Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnir í fyrramálið ákvörðun sína um stýrivexti bankans. Greiningardeildir allra stóru bankanna gera ráð fyrir að tilkynnt verði þrettánda stýrivaxtahækkunin í röð og hækkunin verði heilt prósentustig.
Gangi þetta eftir verða stýrivextir Seðlabankans 8,5 prósent, en þeir voru 0,75 prósent í maí 2021 þegar vaxtahækkunarferlið hófst. Yrðu þá stýrivextirnir orðnir ríflega 11 sinnum hærri en þeir voru fyrir tveimur árum.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sagði í samtali við Vísi í dag að í ljósi vaxtastefnu Seðlabankans sé kannski ekki skynsamlegt að gera langtímakjarasamninga. Einnig segir hann okkur komin á ögurstundu með að skoða upptöku nýs gjaldmiðils hér á landi. Einhver ástæða sé fyrir því að ástandið sé eins og það er.
Vilhjálmur bendir á að verðtryggingin sé mein sem geri Seðlabankanum og fjármálakerfinu kleift að hækka vexti svo mikið sem raun ber vitni. Nú verði fólkið vísað í verðtryggð lán, 600 milljarðar muni á næstu misserum fara úr óverðtryggðu yfir í verðtryggt.
Yfirlýsing peningastefnunefndar verður birt kl. 8:30 í fyrramálið og kl. 9:30 hefst vefútsending með kynningu á yfirlýsingu nefndarinnar.