á stjórn­end­ur Banka­sýsl­unn­ar. Henni þótti raunar miður að málið væri ein­faldað þannig. Það er ekki heldur hægt að beina kastljósinu eingöngu að því hvernig Íslandsbanki klúðraði söluferlinu. Ábyrgðin hlýt­ur að vera stjórn­mála­manna sem tóku ákvörðun í mál­inu. Þau orð viðskiptaráðherra eiga enn við. Þess vegna þarf rannsóknarnefnd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt