„Við eigum að fara að ræða þessi vandamál, bara að setja okkar egó til hliðar.“
Þetta var boðskapur seðlabankastjóra á Sprengisandi á sunnudaginn. Hver setning í viðtalinu bar þess glögg merki að brýningin tók ekki síður til hans sjálfs en ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins.
Boðskapurinn er augljós: Þeir sem helst véla um efnahag fólksins í landinu eiga að taka þjóðarhag fram fyrir mat á eigin ágæti.
Nokkrum dögum fyrr hafði seðlabankastjóri að vísu komið Seðlabankanum í klípu með því að rjúfa trúnað við embætti ríkissáttasemjara og hæðast að verkalýðsforingjum fyrir það að efna til mótmæla gegn afleiðingum eigin gjörða.
Vel hæfur
Menn geta deilt um hvort seðlabankastjóri hafi lög að mæla eða fari með fleipur. Hitt skiptir meira máli að meta þessi tilþrif með hliðsjón af lögbundnu hlutverki bankans.
Ríkisstjórnin setur Seðlabankanum markmið um stöðugt verðlag. Alþingi framselur síðan bankanum afmarkað pólitískt vald til þess að hækka og lækka vexti á faglegum og sjálfstæðum grundvelli til þess að ná þessu markmiði.
Þetta er mikil ábyrgð. Fyrir hana fær seðlabankastjóri verðskuldað hærri laun en forsætisráðherra. Reynslan sýnir að hann er velhæfur til að taka þessar sjálfstæðu faglegu ákvarðanir fyrir pólitíkina.
Misskilur hlutverk og ábyrgð
En í ábyrgðinni felst líka að bankastjórinn þarf að geta þolað ádeilur og skammir vegna pólitískra markmiða ríkisstjórnarinnar án þess að blanda sér í pólitískar þrætur um þau efni. Þar hefur hann aftur og aftur brugðist.
Telji ríkisstjórn að vegið sé að seðlabankastjóra vegna þeirra ákvarðana, sem hann tekur fyrir hana, á hún að taka til varna. Finnist henni ekki þörf á vörnum verður seðlabankastjóri einfaldlega að una því. Hann fær borgað fyrir það.
Í viðtalinu á Sprengisandi talaði seðlabankastjóri mikið um þjóðarsátt milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins. Það er pólitískt verkefni, sem heyrir undir ríkisstjórnina en ekki Seðlabankann. Þar hefur seðlabankastjóri algjörlega misskilið hlutverk sitt og ábyrgð.
Sjálfstæður og trúverðugur Seðlabanki
Telji fólkið í landinu rétt að vinna að slíkri þjóðarsátt en ríkisstjórnin vill það ekki eða getur það ekki er kjósenda að taka á því í næstu kosningum.
Um leið og seðlabankastjóri reynir að taka forystu í þeirri pólitísku umræðu grefur hann undan sjálfstæði og trúverðugleika bankans til að taka ákvarðanir á óháðum faglegum grundvelli. Hann getur haft lög að mæla, en þau lög falla bara fyrir utan ábyrgðarsvið bankans.
Aðalatriðið er að skilja og virða lýðræðislega verkaskiptingu milli stjórnmála og sjálfstæðs óháðs Seðlabanka.
Bæði svið eiga það hins vegar sameiginlegt að það þjónar best þjóðarhag að menn setji eigið egó til hliðar.
Gamlir og nýir ráðgjafar
Í Sprengisandsviðtalinu rifjaði seðlabankastjóri upp að hann hefði verið ráðgjafi formanns Dagsbrúnar um efnahagsmál þegar þjóðarsáttin var gerð 1990.
Einnig lýsti hann þeirri skoðun sinni að í forsetatíð Gylfa Arnbjörnssonar hefði Alþýðusambandið notið ráðgjafar mun hæfari hagfræðinga en að undanförnu.
Þjóðarsáttin snerist ekki um aukin útgjöld ríkissjóðs og ekki um lækkun skatta. Kjarninn hennar fólst í því að ríkisstjórnin varð við þeirri sameiginlegu kröfu aðila vinnumarkaðarins að tryggja stöðugt gengi krónunnar. Tvær kerfisbreytingar gerðu það mögulegt: Frjálst framsal aflaheimilda og aðildin að innri markaði Evrópusambandsins.
Í forsetatíð Gylfa Arnbjörnssonar var þunginn í málflutningi ASÍ krafan um kerfisbreytingu í gjaldmiðilsmálum til að tryggja jafnræði og stöðugleika. Hagfræðingarnir hafa ugglaust styrkt rökstuðninginn. Og Þorsteinn Víglundsson þáverandi málsvari atvinnulífsins tók í sama streng af fullum þunga.
Eins og talað út úr mínu hjarta
Það er eins og talað út úr mínu hjarta þegar seðlabankastjóri bendir á mikilvægi samstöðu aðila vinnumarkaðarins um þetta efni eins og áður var. Það er stutt síðan.
Klípan er bara sú að það er ekki hlutverk seðlabankastjóra að þrýsta á um þetta. Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að plægja þann jarðveg.
Kannski myndi seðlabankastjóri njóta sín betur við sjálft ríkisstjórnarborðið. Þar er skortur á hugsjónum og réttlætiskennd.