fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Eyjan

Björn Jón skrifar: Landsmenn eiga betra skilið

Eyjan
Sunnudaginn 25. júní 2023 17:05

Haraldur konungur harðráði féll í orrustunni við Stafnfurðubryggju 1066. Úr ensku handriti frá 12. öld.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fláttskapur milli sjálfstæðismanna og vinstri grænna magnast með hverjum deginum og hlegið var í einum spjallþátta Ríkisútvarpsins í liðinni viku þegar þingmaður Framsóknarflokksins (sem ég hafði raunar ekki heyrt áður getið) lýsti kærleikum milli flokkanna á sama tíma og vígaferlin eru fyrir allra sjónum. Ósjálfrátt hvarflar hugurinn til vísuorða Gríms Thomsen:

Á Glæsivöllum aldrei með ítum er fátt
allt er kátt og dátt;
en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,
í góðsemi vegur þar hver annan.

Mér kom raunar til hugar í þessu sambandi annað kvæði Gríms Thomsen, um Halldór Snorrason, sem verið hafði lengi var í sveit Haralds konungs harðráða og meðal annars barist með Væringjum í Miklagarði. Konungur lét drýgja silfrið með koparblöndu sem hann notaði til að greiða hirðmönnum sínum og ekki nóg með það heldur var mjöðurinn þynntur. Grímur lætur Halldór mæla við konung:

Súrt er ölið, seyrður máli, sjálfur ertu blandinn táli.

Haraldarsláttan var meiri hluti kopar og Halldór fúlsaði við henni, felldi hana niður í hálminn á hallargólfinu. Þetta er endurtekið stef fram á okkar dag þar sem við sjáum verðgildi peninganna rýrna með hverjum deginum sem líður. Ósennilegt má telja að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur nái tökum á dýrtíðinni sem hún ber þó höfuðábyrgð á með óráðsíu í ríkisfjármálum. Jónas H. Haralz bankastjóri kom eitt sinn orðum að viðlíka ástandi með meitluðum hætti:

„Verðbólgan er niðurstöðutala allra mistaka okkar. Því hærri sem sú tala verður, því verr hefur okkur tekist að sætta þau markmið, sem við stefnum að. Hún er í senn mælikvarði tæringar í samfélagi okkar og tæringarvaldur.“

Grafalvarlegar aðdróttanir

Alltof langt mál yrði að rekja hnútukast stjórnarflokkanna hér. En meðal þess sem vakti furðu í síðustu viku voru ummæli Jódísar Skúladóttur, þingmanns Vinstri grænna, sem sagði sjálfstæðismenn sameinast „í að velta sér upp úr rasíska drullupollinum“. Þingmaðurinn sakaði þingmenn samstarfsflokks með öðrum orðum um daður við við kynþáttahatur. Einn þingmanna Sjálfstæðisflokks orðaði það svo í samtali við mig í liðinni viku að ummæli Jódísar færu út yfir öll velsæmismörk. En kannski er það til marks um undirlægjuhátt forystu sjálfstæðismanna að hún lætur þetta bara yfir sig ganga. Tekur svívirðingum meintra samstarfsmanna sem hverju öðru hundsbiti.

Ríkisstjórnin er ófær um að taka á þeim vanda sem upp er kominn vegna meingallaðrar löggjafar um útlendinga, en þær breytingar sem fyrrverandi dómsmálaráðherra náði í gegn hrökkva skammt. Í þessu sambandi má samt rifja upp að það er Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur sem ber höfuðábyrgð á setningu hinnar meingölluðu löggjafar um þessi mál þar sem vikið var langt frá viðmiðum hinna Norðurlandanna. Það er virðingarvert að vilja læra af mistökunum en við blasir að litlu verður þokað áleiðis í þessum málaflokki undir stjórnarforystu Vinstri grænna. Ekki er langt síðan Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sagði það beinlínis hlutverk VG í ríkisstjórninni að stöðva hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins. Forysta Sjálfstæðisflokksins tók því líka eins og hverju öðru hundsbiti — enda orðin vön vömmum og skömmum.

Ölið er súrt

Þrátt fyrir djúpstæðan ágreining gæti stjórnin samt tórað lengi enn. Meðan við bíðum þess að stundaglasið tæmist munu ráðherrar áfram fara hver sínu fram og litlu skeyta um meðalhóf og aðrar reglur stjórnsýslulaga. Og einleikir ráðherranna munu að líkindum enn frekar bera þess merki að tilgangurinn sé að skaprauna samstarfsflokknum hinum megin pólitíska ássins — því ég held að framsóknarmenn horfi yfirvegaðir á, vitandi að þeir hafa pálmann í höndunum. Ný stjórn verður trauðla mynduð án þeirra. Framsóknarmenn hljóta þó að óttast kosningar nú en líklega hafa engir viðlíka beig af kosningum og Vinstri grænir. Eina leið þeirra til að bæta þar verulega úr er að skilja sig rækilega frá Sjálfstæðisflokknum. Það kynni því að vera klókt pólitískt fyrir Vinstri græna að láta steyta á einhverju því máli sem þeir telja til vinsælda fallið. En tíminn verður að leiða í ljós á hvaða hest þeir munu veðja í því sambandi.

Úr því að ég tók líkingu af stundaglasi þá átti vitaskuld að hafa endaskipti á stundaglasinu eftir síðustu kosningar, enda aðrir eðlilegri kostir í boði til stjórnarmyndunar og ekki lengur það vandræðaástand sem uppi var eftir kosningarnar 2017 sem útheimti óvenjulega lausn. Endurnýjuð heit flokkanna fyrir tveimur árum voru fullkomlega að ófyrirsynju, áframhaldandi bandalag um „gagnkvæmt neitunarvald“ eins og það var orðað í liðinni viku, en engin skýr stjórnarstefna. Landsmenn eiga betra skilið. Kannski við hæfi að láta síðasta erindi áðurnefnds kvæðis Gríms Thomsen fljóta með í lokin til umhugsunar fyrir þingmenn og ráðherra stjórnarliðsins:

Náköld er Hemra, því Niflheimi frá

nöpur sprettur á;

en kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá,

kalinn á hjarta þaðan slapp ég.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu