fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Helga Vala hjólar í menntamálaráðherra – „Er verið að fækka skólum og fjölga ráðuneytum á sama tíma?“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 2. maí 2023 17:45

Helga Vala Helgadóttir Mynd: Sigtryggur Ari/Fréttablaðið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Er tímasetningin kannski ekki tilviljun? Er þetta eingöngu í sparnaðarskyni? Er verið að fækka skólum og fjölga ráðuneytum á sama tíma?“

spurði Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag þegar hún spurði Ásmund Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra út í fyrirhugaðar sameiningar framhaldsskóla.

Í síðustu viku voru kennarar Kvennaskólans í Reykjavík og Menntaskólans við Sund boðaðir á fund þar sem kynntar voru tillögur stýrihóps um sameiningu skólanna.

Helga Vala vakti athygli á skorti á samráði við nemendur, kennara og stjórnendur skólanna og orðum ráðherra um fyrirsjáanlega fækkun nemenda í bóknámi á næstu árum á sama tíma og ráðuneytið gerir ráð fyrir að skólasókn muni aukast í takt við farsæld barna og aukna áherslu á að draga úr brotthvarfi.

„Hæstv. ráðherra talar hér um fækkun nemenda og það var eiginlega óhugnanleg framtíðarsýn af því að hann talar um fækkun og fækkun og fækkun en gerir ekki ráð fyrir því að okkur fjölgar jafnt og þétt líka. Það virðist vera sem hæstv. ráðherra geri ráð fyrir að færri og færri fari í nám almennt og mér þykir það heldur sorgleg framtíðarsýn. Það virðist ekkert hafa verið rætt við stjórnendur, starfsfólk eða nemendur skólanna tveggja heldur hafa hugmyndir verið kynntar á afar viðkvæmum tíma í skólastarfinu.“

Bendir Helga Vala á að engar greiningar eða skýrslur liggi staðhæfingu ráðherra til grundvallar.  Bendir hún á að þegar framhaldsskólastigið var stytt var það gert án þess að farið væri heildrænt í skoðun á grunn- og framhaldsskólakerfinu. 

„Ríkiskassinn og atvinnulífið réðu för en ekki hagsæld nemanda eða gæði menntunar í framhaldsskólum. Rannsóknir sýna verr undirbúna háskólanemendur, aukna vanlíðan hjá ungmennum, meiri streitu vegna þess álags sem fylgdi styttingunni.“

Spyr Helga Vala: „Herra forseti. Ef sameina á skólana þarf að endurskoða frá grunni námsskipulag, framboð, námsbrautir, áfangalýsingar o.fl. því að umræddir tveir skólar eru í grundvallaratriðum ólíkir. Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra: Er ætlunin að leggja niður báða þessa góðu, vinsælu og sögufrægu skóla og stofna nýjan sem verður einhvers konar blanda af þeim ólíku námsleiðum sem þessir skólar bjóða upp á í dag? Erum við að tala um ríkisstjórn sem fækkar framhaldsskólum og fjölgar ráðuneytum?“

Spár gera ráð fyrir fækkun nemenda

Menntamálaráðherra svaraði fyrirspurn Helgu Völu og sagði að samkvæmt spám ráðuneytisins myndi nemendum fækka á næstu átta árum og aðeins verið að skoða fýsileika, ekkert væri ákveðið enn.

„Þetta mun samkvæmt spám ráðuneytisins, og ég kalla eftir umræðu um það ef menn eru ósammála þeim, gera það að verkum að við munum sjá á næstu átta árum, eitthvað slíkt, fækka í bóknámi sem nemur um 2.500 nemendum og í starfsnámi sem nemur 1.500–1.800 nemendum. Þetta kallar á gríðarlega uppbyggingu á skólahúsnæði, sértæku verknámshúsnæði, og í tengslum við það þurfum við að spyrja okkur: Hvaða breytingar þurfum við að ráðast í til að mæta því þá hinum megin frá? Á sama tíma erum við með metnaðarfullar áætlanir um námsgagnaútgáfu, aukna þjónustu við kennara í gegnum skólaþjónustulöggjöf og svo mætti áfram telja. Það sem verið er að boða í þessari vinnu er að kanna fýsileikann á þessum sviðsmyndum sem þarna eru nefndar. Það er ekki búið að loka neitt inni, það er ekki búið að taka ákvörðun um að sameina neina skóla, en við erum að skoða fýsileika og það eru þessar röksemdir sem ég nefndi hér sem búa að baki því að skoða þessi mál.“

Helga Vala tók aftur til máls og spurði:  „Hverjum datt í hug að það væri góð hugmynd að koma með svona tilkynningar í byrjun prófatarnar í framhaldsskólunum, þegar skráningar í framhaldsskólana eru að hefjast? Er tímasetningin kannski ekki tilviljun? Er þetta gert til þess að draga úr skráningum í þessa skóla, til að koma í veg fyrir að barn búi við fullkomna óvissu næstu ár?“

Ráðherra svaraði og sagði að samtalið yrði við alla aðila:

„Á Íslandi eru um 33% — voru 30% fyrir tveimur til þremur árum — sem fara í starfsnám. Meðaltal Norðurlandanna er 45%. Til þess að mæta þessu þurfum við að ráðast í ákveðnar breytingar á framhaldsskólakerfinu. Við þurfum að byggja 10.000–15.000 m² af verknámshúsum (Forseti hringir.) við skóla og samhliða ber okkur skylda til að skoða hvort við getum með einhverjum (Forseti hringir.) hætti, fyrir utan önnur verkefni sem ég nefndi, þá sparað á í fermetrum annars staðar. (Forseti hringir.) Þetta er bara vinna sem er í gangi. Það verður samtal við alla aðila og sjónarmið hv. þingmanns eru m.a. tekin inn í þá vinnu.“

Lesa má ræðu Helgu Völu og svör ráðherra hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?