Gengið hefur verið frá því að fyrirtækið Kambar hyggst byggja upp nýja verksmiðju í Þorlákshöfn. Kambar urðu til í byrjun árs 2022 þegar fyrirtækin Samverk glerverksmiðja, Trésmiðjan Börkur, Gluggasmiðjan Selfossi og Sveinatunga sameinuðust í eitt fyrirtæki. Þar með voru nokkur rótgróin íslensk framleiðslufyrirtæki í byggingariðnaðinum komin saman í einn rekstur.
„Við sáum þarna mikið tækifæri til hagræðingar og lækkun á kolefnisspori í byggingariðnaðinum með því að sameina öll þessi fyrirtæki. Með því að sameina alla okkar framleiðslu í glugga- og hurðasmíði á einum stað, með einni fullkomnustu verksmiðju í Evrópu, þá náum við bæði þeim árangri að lækka kolefnissporið verulega fyrir byggingariðnaðinn og að vera með íslenska framleiðslu á algjörlega samkeppnishæfu verði gagnvart innfluttri vöru,“ segir Karl Wernersson, stofnandi Kamba. Saga þessara fyrirtækja flestra er löng og samofin kröfuhörðum íslenskum byggingariðnaði. Vörurnar eru þróaðar fyrir íslenskar aðstæður og eru þess vegna einstakar í heiminum. Veðuraðstæður hér á landi reyna mun meira á glugga og hurðir en í flestum öðrum löndum heimsins. Lárétt íslensk rigning í hífandi roki og umhleypingar með miklum hitamun að vetrum eru einstök veðurskilyrði og erfitt viðfangsefni við hönnun og smíði glugga og hurða. „Við erum stöðugt að þróa okkar vörur eingöngu fyrir íslenskan markað og sérhæfum okkur því í að gera betri vörur sem þola þessar erfiðu veðuraðstæður sem við búum við og henta fyrir okkar byggingaaðferðir. Það verður því bylting á markaðnum þegar við getum líka farið að keppa í verði við innfluttar vörur með okkar vöru,“ segir Vignir Guðmundsson, sérfræðingur Kamba í gluggaframleiðslu.Svona mun nýja verksmiðjan líta út við Þorlákshöfn
Stefna að lægsta kolefnisspori í heimi
Staðsetning verksmiðjunnar í Þorlákshöfn var sérstaklega valin til að kolefnissporið yrði sem minnst. Stutt er í vöruflutningahöfn fyrir aðföng verksmiðjunnar og viðurinn sem er notaður er sérvalinn úr nytjaskógum í Skandinavíu þar sem bæði fást gæði og lægst kolefsnisspor við ræktun, vinnslu og flutning. Mikil sjálfvirkni verður í verksmiðjunni þar sem gluggarnir verða afhentir fullbúnir og glerjaðir fyrir byggingariðnaðinn. Allur úrgangur verður í lágmarki, plastnotkun hætt alls staðar þar sem því er komið við og verksmiðjan nálægt stærstum hluta markaðarins. Mun minna kolefnisspor verður fyrir byggingariðnaðinn við að Kambar flytji hráefnið til landsins og framleiði hér á landi með íslensku rafmagni en að flytja inn tilbúna og plássfreka vöru sem í flestum tilfellum væri framleidd með óhreinni orku. „Þorlákshöfn er að vaxa hratt á forsendum vaxandi atvinnulífs og við erum mjög stolt af því að Kambar skyldu hafa valið Þorlákshöfn sem staðsetningu fyrir verksmiðju sína. Ekki eingöngu er þetta öflugur atvinnurekandi með löngu viðurkennda vöru og þjónustu heldur verður húsnæðið hennar eitt af kennileitum bæjarins því um stærsta hús Þorlákshafnar verður að ræða. “ Segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.